Ofnbakað kjúklingapasta með sveppum

Aðalréttur föstudagskvöldsins var ofnbakað kjúklingapasta með sveppum.  Satt best að segja þá varð þessi réttur fyrir valinu af þeirri einföldu ástæðu að ég vissi að hann myndi smakkast vel og því ég átti kjúkling og raunar allt annað innihaldsefnið heima - sem sagt einfalt og þægilegt :-)

Uppskriftin endaði svona ... fyrir 4-6
Kjúklingurinn sjálfur
4 kjúklingabringur
1 msk smjör
1 msk ólífuolía
Salt og pipar

Sveppirnir
1 msk smjör
1 msk ólífuolía
500 gr sveppir (ég notaði 250gr búðarsveppi og 250gr villisveppi sem ég átti í frystinum)
1 laukur
5 hvítlauksgeirar

1/2 tsk basilíka, þurrkuð
1/2 tsk oreganó

1 dl hvítvín

Sósan
75 ml hveiti
8 dl nýmjólk
2 dl rjómi
2 dl kjúklingasoð
1/8 tsk múskat
1 3/4 tsk salt

Restin
350-400 gr tagliatelle
1 1/2 dl grænar baunir, frosnar
2 dl rifinn parmesanostur
1/2 dl brauðmolar

Byrjaði á að skera kjúklingabringurnar í bita og
pipraði og saltaði bitana

Bræddi smjör og ólífuolílu á pönnu

og skellti svo kjúklingnum út á og steikti vel,
þegar hann var steiktur setti ég hann svo í stóra skál

Þá var að sneiða sveppina og skera laukinn í litla bita

Byrjaði svo á að steikja frosnu villisveppina 

og bætti svo restinni af sveppunum út á pönnuna.

Þegar sveppirnir voru farnir að mýkjast bætti ég
lauknum og hvítlauknum út á ...

og svo í framhaldinu basilíkunni og oreganóinu.

Að lokum var að bæta hvítvíninu út á ...
eitt glas fyrir pönnuna - annað fyrir kokkinn ...


Þegar hvítvínið hafði gufað upp hellti ég sveppunum
af pönnunni og í skálina með kjúklingnum.

Þá var það sósan.  
Takið eftir að hér var ég að nota of litla pönnu ...
þurfti að skipta yfir í stærri pönnu :-)
Byrjaði á að bræða 3 msk af smjöri á pönnunni

og bætti svo hveitinu út á ...

og blandaði vel saman við smjörið ...

áður en ég hellti mjólkinni saman við 
(og tími var kominn til að skipta um pönnu sem
hefði augljóslega ekki þurft að gera ef ég hefði 
bara aðeins hugsað þetta betur áður en ég byrjaði :-)

og svo rjómanum ...

og að lokum kjúklingasoðinu ...

og auðvitað smá salt og pipar ...

og múskat.

Svo var bara að leyfa þessu að krauma og hræra
(mjög ) reglulega í og leyfa sósunni að þykkna.

Á meðan sósan var að vinna töfra sína bætti ég
grænu baununum út í skálina með sveppunum og
kjúklingnum, auk þess að undirbúa forréttinn 
og auðvitað sjóða pastað ... :-)

Sósan farin að líta vel út 

og pastað komið í pottinn ...

Ágætt að nýta tímann og rista brauð
og skera í mola ... Fékk líka góða hjálp
frá Kareni :-)

Þegar pastað var tilbúið hellti ég vatninu af því og
skellti pastanu í skálina með kjúklingnum og því.

Með dyggri aðstoð Birgis vinar míns var þessu öllu
blandað vel og vandlega saman ...

og svo var bara að hella sósunni út í og blanda aðeins
betur og hella svo í stórt ofnfast form og svo
auðvitað parmesanosturinn ásamt brauðmolunum yfir.

Að lokum var bara að skella þessu inn í ofn í um 
það bil 20-30 mínútur eða þar til osturinn hafði brúnast

og úr varð þessi ágætasti og mettandi aðalréttur.

Þetta var virkilega góður réttur og minna vesen en hann lítur út fyrir að vera :-)  Eina sem hann líklega "þjáðist" fyrir var að koma á eftir alveg fáránlega góðum forrétti

Meira síðar.

Ummæli