Nautasteik á brauði

Í tilefni af smá pásu frá ritgerðarskrifum og heimsókn góðra vina yfir helgina kom ekkert annað til greina en að skella í þriggja rétta máltíð til að bjóða þau velkomin og njóta föstudagskvöldsins.

Í forrétt var þessi líka geggjaði réttur - nautasteik á brauði!  Namm, borðaði svoleiðis aftur í morgunmat ... smá upphitun fyrir skírnina sem var í dag. Þetta var einfaldur og þægilegur réttur sem reyndist mmm... virkilega góður.  Það sem var þó líklega skemmtilegast við hann var hvernig bragðið var lagskipt  ... þið verðið eiginlega bara að smakka til að skilja hvað ég á við :-)

Uppskriftin endaði svona ... fyrir 4
8 plómu- eða krisuberjatómatar
4-8 hvítlauksgeirar
Ólífuolía
Salt og pipar
1 nautasteik, keypti hluta af innlæri
1-2 msk ólífuolía
1-2 tsk sítrónusafi
1 rósmaríngrein
1 rauð paprika
1 dl mæjónes
4 þurrkuð chillí
8 þunnt skornar baguette sneiðar
Rúkólasalat
Parmesan (eftir smekk)


Byrjaði á að búa til tvær álpappírsskálar og setti
í aðra þeirra hvítlauksgeirana og í hina tómatana,
hellti smá ólífuolíu yfir hvort tveggja og salt og pipar.

Lokaði bögglunum svo og skellti inn í ofn við 230°C.
Var með hvítlaukinn í sirka 10 mínútur inni en 
tómatana í sirka 15-20 mínútur.

Þá var það nautasteikin ...

Setti ólífuolíu og sítrónusafa á disk,

tók hvítlaukinn og rósmarínið (sem ég hafði tekið af stilknum)
og saxaði ...

frekar gróft ...

Bætti því svo út í og blandaði saman við ólífuolíuna.
Vellti svo steikinni upp úr þessu og reyndi að nudda inn í
steikina. Skóf svo mesta draslið af steikinni og ...

Dró fram fínu grillpönnuna mína og skellti steikinni á,
ásamt paprikunni sem ég hafði skorið í grófa bita.

Steikina steikti ég líklega í um 4 mínútur á hverri hlið

og var með paprikuna á jafn lengi - en planið
var að hafa kjötið frekar rare og djúsí.

Þá var það sósan.  Dró fram töfrasprotann (líka hægt
að nota matvinnsluvél) og skellti mæjónesinu í skálina ...

og paprikunni ...

og chillíinu, salt og pipar. 
Svo var bara að beita töfrum töfrasprotans og voilá,
sósan tilbúin mínútu síðar.

Þá var það steikin ... var mjög spennt að sjá
hvernig til hefði tekist - var að steikja heila steik
í fyrsta skipti á ævinni ... :-)

Skar hana í þunnar sneiðar - 
Sjáið þið hvað hún er falleg?? 

Þá var það brauðið - léttsteikti það á pönnunni.

Að lokum var að taka tómatana úr ofninum - 
fallnir og fallegir eins og þeir áttu að vera.

Loks var að setja þetta allt saman saman. 
Raðaði brauðinu upp ...

Setti sósu á brauðin ...

Smá rúkóla á hverja sneið

Kjötsneið á hverja sneið 

og að lokum tómatana og svo parmesan eftir smekk.

Mmm ... er að hugsa um að lauma mér inn í eldhús og tékka á afgöngunum.

Meira síðar.

Ummæli