Morgunkornskökur

Ég veit ekki með ykkur, en ég lendi alltof oft í því að kaupa eitthvað voða gott í búðinni sem ég enda svo á að nota ekki.  Til að mynda keypti ég stóran pakka af morgunkorni fyrir langa löngu, keypti hann reyndar fyrir gesti en ég hef svo auðvitað ekkert notað af honum enda borða ég ekki morgunkorn sjálf, nema þegar því hefur verið breytt í sælgæti eða eitthvað slíkt.

En það eru góð ráð dýr þegar maður situr uppi með stóran pakka af morgunkorni sem ég vildi auðvitað ekki henda og svo er ég eiginlega að reyna að forðast sælgæti þannig að það voru góð ráð dýr.  Þá datt mér í hug að kökur væru auðvitað ekkert sælgæti - er það nokkuð? :-)

Uppskriftin var eftirfarandi ...
75 ml sykur
112 gr smjör
1/4 tsk salt
1 tsk vanilludropar
1 egg
1 msk mjólk
1 tsk lyftiduft
2 dl hveiti
8 dl morgunkorn (notaði Special K)

Byrjaði á að setja í skál sykur og smjör og þeyta saman 

Bæta svo út í vanilludropunum

og egginu og þeyta saman við sykurinn og smjörið

Svo var að bæta við þurrefnunum, hveiti og lyftidufti
og þeyta saman við deigið

og svo bæta út í mjólkinni.

Þá var loks komið að setja morgunkornið út í.

Notaði sleif til að hræra deiginu og morgunkorninu saman.

Svo, út af því að ég stóðst ekki freistinguna og út af 
því að ég átti sykurpúða sem voru að skemmast,
þá bætti ég 1 dl af sykurpúðum út í.  Ég get ekki
mælt með því að bæta þeim út í þar sem þeir 
bráðnuðu og hörðnuðu eiginlega of mikið, það 
er þó hugsanlegt ef ofninn væri stilltur á lægri hita
en ég mæli eiginlega bara með að sleppa þeim :-)

Svo var bara að nota skeið til að móta kökur og 
raða á ofnplötuna og skella svo inn í ofn sem var 
stilltur á 190°C blástur í 10 mínútur.


Voilá - þessar líka fínu kökur sem komu út - 
svona fyrir utan sykurpúðavitleysuna í mér :-)

Mæli óhikað með þessari uppskrift til að losna við morgunkorn - passið bara að sleppa sykurpúðunum og að hafa þær ekki of lengi inn í ofninum en þá eru þetta svona líka frábærar, mjúkar og góðar smákökur sem eru tilvaldar til að taka með sér til að borða með morgunkaffinu í vinnunni!

Meira síðar.

Ummæli