Jólasmákökur 2011: Þegar "pipar"kökur bakast ...

Þá er aðgerðin "Jólabaksturinn mikli 2011" hafin!  Hófst hún með bakstri fjögurra mismunandi tegunda sem mér fannst hver annarri meira spennandi.  Þetta var algerlega yndislegur tími í gærkvöldi, hlustaði á Rás 2 og bakaði - alger hugleiðsla í leiðinni :-)

Nema hvað, fyrsta tegundin sem mig langar að deila með ykkur eru piparkökur, með áherslu á PIPAR :-)  Þær eru hrikalega góðar, einu kryddin eru sem sagt svartur pipar og svo kanill og það kemur alveg hreint yndislegt eftirbragð.  

Uppskriftin var eftirfarandi:
170 gr smjör, mjúkt
180 ml sykur
1 egg
1/2 dl sýróp
4 dl hveiti
2 tsk matarsódi
1 tsk kanill
1/2 tsk salt
1 1/2 tsk svartur pipar, grófmalaður
Til skreytingar: sykur eða litaður sykur


Svo var þetta eiginlega alveg yndislega létt.
Byrjaði á að setja sykur og smjör í skál 
og þeyta vel saman

Bætti svo sýrópinu ...

og egginu út í ...

og þeytti enn betur saman.

Svo var bara að hella restinni (þurrefnunum) út í 
og hræra enn aftur öllu saman ...
Verð að viðurkenna að þarna á þessum tímapunkti
langaði mig alveg ogguponsu að eiga Kitchen Aid :-)

þannig að úr varð þetta fína deig!

Svo var bara að setja strásykur á disk

og búa til litlar kúlur úr deiginu og rúlla
upp úr sykrinum.  Bölvaði því smá þarna
að ég væri ekki búin að prófa að búa til 
litaðan sykur ... er á listanum fyrir kvöldið ...

En mundi þá að ég átti þennan fína skrautsykur
upp í skáp og bætti honum á diskinn ásamt strásykrinum

Setti svo kúlurnar á bökunarplötu,
athugið að það þarf að hafa smá bil á milli
því þær fletjast aðeins út í bakstri

Séð ofan frá ...

og út komu þessar líka fínu og flottu piparkökur 
eftir að hafa verið bakaðar í 12-15 mínútur
við 180°C hita, blástur.

Mér finnst þessar alveg hrikalega góðar!  Ég fór með allar fjórar sortir í vinnuna og þessar fengu alveg fína dóma, en sérstaklega fannst fólki skemmtilegt hvernig piparbragðið kom einhvernveginn eftir á, eins og svona bragðsprengja eiginlega.  Þessar voru nú samt ekki að fá bestu dómana, hlaupkökurnar og espressókökurnar áttu nú eiginlega vinninginn en þær koma inn fljótlega sömuleiðis.  Þessar fengu nú samt sem áður mjög góða dóma og þær eru alveg í uppáhaldi hjá mér (ásamt hinum reyndar líka :-)

Meira síðar.

Ummæli