"Slímugur" súkkulaðibúðingur


Það er svo skondið síðan ég byrjaði með þetta blogg hvað ég hef orðið meira meðvituð um hvað ég er að borða og sömuleiðis hvað ég borða ekki.  Ég til dæmis fæ alltaf pinku samviskubit þegar ég fæ mér bara eitthvað einfalt og þægilegt, eins og í gær hafði ég enga orku eftir í mér til að elda eitthvað almennilegt þannig að ég keypti eiginlega bara pylsur og pylsubrauð og skellti meira að segja í örbylgjuofninn (ég veit, hrikalegt!) ... eða hvað?

Ég hugsaði þetta lengi í gærkvöldi og komst eiginlega að þeirri niðurstöðu að þetta væri eiginlega bara ágætasti matur.  Ég hef reyndar eftir því sem þetta blogg lifir lengur freistast til þess að gera allskonar miskonandi útgáfur af hinni dæmigerðu pylsu, ég hef til dæmis byrjað að nota sinnep sem er saga til næsta bæjar en þó í takti við þróunina hjá mér, byrjaði bara með tómatsósu, svo tómat og steiktan, o.s.frv., en núna hef ég farið að vera ævintýragjarnari.  Ég set til dæmis alveg reglulega eitthvað hefðbundið eins og karftöflusalat, en líka laumast alveg til að setja nokkur jalapeno eða ferskt chillí með, bara svona til að gefa bragðlaukunum smá spark. En ég hef líka alveg upplifað það hversu matvönd ég er alveg svakalega.  Mamma segir að ég sé hundleiðinleg þegar kemur að því að gefa mér að borða, því ég borði ekki neitt :-)  Það er reyndar alveg svolítið til í því hjá henni.  Ég er með óþol fyrir fisk og mjólkurvörum, sem ég læt reyndar svo sem ekkert stoppa mig svona almennt, en svo finnst mér matur eins og slátur og þorramaturinn nánast eins og hann leggur sig algert óæti.  Ég er ekki hrifin af kótilettum og já, ég gæti haldið lengi áfram ... Versta er samt líklega að mér finnst eiginlega bara allt í lagi að vera matvönd - en það er svo sem saga í annað blogg.

Haha, ég ætlaði nú ekkert að skrifa um þetta en ég get lofað ykkur því að þessi uppskrift kemur mjög skemmtilega á óvart og það er engin hætta á að matvendni komi þarna við sögu, nema auðvitað að ykkur þyki súkkulaði ekki gott?  Það sem meira er, það er hvorki mjólk né rjómi í uppskriftinni sem er bara snilld fyrir lúða eins og mig :-)

Uppskriftin var eftirfarandi ...
4-6 bitar suðusúkkulaði
50 gr púðursykur
2 1/2 dl vatn

75 gr smjör, mjúkt
75 gr púðursykur
65 gr hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
8-10 bitar suðusúkkulaði, brætt
3 egg

Skellti vatni í pott og leyfði suðunni að koma upp

og fjórum súkkulaðibitum út í vatnið. 
Leyfði súkkulaðinu að bráðna og tók svo pottinn 
af hitanum og setti til hliðar.

Tók svo átta súkkulaðibita og bræddi í örbylgjuofninum.

Tók svo stóra skál og setti smjörið þar í ...

ásamt púðursykrinum ...

hveitinu, lyftidufti og matarsóda ...

og eggin þrjú.

Þeytti allt saman og bætti svo súkkulaðinu út í
og þeytti aðeins meira saman - ekki of mikið samt :-)

Tók fram lítið ofnfast form og smurði það. 

Hellti deiginu ofan í formið ...

og hellti svo súkkulaðivatninu ofan á

og eftir smá stund fór vatnið að sökkva undir
deigið og þá var bara að skella þessu inn í ofninn
sem var stilltur á 180°C í 15 mínútur.

Út kom þessi fallega kaka 

og svo var lítið annað að gera en að njóta!
Kakan var bökuð að ofan en svo alger búðingur
að neðan þar sem vatnið hafði myndað 
súkkulaðibúðing undir kökunni. 

Namm hvað þetta var gott! Ekta með rjóma
eða góðum ís, til dæmis vanillu eða karamellu -
Allt eftir smekk :-)

Bara gott og líka alveg pinku skemmtilegt að borða, brjóta skurnina og sjá allt súkkulaðigúmmelaðið fyrir neðan. Það sem var líka svo yndislegt við þessa uppskrift var að ég gerði þetta bara þegar við vorum búnar að borða, tók tvær mínútur að gera og svo korter inn í ofninum - mæli óhikað með þessum hvort sem er hversdags eða spari!

Meira síðar.

Ummæli