Engiferbollakökur með mangósmjörkremi

Eins og svo margir þá reyni ég að halda mig frá sælgæti og annarri óhollustu.  Það er þó ýmislegt sem er meira freistandi en annað, sem á reyndar alveg sérstaklega við um kökur í mínu tilfelli - sérstaklega út af því að mér finnst líka bara svo gaman að baka.  Kosturinnv við að baka sjálf er þó sá að ég smakka yfirleitt svo mikið af deiginu að ég enda á að hafa ekki lyst á nema kannski einni kökusneið eða einni bollaköku :-)

Ég keypti mini-sílikon muffinsform um daginn og því kom auðvitað ekkert annað til greina en að skella í bollakökur.  Fyrir valinu varð uppskrift sem ég hafði haft augastað á í nokkurn tíma en aldrei þessu vant fann ég hana á netinu.

Uppskriftin endaði svona ... Dugar í sirka 20 mini-bollakökur
Engifersýróp
120 ml vatn
110 gr sykur
Biti af ferskri engiferrót


Kökurnar sjálfar
133 gr hveiti
1/2 tsk lyftiduft
1/4 tsk matarsódi
1/8 tsk salt
1/2 msk malað engifer
1 msk kanill
1/8 tsk negull
65 gr púðursykur
32 gr smjör, brætt
1 egg
3 msk sýróp
90 (87,5) ml vatn

Kremið
15 gr smjör
1/2-1 msk hunang
1 1/2 mangó
3 eggjarauður
82,5 gr sykur
57 ml sýróp
225 gr smjör, mýkt og skorið í bita
1/2 msk vanilludropar
2-4 dl flórsykur

Byrjaði á að gera engifersýrópið.
Tók fram lítinn pott og setti í hann vatn ...

og sykur.

Skar engiferrótina í grófa bita

og skellti þeim út í pottinn.

Svo var bara að leyfa þessu að sjóða þar til 
sykurblandan var farin að þykkna aðeins. 
Tók þá pottinn af hellunni og leyfði að jafna sig
í u.þ.b. 30 mínútur þannig að engiferbragðið 
náði að skína í gegnum sykurinn.



Þá var að gera kökurnar sjálfar.  Byrjaði á að 
setja öll þurrefnin í sigti  

og sigtaði þau saman í stóra skál

Tók svo aðra stóra skál og setti brætt smjörið í,

ásamt púðursykrinum 

og egginu ...

og sýrópinu.

Svo notaði ég handþeytara til að þeyta allt saman.

Bætti svo vatninu ...

og þurrefnunum út í - smátt og smátt

og þeytti áfram öllu saman þar til þetta líka
bragðgóða deig hafði myndast.

Þá var að kveikja á ofninum, 180°C blástur, og
raða upp formunum á ofnplötu.

Fyllti formin með deigi að þremur fjórðu hluta
og skellti þeim svo inn í ofninn í sirka 10 mínútur.

Út komu þessar líka girnilegu kökur :-)

Þá var að taka fram engifersýrópið og smyrja
hverja köku með því.

Namm hvað þetta var girnilegt.

Þá var að gera kremið.  Byrjaði á að taka mangóið,
afhýddi það og skar í bita.

Tók svo fram pönnu, setti smjör á hana

og hunang ...

og skellti svo mangóinu á pönnuna 
 
og steikti það upp úr smjörinu og hunanginu þar
til mangóið var orðið mjúkt.

Þá var bara að skella mangóinu af pönnunni og 
í matvinnsluvélina og púrra mangóið.

Hellti svo mangóinu úr matvinnsluvélinni og í sigti
og "neyddi" mangóið í gegn

Út kom vel sigtað og fallegt mangó.

Tók svo aftur fram fínu pönnuna mína og skellti á hana
sykri og sýrópi, setti á meðalhita.

Á meðan sykurinn var að bráðna, þeytti ég saman 
eggjarauðunum þar til þær voru orðnar léttar og ljósar.

Leyfði sýrópinu að malla þar til það náði ~115°C,
takið strax af hitanum og hellið jafnvel í skál 
smurða með olíu til að stöðva hitunina.
PASSIÐ að láta það ekki verða of heit því
þá lendið þið í að það harnar og þið þurfið að
byrja alveg upp á nýtt.

Ég hellti svo sýrópsblöndunni út í eggjablönduna,
bara smá í einu

og svo var bara að þeyta þessu saman smátt og smátt,
gera hlé, hella meira sýrópi út í þar til allt sýrópið
var komið saman við.

Þá var að þeyta smjörinu saman við,
 skar smjörið í marga bita og bætti þeim út
í skálina smátt og smátt og þeytti þannig
smjörið að lokum öllu saman við.

Á þessu stigi fannst mér kremið fáránlega lint,
þannig að ég bætti út í flórsykri þar til kremið
hafði fengið þá áferð sem ég vildi sjá.

Þá var bara að væta við vanilludropunum og þeyta saman

og svo mangóinu ...

og þeyta öllu saman þanning að úr varð þetta
líka flotta krem.  Skellti því svo í
sprautupoka og sprautaði á kökurnar.

Líta vel út ekki satt? 

Notaði svo sykursoðið engiferið til að skreyta -
var eiginlega alveg hrikalega gott :-)

Ég verð að viðurkenna að það var aðeins of mikið
af kreminu - en þá var bara að skella restinni í dollu

og lok á og inn í frysti þar sem það býður þess að
verða notað á næsta skammt af bollakökum!

Fróðleiksmoli dagsins er sem sagt að það er ekkert mál að frysta smjörkrem, bara þeyta það aftur þegar hefur afþýðst - alger snilld! Var reyndar lengi að velta fyrir mér hvort þetta væri nú kannski bara ágætis kvöldmatur, þ.e. kremið - en ákvað að það væri nú líklega einum of óhollt, og ekkert sérstaklega gott fyrir magann þannig að þetta varð niðurstaðan :-)

Annað sem var skemmtilegt við þetta krem var að það myndaði svona hálfgerða húð út af karamellunni/sýrópinu þannig að það var ekkert klístrað eða svoleiðis og hélt sér ofsalega vel!

Vona að þið njótið vel!

Meira síðar.

Ummæli

Guðrún sagði…
vá þetta er sko sjúklega girnó! Skelli í svona næst þegar ég nenni að baka.