Kjúklingur með rauðu heimatilbúnu kurrý og bambus

Það er algerlega hollusta og létt mataræði sem hefur verið í gangi eftir jólin og einn af þeim réttum sem hafa verið prófaðir á heimilinu er kjúklingakurrý með rauðu heimatilbúnu kurrý, og það sem mér fannst mest spennandi, með bambus bitum.

Uppskriftin var eftirfarandi ... fyrir 4-6
2 dósir kókosmjólk
~800 gr kjúklingabringur
2 msk thai fiskisósa
1 msk sykur
1 dós bambus bitar
5 kaffir limelauf
Salt og pipar
2 rauð chillí
Nokkur myntulauf
Nokkur basilíkulauf

Rauða kurrýið
12-15 rauð chillí
4 skallottulaukar
2 hvítlauksgeirar
1 msk ferskt engifer
2 sítrónugrasstilkar - eða 1-2 tsk sítrónusafi
3 limelauf
1 tsk kórianderduft
10 svört piparkorn
1 tsk kórianderfræ
1/2 tsk cumin fræ
1/4 tsk kanill
1 tsk turmeric
2 msk matarolía

Byrjaði á að búa til kurrý-ið, chillíið tekið fram

og skorið fyrst í tvennt og notaði teskeið til að 
hreinsa innan úr þeim

Voilá, hrein og fín ...
hefði reyndar líklega sjálf sleppt því að hreinsa þau,
en var að fá fjölskylduna í mat og ákvað að 
reyna að hafa þetta ekki of sterkt ...

Hreinsaði svo skallottulaukinn og skar í sneiðar

Skellti chillíinu, lauknum og hvítlauknum
í matvinnsluvélina

Skar engiferið og skellti sömuleiðis í matvinnsluvélina

Bætti svo út í sítrónusafanum ...

og limelaufunum, sem ég marði með puttunum
áður en ég setti þau út í 

Svo voru það kryddin ... mulinn kóriander ...

Kórianderfræin ...

Cuminfræ ...

Kanill ...

og auðvitað turmeric.
Svo var bara að setja vélina í gang 
og hakka allt vel saman

Skellti svo olíunni út í og hakkaði enn betur

eða þar til þetta var farið að líkjast kurrý :-)

Þá var að skera kjúklinginn í bita

Setti helminginn af kókosmjólkinni á pönnuna, 
notaði djúpa pönnu, og leyfði suðunni að koma upp

Þegar þetta hafði soðið í nokkra stund - passið að hræra
reglulega í - þá bætti ég 2 msk af kurrýinu út í 
(setti restina í krukku og inn í ískáp til að nota síðar)
og hrærði saman við kókosmjólkina.

Bætti svo kjúklingnum út í, ásamt fiskisósunni og sykrinum
 og leyfði kjúklingnum svo að eldast í nokkrar mínútur.

Hellti vatninu af bambus bitunum

og skellti þeim svo út í pönnuna

ásamt chillíinu, kaffir limelaufunum og
restinni af kókosmjólkinni

Hrærði öllu vel saman og leyfði suðunni að 
koma aftur upp.

Skar svo myntulauf og basillauf

og setti út á pönnuna eftir að hafa fullvissað mig
um að kjúklingurinn væri tilbúinn með þvi 
að grípa einn bita og skera hann í tvennt.

Svo var bara að bera þetta fram með hrísgrjónum
og auðvitað naanbrauði :-)

En þá er það spurningin, var þetta gott? Sko, mér fannst þetta rosalega gott og þetta var mjög gott í pönnunni, eiginlega svakalega gott!  Hins vegar varð þetta undarlega bragðlítið þegar ég borðaði þetta með hrísgrjónunum - en mig grunar að þau hafi verið of vatnsmikil, þ.e. of blaut - og þ.a.l. útþynntu þau svolítið bragðið.  Þannig að ég mæli með að passa það með hrísgrjóninn að þau séu ekki of blaut og ég ætla sömuleiðis næst að setja aðeins meira af chillí í réttinn sjálfan, en að þessu gefnu þá var þetta virkilega góður réttur og hann var étinn upp til agna.

Meira síðar.

Ummæli