Appelsínu-estragon-myntu-lamb

Í tilefni af því að núverandi og fyrrverandi rokkstjórar (og auðvitað Dóra Hlín og Hálfdán Ingólfur) voru að koma í mat þá ákvað ég að það væri tilvalið að skella í páskalamb. Þar að auki var akkúrat vika í páska og tilvalið að byrja að fagna þá þegar. Mig langaði líka að prófa eitthvað aðeins öðruvísi og stóðst því ekki freistinguna þegar ég rakst á uppskrift sem varmeð kryddi sem ég hafði ekki prófað áður, auk þess sem ég hafði heldur aldrei áður notað appelsínubörk til að krydda kjöt með.

Uppskriftin endaði svona ...
170 gr smjör
3 msk estragon
3 msk ferk mynta
4 tsk estragon edik (ég notaði hvítvínsedik og setti estragon út í og leyfði að standa í smá tíma)
2 tsk gróft salt

2-3 kg lambalæri (eftir því hversu margir eru að koma í mat)
Skorinn börkur utan af einni appelsínu
2 msk ólífuolía
Salt og pipar
4 dl rauðvín
1,5 dl kjúklingasoð
2 tsk rifinn appelsínubörkur

Á þriðjudagskvöldinu muldi ég estragon út í edik,
leyfði því svo að standa yfir nóttina - þó hefði örugglega
dugað að leyfa því að standa í sirka klukkustund, nennti
bara ekki að gera smjörið þarna um kvöldið. En 
það er einmitt tilvalið að gera það daginn áður.

Notaði lítinn hníf og skar börkinn utan af appelsínu,
reyndi að gera það mjög þunnt og taka ekki hvítt með.

Var svo með 1,8 kg læri og hreinsaði það.

Stakk svo göt í það og setti slatta af appelsínubörk í hvert gat.
Setti lærið svo í poka og inn í ískáp og leyfði því
að vera þar yfir nóttu.

Þá var að gera smjörið.  Setti mjúkt smjör í skál.

Bætti svo út í skálina estragoni ...

og smátt skorinni myntu ...

og salti og estragon edikinu.

Notaði svo einfaldlega gaffal til að blanda öllu vel saman.

Setti smjörið svo í skál og inn í ískáp þar til ég þurfti að nota það.

Þá var að styttast í matinn og þá tók ég lærið út.
Smuurði það með smá ólífuolíu og saltaði og pipraði.
Prófaði aðnota saltið frá Saltverk - virkar vel :-)

Setti svo ólífuolíuna í steikarpott og lærið ofan í.
Stillti ofninn á grill (220°C) og skellti lærinu inn í ofninn.

Tók það svo út eftir sirka 4 mínútur og snéri og setti
aftur inn í ofninn. 

Þá var að taka lærið út aftur og smyrja það vel með 
estragon-myntusmjörinu.  Setti það aftur inn í ofninn 
í sirka 15 mínútur.  Lækkaði svo á ofninum í 180°C.

Tók lærið út og smurði það aftur vel og vandlega,
skellti hitamælinum í og lokinu á pottinn og setti
lærið inn í ofniinn enn á ný, í þetta skiptið í u.þ.b. 
50 mínútur eða þar til kjarnhitinn var kominn í 60°C.
Þá tók ég það út og skellti álpappír og svo þurrkustykki
utan um og leyfði því að jafna sig. 

Þá var að gera sósuna.  Tók fram pönnu og hellti úr
steikarpottinum í hana og reyni að ná skrapinu úr botninum líka.
Hellti svo kjúklingasoðinu saman við ...

Hellti svo rauðvíninu út í og leyfði suðunni að koma upp.
Þeytti reglulega.

Bætti svo slatta af estragon-myntusmjörinu út í
og appelsínuberkinum, svo var bara að leyfa þessu
að sjóða þar til hún hafði þykknað aðeins og rýrnað.

Þetta lofaði rosalega góðu :-)

Svo var bara að njóta - kjötið tilbúið ...

og sósan líka!

Þetta reyndist nú barasta virkilega gott. Það var alveg hreint magnað hvað appelsínubragðið reyndist koma í gegn í kjötinu og já, ég er ekki frá því að gestirnir hafi verið mjög hrifnir :-)  Með þessu bar ég svo fram ferskt grænmeti og steiktu kartöflurnar mínar sem eru alltaf jafn fáránlega góðar! Skil ekki að ég skuli ekki gera þær oftar!

Meðan ég man - ef þið eruð að leita í uppskriftunum hjá mér, þá er langbest að gera það með því að fara á valmyndina sem er til felum hérna ofarlega hægra megin á skjánum - hún sem sagt fellur inn nema þegar örinni er rennt yfir og þar getið þið valið labels og þannig fundið uppskriftirnar eftir flokkum.  Njótið!

Meira síðar.

Ummæli