Rúllaðar sætar kartöflur

Ég fékk góðar vinkonur í mat nýlega og var þema dagsins grænmetisréttir.  Ég var auðvitað með tvo aðalrétti, aðallega út af því að mér fannst annar þeirra ekki hljóma nógu mikið eins og aðalréttur til að duga sem aðalréttur fyrir 8 manns.  Hann kom þó auðvitað vel út og skemmtilega á óvart - þó ég sé nú samt ekki alveg að kaupa þetta sem aðalrétt, heldur meira sem forrétt eða matarmikið meðlæti.  Það sem skipti þó auðvitað mestu máli var að þetta var nú bara virkilega bragðgott :-)

Uppskriftin var eftirfarandi ...
225 gr rjómaostur
5 msk hrein jógúrt
1/2 blaðlaukur
2 msk hakkaðar pekanhnetur
450 gr sæt kartafla
12 allrahanda-ber (all-spice)
4 egg
1 dl rifinn ostur
1 msk sesamfræ
Salt og pipar

Byrjaði á að afhýða sætu kartöfluna

og skar í grófa bita

sem ég setti svo í pott og sauð í 10-15 mínútur,
eða þangað til kartöflurnar voru orðnar mjúkar í gegn.

Á meðan hinar fjallmyndalegu kartöflur suðu aðskildi
ég eggin og eggjarauðurnar

og reif ostinn.

Tók allrahandaberin og muldi í mortéli

Heppnaðist bara býsna vel :-)
En augljóslega getið þið notað líka tilbúið mulið krydd,
sirka1 og 1/2 tsk

Þá voru kartöflurnar soðnar og þá var bara að 
setja þær í matvinnsluvélina ásamt muldu 
allrahandanu og láta matvinnsluvélina vinna vinnuna

Hakkaði kartöflurnar þar til þær voru orðnar að 
kartöflumús

Þá var að setja þær í skál ásamt eggjarauðunum 

og ostinum, salt og pipar

og blanda þessu öllu saman með sleif.

Setti kartöflurnar til hliðar í bili og þeytti eggjahvíturnar

allt þar til þær voru farnar að stífna, 
en þó ekki of mikið - mega ekki þorna.

Skellti eggjahvítunum smátt og smátt saman 
við kartöflurnar

Fyrst gekk það nú hægt ...

bætti við meira af eggjahvítunum ...

og hrærði með sleif og þolinmæði
þar til kartöflurnar höfðu blandast við saman við eggin.

Þá var að taka fram formið (grunnt 33x25 cm) og
setja á smjörpappír (setti smá olíu undir til að halda
pappírnum betur á forminu) og hellti svo kartöfludeiginu á.
Mæli með að smyrja pappírinn líka ofan á, ekkert mikið
- bara rétt til að það sé auðveldara að losa pappírinn síðar.

Reyndi svo að dreifa úr því og jafna eins og kostur var,
notaði pönnukökuspaðann í það ábyrgðarverk.
Skellti forminu svo inn í 200°C heitann ofn í sirka 12 mín.

Út kom þetta líka fallega "brauð" - leyfði því
aðeins að jafna sig og á meðan ...

tók ég til hreint þurrkustykki og setti á það góða ræmu
af bökunarpappír og dreifði sesamfræjunum yfir.

Tók svo kartöflubrauðið af forminu og hvolfdi því á 
bökunarpappírinn - ofan á sesamfræin.

Losaði svo bökunarpappírinn ofan af

og braut svo bökunarpappírinn örlítið yfir annan endann
og rúllaði brauðinu svo varlega upp inn í bökunarpappírnum
- passið að gera það hægt og rólega, brauðið er viðkvæmt.

Svo vafði ég þurrkustykkið utan um og setti inn í ískáp
yfir nóttu.  Þetta gerði ég kvöldið áður 
- sem er alls ekki nauðsynlegt en hentaði mér til að 
minnka vinnuna daginn sem matarboðið var.

Þá var að útbúa fyllinguna!
Byrjaði á að saxa blaðlaukinn.

Tók svo pekanhneturnar og setti í matvinnsluvél

og hakkaði frekar fínt.


Tók svo fram skál og setti rjómaostinn þar

ásamt jógúrtinu ...

blaðlauknum og hnetunum -
Notaði svo einfaldlega skeið til að blanda öllu saman.

Svo var bara að rúlla rúllunni út og dreifa
fyllingunni vel og vandlega yfir

og rúlla þessu aftur upp og aftur svo inn í 
bökunarpappír og þurrkustykki.  Aftur þá 
var það raunar ekki nauðsynlegt, en hentaði til að
geyma rúlluna þar til kominn var tími til að borða.

Svo var bara að skera rúlluna í bita og bera fram!

Þetta reyndist vera léttur og bragðgóður réttur - skemmtilegur við öll tækifæri.  Kannski sérstaklega skemmtilegur að því leiti að það er ekkert hveiti og enginn sykur ef fólk er að forðast slíkt, en skemmtilegur sömuleiðis því þetta er aðeins öðruvísi bragð og ferskt!

Meira síðar.

Ummæli

Guðný Björg sagði…
Þetta er svakalega flott blogg, ég á eftir að fylgjast með því og örugglega prufa ég einhverntíman rúlluna, kærar þakkir fyrir að deila þessu :D
Bestu kveðjur Guðný Björg