Karamellusósa fyrir hátíðarnar

Í jólaannríkinu þá fór alltof lítið fyrir bloggum og ég meira að segja gleymdi að segja "Gleðileg jól til ykkar allra nær og fjær" en bæti úr því núna :-)

Jólagjafirnar í ár voru nánast allar matarkynns, ég útbjó mandarínukassa sem ég spreyjaði fallega á litinn, skellti kreppappír í botninn og setti ýmislegt heimagert í kassana, misjafnt var hvað fór í hvern en allir áttu þeir sameiginlegt að hafa núggat, marengstoppa og dukkah.  Þá fór í nokkra kassa heimagerð karamellusósa, ætlaði að setja í alla en þetta reyndist aðeins meiri þolinmæðisvinna en ég átti von á, auk þess sem krukkurnar kláruðust :-/  Fannst það nú hálf leiðinlegt verð ég að viðurkenna, því þessi sósa reyndist alveg svakalega góð, virkilega góð reyndar.  En ég deili henni með ykkur hér og nú í þeirri von að allir geti prófað.

Sósan er alveg ekta með möndlugrautnum, ísnum og jafnvel kökum og hefur svona ofsalega ríkt og djúpt karamellubragð, get eiginlega varla lýst því með orðum.

Uppskriftin var eftirfarandi ...
3 dl sykur
1 dl vatn
2 dl rjómi
1 tsk vanilludropar
1/2 tsk sjávarsalt


Skellti sykrinum og vatninu í djúpa pönnu
og stillti á meðalhita - athugið að að hræra bara 
létt í pönnunni áður en ég kveikti undir en svo
má ekkert hræra í aftur fyrr en rjómanum 
hefur verið bætt út í, hins vegar má hreyfa 
pönnuna til að hreyfa vökvann til.

Á meðan hitinn steig í pönnunni setti ég rjómann í 
mælikönnu 

og bætti út í vanilludropunum

og saltinu og notaði gaffal til að hræra saman,
setti svo til hliðar.

Fyrst byrjaði að sjóða ... 
og það sauð alveg vel og lengi án þess að nokkuð gerðist

Svo eftir sirka korter byrjaði að koma litur á sykurinn,
á þessum tímapunkti reyndi ég að vera dugleg
að hreyfa pönnuna til að reyna að blanda þessu aðeins

Að lokum var kominn nokkuð fallegur litur á sykurinn

og tími var kominn til að hella rjómanum saman við,
byrjaði á að taka pönnuna af heitu plötunni og 
hellti svo rjómanum út í ...
passið ykkur - karamellan er heit og rjóminn kaldur
= það getur skvest 

Svo þarf maður að vera alveg sæmilega snöggur
að blanda þessu saman til að rjóminn og karamellan
blandist almennilega saman, ég setti pönnuna aftur
á heitu plötuna til að það væri auðveldara, en
slökkti samt sem áður undir - eða því sem næst, 
setti á hálfan til að byrja með og slökkti svo alveg fljótlega.

Úr varð þessi fallega karamella sem ég hellti svo í 
krukkur og gaf ásamt litlum skeiðum :-)

Ég mæli óhikað með þessari uppskrift.  Ég hafði smá efasemdir um það að mega ekkert hræra en það kom svona líka vel út og bragðið, nammi namm - ótrúlega gott karamellubragð - mæli með þessari fyrir alla sanna karamelluaðdáendur.

Meira síðar.

Ummæli