Sloppy Joes með kjúklingahakki

Það er svo ótal margt sem ég hef ekki prófað þegar kemur að matseld, eitt af því er kjúklingahakk!  Ég hélt reyndar í alvörunni að það væri ekki til á Íslandi (upplýsi hér með vanþekkingu mína ...) en uppgötvaði svo um daginn að það væri auðvitað til, bara frosið, bæði í Bónus og Samkaup hérna á Ísafirði.  Það kom því auðvitað ekki annað til greina en að finna uppskrift til að prófa kjúklingahakkið og eftir nokkrar vangaveltur ákvað ég að gera kjúklinga Sloppy Joes - en mig langaði nefnilega líka í eitthvað örlítið kryddað :-)

Uppskriftin var eftirfarandi ... fyrir 4-5
Sósan ...
2 msk matarolía
1 msk engiferrót
2 hvítlauksgeirar
1/2 rautt chillí
1 tsk garam masala
1/2 tsk paprika
1 dós niðursoðnir tómatar

Fyllingin
600 gr kjúklingahakk
3-4 msk matarolía
1 poki pistasíuhnetur
1 tsk cumin fræ
1 stór laukur
1 rauð paprika
1 rautt chillí
1/2 tsk þurrkaður kóriander

Byrjaði á að skera grænmetið í fyllinguna,
fyrst skar ég laukinn í litla bita 

Skar sömuleiðis paprikuna smátt

og auðvitað chillí-ið.

Þá var það grænmetið í sósuna.
Fyrst var það hvítlaukurinn sem ég saxaði smátt.

Saxaði chillíið smátt

og reif niður engiferið ... namm!

Tók svo fram lítinn pott og byrjaði á að setja
matarolíuna í hann og leyfði olíunni að hitna.

skellti svo hvítlauknum, chillí-inu og engiferinu út í

Þegar þetta var farið að brúnast var einfalt að
bæta kryddunum út í ...
Fyrst garam masala ...

og svo paprikan ... allt hrært saman 

Þá var loks tími til að skella niðursoðnu tómötunum út í

og hræra öllu saman og leyfa að krauma á meðan
restin var matreidd ...

Byrjaði á að taka fram djúpa pönnu og skellti 
olíunni í botninn og leyfði að hitna aðeins
áður en ég skellti cumin fræjunum út í og steikti í 
um það bil 10 sekúndur.

Þá skellti ég laukum, paprikunni og chillí-inu út á pönnuna
og steikti þar til allt var farið að mýkjast

Þá var lítið eftir annað en að skella kjúklingahakkinu
út á pönnuna og steikja það, í um það bil 5-10 mínútur

Hellti svo sósunni út á 

og blandaði öllu vel saman og leyfði að krauma í 
um það bil 10 mínútur eða þangað til sósan hafði
þykknað nokkuð

Á meðan sósan þykknaði þá tók ég 
pistasíuhneturnar úr skeljunum 

og bætti að lokum út í kjötið!

Svo var bara að skella kjöti í 
hamborgarabrauð ...
og njóta!

Vitiði, þetta var nú barasta merkilega gott! Kjúklingahakkið kom skemmtilega á óvart, ég mun alveg örugglega prófa fleiri rétti með kjúklingahakki! Það var virkilega skemmtileg tilbreyting, en það eina sem ég held að maður þurfi hugsanlega að hafa í huga er að það kryddast aðeins öðruvísi en rauða kjötið - en ég hlakka bara til að prófa mig áfram með það :-)

Meira síðar.

Ummæli