Eins árs afmæli - Smjörhnetusúpa

Ég veit ekki hvort þið trúið því (ég trúi því varla sjálf) en ég er búin að vera með þetta blogg núna í rúmt eitt ár!  Þetta blogg hefur fylgt mér í gegnum súrt og sætt síðasta árið og fátt hefur hjálpað mér jafn mikið síðasta árið eins og að dunda mér í eldhúsinu (fyrir utan fjölskyldu og vini auðvitað).  Ég hef reyndar ólýsanlega oft verið nærri því að missa símann ofan í kökudeig eða steikingarpönnuna.  Þetta hefur þó allt endað vel að lokum og meira að segja hefur mest af matnum barasta komið ágætlega út sömuleiðis.

Það kom því ekkert annað til greina en að halda upp á afmælið með stæl eins og tilraunaeldhúsinu er einu lagið! Þá loks ég hafði tíma og tækifæri til var boðað til veislu og var vinum og helstu þolendum síðasta árs boðið.

Í forrétt var smjörhnetusúpa, í aðalrétt kalkúnn og ekkert rosalega mikið meðlæti (lesist heeeelling af meðlæti) og í eftirrétt pæ úr sætum kartöflum og sykurpúðum.

Að öllu öðru ólöstuðu þá verður að viðurkenna að forrétturinn stal senunni, reyndar var kalkúnninn líka rosalega góður og pæ-ið hrikalega gott líka en súpan var nánast ólýsanlega góð - þó ég segi sjálf frá.

Versta var þó að það tók heilmikinn tíma og nokkra aðstoð (Takk Hildur Sólveig og Hálfdán Bjarki, án ykkar hefði ég aldrei klárað þetta) að elda þetta sem svo varð til þess að myndatakan misheppnaðist stundum öööörlítið, þið verðið bara að afsaka það :-)

Uppskriftin var eftirfarandi ... fyrir 12
1 1/2- 2 tsk cumin
1 msk ólífuolía
2 laukar
1 hvítlauksgeiri
1 msk ferskt engifer, rifið
2 tsk kórianderduft
2 þurrkuð chillí
2 kg smjörhneta (vigt miðuð við áður en þetta er hreinsað)
2 lítrar grænmetissoð
Búnt af ferskum kóriander

Engiferrjómi 
1 dós sýrður rjómi
160 ml rjómi
2 tsk rifið engifer
2 tsk sítrónusafi
2 msk saxað kóriander

Byrjaði á að afhýða og skera smjörhneturnar í bita,
bitana hafði ég ekkert of stóra en samt ekkert litla,
sirka 3x2 cm.  Setti bitana svo til hliðar.

Þá var að byrja á súpugerðinni sjálfri.  Byrjuðum á því
að hita cuminfræ í ólífuolíu á pönnu. Þegar fræin byrjuðu 
að poppa voru þau tilbúin og sett til hliðar.

Þá var að draga fram stóra súpupottinn.
Skellti ólífuolíu í botninn og byrjaði á að steikja 
laukinn sem ég hafði saxað smátt.

Bætti svo út í hvítlauknum sem var skorinn smátt, ásamt
engiferinu, kórianderduftinu og þurrkaða chillíinu 
sem ég muldi niður.

Hellti svo soðinu út í pottinn og leyfði þessu að sjóða í 
sirka 20 mínútur eða þar til smjörhnetan var farin að mýkjast

Á meðan súpan sauð skellti ég sýrða rjómanum í 
skál ásamt rjómanum og engiferinu og hrærði 
saman með gaffli

Bætti svo sítrónusafanum út í og hrærði betur

Svo var bara að bæta kóriander út í 
skálina og hræra saman og setti á borðið
enda stutt í að súpan yrði tilbúin. 

Þá var að nota snilldartækið sem töfrasprotinn er til
að hakka smjörhnetuna og laukinn - en ég verð að 
viðurkenna að þetta eru bestu kaup sem ég hef gert
á þessu síðasta ári!  Ef þið eigið ekki slíkt snilldar-
tæki þá er líka hægt að hella súpunni úr pottinum og í
blandara og hakka súpuna þannig. 

Lofaði góðu strax í pottinum!

Þá var að bera súpuna fram ... súpa sett í skál 
(eða bolla ...)

Þá var það engifer rjóminn

sem ég lét drjúpa í súpuna


og svo smá kóriander og svo var það bara
himnasæla hjá bragðlaukunum!

Þessi súpa var einfaldlega fáránlega góð og ég get ekki beðið eftir að gera hana aftur sem verður svo sannarlega fljótlega því namm, bragðlaukana mína dreymir um að smakka hana aftur :-)

Meira síðar.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Mmm... Mig langar ad smakka tetta, to eg viti reyndar ekkert um tad hvernig svona smjørhneta bragdast :)
Til hamingju med bloggafmælid!

Kvedja,
Hrefna
Vestfirðingurinn sagði…
Takk fyrir kveðjuna! Já, þessi var virkilega bragðgóð! :) Örlítið spicy út af chillí-inu, en það er bara betra, ef þú vilt ekki of sterkt þá má alltaf minnka chillíið :)

Þessi var sko það góð að ég ætla að gera hana aftur á laugardaginn ;)
Kristín í París sagði…
Mmmm, ég nota "smjörhnetu" mjög mikið, enda dásemdaruppistaða í súpur. Ein ábending: ég lærði af vinkonu minni að maður þarf bara ekkert að afhýða hana (ég missti einu sinni örlítið framan af putta við þá aðgerð, með glænýjan hníf). Þar sem ég var samt efins, þó ég hefði borðað súpu vinkonu minnar með bestu lyst og varð ekki meint af, gúgglaði ég og sé að m.a. Jamie Oliver segir að þetta sé satt, það þarf ekki að afhýða þetta góða grænmeti, hýðið verður alveg jafnmeyrt og restin og saxast vel niður með töfrasprotanum. Var einmitt að gæða mér á súpu með hýði í kvöld.