Makkarónur og ostur - einfalt og "huggandi"

Ég fékk fólk í mat á föstudaginn og þar sem börn voru meðal gesta þá velti ég því lengi fyrir mér hvað ég ætti nú að elda.  Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að skella í alvöru "macaroni & cheese" eða makkarónur og ost, sem og ítalskar kjötbollur, en það kemur síðar.

Eins og flestir sem vita hvað makkarónur og ostur er tengi ég þennan rétt mjög við Bandaríkin, en einnig við eitthvað notalegt, "huggandi" og þægilegt - hversvegna, veit ég ekki en því er ekki að leyna að þetta er voðalega notalegur matur og ekki er verra hversu einfalt er að búa þetta til :-)

Uppskriftin er eftirfarandi ... fyrir 4-6
5 dl mjólk
2 lárviðarlauf
500 gr makkarónur
4 msk smjör
3 msk hveiti
3 dl rifinn cheddar ostur
1 dl parmesan ostur
Salt og pipar

Byrjaði á að setja mjólkina í pott ásamt lárviðarlaufum
(ætlaði að gera tvöfalda uppskrift, 
þess vegna helmingi fleiri lauf) 
Hitaði mjólkina við meðalhita og leyfði henni 
að byrja að sjóða ...

Svo var bara að vera snöggur að kippa pottinum af 
hitanum áður en sauð upp úr :-)

Tók svo fram annan pott og setti þar 
smjörið og hveitið og hrærði saman eftir því sem 
smjörið bráðnaði.

Þegar smjörið var bráðnað tók ég lárviðarlaufin úr
pottinum og hellti svo mjólkinni smátt og smátt
út í pottinn og hrærði vel saman 

Allt þar til öll mjólkin var komin út í og myndast hafði
hálfgerður mjólkurbúðingur -notaði þeytarann
undir það síðasta til að tryggja að ekki væru 
neinir hveitikögglar

Hellti svo rifnum cheddar ostinum út í mjólkurblönduna

og hrærði vel og vandlega þar til osturinn hafði bráðnað

Áður hafði ég soðið makkarónurnar og hellt 
vatninu af og skellt svo í stóra skál

Hellti ostasósunni yfir makkarónurnar og
bætti svo parmesanostinm út í

Svo var bara að nota sleif til að hræra öllu saman

Hellti makkarónuostablöndunni í eldfast form

Hellti svo rifnum osti yfir og skellti inn í ofn
við 200°C hita og blástur

Þarna inni var þetta í 15 mínútur eða þar til
osturinn var byrjaður að brúnast.

Þetta reyndist hinn ágætasti réttur og verður alveg örugglega gerður á þessu heimili aftur!  Raunar er ég að hugsa um að gera hann aftur núna á eftir :-)  Hann er einfaldur, þægilegur og um fram allt notalegur.  Það vildi þannig til að meirihluti gestanna sem voru í mat þetta kvöld voru einmitt frá Norður-Ameríku og voru þau sammála um að þetta væri nú bara býsna vel heppnað og mikið betra en þetta út pökkunum! Þannig að óhætt að mæla með þessari.

Meira síðar.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Geggjað girnó, þarf að prufa þessa útgáfu.

Smá tip sem ég lærði.

Ef maður gerir hveitissmjörsblönduna fyrst og hefur hana vel heita og setur svo kalda mjólkina (verður að vera ísköld) út í þá koma engir kekkir.

Virkar einstaklega vel.

kv, Benni
Vestfirðingurinn sagði…
Já, þetta var líka svaka gott - mun svo sannarlega prófa þetta tips næst! Takk fyrir það :)