Jólasmákökur 2011: Espressó kökur

Þá er komið að þeirri uppskrift sem svo sannarlega hefur slegið í gegn hjá þeim sem hafa fengið að smakka, raunar er þetta sú uppskrift sem flestir hafa sagt vera besta, þ.e. hjá þeim sem hafa fengið að smakka allar kökurnar :-)  Ég verð reyndar að viðurkenna að þær eru rosalega góðar!

Uppskriftin er eftirfarandi ...
113 gr smjör, mjúkt
1 dl fita - ég notaði Crisco fitu sem ég fékk í Kosti, bara því mig langaði að prófa það, þetta reyndist vera hin mesta snilld og alveg fáránlega einfalt að nota.  Hins vegar ef maður á ekki eina slíka þá er hægt að nota meira smjör, 1 dl = 113 gr.
1/2 dl sykur
175 ml púðursykur
2 egg
1 tsk vanilludropar
4 1/2 dl hveiti
1 tsk matarsódi
1 tsk salt
1/2 tsk kanill
1 100 gr poki möndlur
100 gr súkkulaðihúðaðar kaffibaunir
20 lítil daim, hökkuð

Byrjaði á að setja í skál mjúkt smjör, skorið í bita

Þetta er umrædd Crisco fita :-)

Skellti henni í skálina líka, setti skálina
svo til hliðar 

Byrjaði á að hakka daim-ið og kaffibaunirnar 

og svo út af því að ég átti ekki hakkaðar möndlur
þá var lítið annað að gera en að hakka þær slíka :-)

Mikið finnst mér möndlur góðar!

Svo var að þeyta saman smjörið og fituna, 
vel og vandlega

Bætti svo sykrinum við og þeytti saman við

og púðursykrinum og þeytti enn betur

Svo var að bæta eggjunum út í 

og vanilludropunum og þeyta öllu saman.

Þá var ekkert annað að gera en að bæta við 
þurrefnunum: hveiti, matarsóda, salt og kanill

Á þessum tímapunkti réð handþeytarinn ekki lengur
við deigið og það var bara þetta gamla góða = sleifin

Svo var að bæta út í súkkulaðihúðu kaffibaunirnar,
möndlurnar og daiminu 

og blanda öllu vel og vandlega saman.

Svo var bara að nota teskeið til að setja deig á plötuna
og skella plötunni inn í 180°C heitann ofn í sirka 10 mín.
Út komu þessar líka fullkomnu kökur :-)

Þessar eru svo sannarlega hrikalega góðar og ég mæli óhikað með þeim.  Eina sem mér finnst "leiðinlegt" við þessa uppskrift er hvað súkkulaðihúðu kaffibaunirnar eru eiginlega kjánalega dýrar en einn pinku lítill kassi (100 gr) kosta 409 kr.  Nema hvað, foreldrar mínir voru í Reykjavík og ég bað þau að hafa augun opin ef þau sæu slíkar baunir í borginni.  Í Hagkaup var ungur strákur að vinna (sagði mamma) og hún spurði hann um súkkulaðihúðaðar kaffibaunir - þar var auðvitað bara til það sama og hér, rándýrar baunir. En þá sagði strákurinn, "hey, af hverju býrðu þær ekki bara til sjálf?" og dró fram espressóbaunir og súkkulaðihjúp.  Það er einmitt það sem ég ætla að gera fyrir næstu umferð - ekki spurning  - alger snilldar hugmynd hjá drengnum, að mér hafi ekki dottið það í hug strax!  Sú uppskrift kemur síðar, byrjið á að njóta þessarar!

Meira síðar.

Ummæli