Súkkulaðikaramellupæ

Ég vona að þið hafið ekki gefist upp á biðinni kæru vinir, en þessi síðasta vika var óvenju erfið og annasöm hjá mér og ég hafði einfaldlega enga aukaorku til að setja í bloggið :-/ En orkan er öll og koma og ég kem fílefld til baka núna!

Ég bauð í saumaklúbb nýlega og bakaði auðvitað kökur og fleira skemmtilegt fyrir frábæru vinkonur mínar :-) Saumaklúbbar eru nefnilega frábært tækifæri til að prófa nýja hluti og ég nýtti þetta tækifæri vel í þetta skiptið, þetta reyndist allt hvort öðru betra!

Uppskriftin sem ég ætla að deila með ykkur í dag er æðisleg svona á sunnudagskvöldi með góðu kaffi!  Alveg sérstaklega góð líka fyrir karamellu og súkkulaði aðdáendur!

Uppskriftin er eftirfarandi ...
8 msk smjör
140 gr kanilsykurkex
2 msk koníak
140 gr suðusúkkulaði
4 eggjarauður
1 1/2 dl  púðursykur
2 msk púðursykur
2 msk maízanamjöl
1/8 tsk salt
4 dl + 2 msk rjómi
2 dl + 2 msk mjólk
1 1/2 tsk vanilludropar
1 msk kakó

Karamella
1 3/4 dl rjómi
1/2 dl sykur
1/2 dl vatn
1 msk smjör

Byrjaði á að skella kexinu í matvinnsluvélina,
notaði sirka 12 kexkökur

Hakkaði þær þar til þær voru orðnar að frekar
fíngerðu dufti 

Setti svo fjórar matskeiðar af smjöri og 
bræddi í örbylgjuofninum

Setti kexið í litla skál og hellti koníakinu út í,

sem og smjörinu og blandaði öllu saman með gaffli.

Hellti svo kexblöndunni í pæ form og notaði skeið
til að slétta úr og ýta vel upp á hliðarnar.
Setti botninn svo inn í ofn við 180°C í 10 mínútur,
tók út úr ofningum og setti til hliðar og leyfði að kólna.

Á meðan botninn var að jafna sig bjó ég til karamelluna.
Byrjaði á að setja sykur í lítinn skaftpott,

bætti svo vatninu út í og stillti á meðalhita.

Svo var bara að leyfa suðunni að koma upp og sjóða
þar til vökvinn var orðinn ljós brúnn.

Þá var tími til að bæta rjómanum og smjörinu út í 
og hræra öllu vel saman.  Athugið að blanda
rjómanum smátt og smátt út í og hræra vel á milli.

Svona leit þetta út í hvert skipti sem ég bætti rjóma út í

En það var bara að hræra vel og að lokum 
varð til þessi líka fínasta karamella.
Setti svo pottinn til hliðar og leyfði aðeins að jafna sig.

Hellti svo karamellunni í pæbotninn og dreifði vel úr.

Þá var að byrja á súkkulaðibúningnum.
Skellti súkkulaðibitunum í matvinnsluvélina og ...

hakkaði vel og vandlega, samt ekki of smátt.

Aðskildi eggjarauðurnar og setti í skál.

Bætti svo út í skálina púðursykrinum,  maízanamjölinu
og saltinu.

Notaði svo handþeytara til að hræra þessu vel saman.
Setti svo til hliðar í bili.

Þá var að taka aftur fram pott og setti þar út í 1 dl + 
2 msk rjóma ...

og 2 dl mjólk ...

og 4 msk smjör.

Stillti á meðalhita og hrærði reglulega í 
til að blanda öllu vel saman

Þegar byrjaði að sjóða hellti ég heitri 
rjómamjólkurblöndunni út í eggjablönduna í skálinni
og þeytti vel og vandlega saman.

Hellti svo öllu saman í pottinn aftur

Stillti aftur á meðalhita og hrærði stöðugt,
leyfði suðunni að koma upp og sauð í u.þ.b. 1 mínútu,
bætti þá út í vanilludropunum og sauð í aðra mínútu,
eða þar til búðingurinn var farinn að þykkna.
Hér getið þið lent í að þurfa að bæta við maízanamjöli.

Þegar búðingurinn hafði þykknað í pottinum tók 
ég fram stóra skál, setti súkkulaðibitana í skálina
og sigtaði svo búðinginn í skálina.

Svo notaði ég sleikju til að blanda búðingnum ...

saman við súkkulaðið ...

nammi namm hvað þetta var girnilegt :-)
Setti skálina svo út í glugga og leyfði búðingnum 
að kólna í um það bil hálftíma.

Þegar búðingurinn hafði kólnað hellti ég honum í 
pæ formið yfir karamelluna.  Þá var ekkert eftir
nema að undirbúa rjómatoppinn.
Hellti restinni af rjómanum í skál ásamt púðursykri ...

og vanilludropum

og svo var bara að þeyta rjómann þar til hann 
var orðinn stífþeyttur. 

Dreifði honum svo yfir pæ-ið.  
Ég verð að viðurkenna að ég var eiginlega með 
helmingi minni rjóma en ég átti að vera með, en
ég hafði bara keypt 1/2 líter af rjóma sem þýðir
að ég var ekki með alveg nógu mikið, en ég held
að það hafi ekkert komið að sök :-)

Skreytti svo að lokum með þessum fínu sykurhjörtum.

Vitið þið, þetta er eiginlega með því betra sem ég hef smakkað - alger bomba auðvitað, nammi namm hvað þetta var fáránlega gott! :-)  Mæli hiklaust með þessari, skemmtileg að gera og enn betri að borða!

Meira síðar.

Ummæli