Pasta fra diavolo (bróðir djöfulsins)

Stundum þegar maður kemur heim úr vinnunni þá er þreytan eftir daginn allsráðandi og "úff, elda kvöldmat" tilfinningin sömuleiðis.

Þá er gott að eiga einfaldar og fljótlega uppskriftir að leita í og ég rakst á eina slíka í vikunni sem gjörsamlega sló í gegn hjá mér, fáránlega góð - alveg svona matur sem kemur tárunum fram í augun og ekki bara út af chillí-inu heldur vegna góðs bragðs líka :-)

Pasta fra diavolo er eitt slíkt og er algerlega nýtt uppáhald hjá mér!


Uppskriftin er eftirfarandi ... fyrir 2
2 hvítlauksrif
1 bréf ítalskt salami álegg
1 dós niðursoðnir tómatar
Salt og pipar
2 þurrkuð chillí
Ólífuolía
Tagliatelle pasta (sirka 4-5 hreiður)

Byrjaði á að skella sirka 2 msk ólífuolíu í djúpa pönnu

Leyfði olíunni að hitna aðeins og skellti svo hvítlauknum út í

Þegar hvítlaukurinn var byrjaður að brúnast skellti ég
niðursoðnu tómutunum út í og notaði svo gaffal til
að reyna að kremja þá - hefði notað hakkaða tómata
ef ég hefði átt, en aldrei þessu vant átti ég bara eina
dós af tómötum í skápnum :-)

Svo var einfaldlega að bæta tveimur þurrkuðum
chillí út í, notaði bara buttana til að merja þau út í.
Leyfði sósunni svo að malla í sirka 5-10 mínútur.
Athugið að lækka undir og setja lok, 
tómatasósan vill gjarna skvettast!

Á meðan sósan mallaði var ágætt að nýta tækifærið
og skera salami-ið ...  Það er auðvitað hægt að nota
hvaða salami sem er og þetta er víst alveg sérstaklega
góð sósa til að nota með rækju og/eða hörpudisk!
Nema auðvitað fyrir ofnæmisgemlinga eins og mig ...

Skar salami-ið í bita

og svo var bara að skella því út í sósuna og leyfa 
sósunni að malla í sirka 5 mínútur í viðbót ...
Glöggir lesendur sjá að á þessum tímapunkti var 
vatnið fyrir pastað farið að bullsjóða ...
enda var næsta skref að skella pastanu í vatnið og 
sjóða meðan sósan kláraði sig :-)

Svo var bara að skella pastanu út í sósuna þegar
það var tilbúið (hellti auðvitað vatninu af fyrst)

og blanda öllu vel og vandlega saman!

Nammi nammi namm!

Vitið þið, þetta var eiginlega bara sorglega gott pasta - sorglegt því það var svo yndislega einfalt að það er hálf hallærislegt að ég hafi ekki prófað það áður og gott því vá, vá, vá hvað það smakkaðist vel :-)

Mæli eindregið með þessu og mæli líka eindregið með því að prófa þetta með rækjum og/eða hörpudisk svona þið sem getið borðað svoleiðis!

Meira síðar.

Ummæli