Eldlamb

Þetta nú síðastliðna ár leið alveg hreint ótrúlega hratt!  Fullt af skemmtilegum matarboðum og alls 138 blogg! 
En að efni þessa bloggs, en í tilefni af síðasta föstudegi ársins bauð ég nokkrum góðum vinum í mat.  

Jólagjöfin frá mér til mín í ár var auðvitað uppskriftabók sem heitir Red Hot! enda er ég einlægur aðdáandi bragðsterks matar og finnst eiginlega allra verst hvað það er erfitt að fá mismunandi tegundir af chillíum á Íslandi.

Nema hvað, fyrir þetta matarboð urðu fjórar uppskriftir fyrir valinu - gulrótarídýfa í forrétt með tortillaflögum, í aðalrétt var steinbítur í kókossósu og eldlamb, og meðlæti var Cajun kartöflusalat. Í eftirrétt voru nú bara smákökur og ostar og chillíhlaup.  Steinbíturinn átti nú að vera aðalrétturinn, og kjötið bara svona auka fyrir mig sem er með fiskóþol en eins og oft vill verða þá sló "aukarétturinn" í gegn og þess vegna ákvað ég að byrja á að deila honum með ykkur enda var hann alveg hrikalega góður (þó ég segi sjálf frá) og mér finnst rétt að byrja árið á hápunkti :-)

Uppskriftin endaði svona ... athugið að kjötið þarf að marenerast í a.m.k. 1 klst
800 gr lambainnlæri
420 ml grísk jógúrt
3/4 tsk möluð kardimomma sem ég átti ekki þannig að ég notaði 2 kardimommufræ, opnaði þau og reyndi að mylja fræin inní og notaði þau.
3,5 tsk rifið ferskt engifer
4-5 hvítlauksrif
3,5 tsk sterkt chillíduft
3,5 tsk garam masala
3,5 tsk salt
3,5 msk matarolía
6 laukar
3 lárviðarlauf
900 ml vatn
4-6 rauð chillí
6 græn chillí
Tók lambainnlærin og skar í þunnar litlar ræmur

Sjá hér - hver biti var u.þ.b. 7,5 cm á lengd,
setti kjötið svo til hliðar á meðan ég bjó til mareneringuna

Tók fram stóra skál og skellti jógúrtinu í

ásamt kardimommunum,
lenti í smá vandræðum með að mala þær :-)

Svo var bara að bæta út í rifnu engiferinu ...

rifnum hvítlauknum ...

chillíduftinu og garam masala ...

og auðvitað saltinu - salt er ótrúlega mikilvægt :-)

Svo var bara að þeyta þessu öllu saman, vel og vandlega

og setja kjötið út í ...

og nudda mareneringunni vel utan um kjötið -
Svo var bara að setja plast yfir og setja skálina í kæli
í a.m.k. klukkustund, hugsa þetta hafi fengið að 
marenerast í sirka tvo tíma hjá mér.

Svo var bara að byrja að elda - fyrst að skera laukinn

og skella olíu í pönnu og steikja laukinn þar til hann 
var orðinn mjúkur og að verða gullinn.

Svo út af því að ég þurfti að nota pönnuna í annað,
þá skellti ég steiktum lauknum í stóran pott ásamt
lárviðarlaufunum, setti á lágan hita ...

og byrjaði svo að steikja kjötið í pönnunni,
en ég steikti kjötið í tveimur skömmtum til að það
fengi sem sneggsta og jafnasta steikingu. En ég
bara rétt brúnaði kjötið í pönnunni.

Svo var bara að skella kjötinu eftir því sem það
steiktist í pottinn ásamt lauknum.

Þegar kjötið var allt steikt og komið í pottinn
hellti ég vatninu yfir og svo var bara að leyfa þessu
að malla í 20-30 mínútur.  Ég var með lokið á
til að byrja með en tók það af eftir sirka 15 mínútur
og hækkaði aðeins hitann til að minnka sósuna.
Það má einnig hafa lokið af allan tímann og hafa þá
litla eða nánast enga sósu eftir, eiginlega bara 
smekksatriði, en mér líkar vel við sósur með hrísgrjónum.

Á meðan var svo bara að hreinsa skera 
chillíin í mjóa renninga.

Svo þegar kjötið var að verða tilbúið bætti ég chillíinu
út í pottinn og leyfði að malla í sirka 2-3 mínútur.

Skellti þessu svo í stóra skál og bar fram ásamt 
hrísgrjónum, brauði og kartöflusalati.

Þetta var eiginlega alveg rosalega góður réttur og fékk mjög góða dóma þarna um kvöldið en flestum þótti hann skara framúr.  Hann reif svolítið í, en samt ekki þannig að það væri óþægilegt.  Sem dæmi um hversu góður hann var þá hringdi einn matargestanna strax morguninn eftir til að fá uppskriftina! Held maður fái varla betri meðmæli en það :-)

Gleðilegt nýtt (matar)ár!

Meira síðar.

Ummæli