Hafrakökur með súkkulaðibitum

Ákvað að skella í aðeins öðruvísi hafrakökur um daginn. 

Þær reyndust barasta vera alveg hreint ágætar.  Mig langar rosa mikið að segja að þær séu alveg extra hollar því að það eru auðvitað bæði fræ og hafrar í þeim, fræ með góðar og hollar olíur og hafrar með góðum trefjum! Eeeen það er smá sykur og smá hvítt hveiti sem auðvitað mætti skipta út fyrir heilhveiti ef ykkur er illa við hvíta hveitið.

Uppskriftin var eftirfarandi ...
125 gr haframjöl
125 gr hveiti
3 msk sesamfræ
3 msk sólblómafræ
75 gr smjör
100 gr sykur
4 msk matarolía
1 egg
75 gr suðusúkkulaði

Skellti haframjölinu í stóra skál, 

ásamt hveitinu ...

sesamfræjunum ...

og auðvitað sólblómafræjunum.
Blandaði þessu öllu saman með sleif og setti til hliðar.

Tók svo fram lítinn pott þar sem ég skellti í smjörinu

og sykri út í pottinn sömuleiðis.
Leyfði smjörinu og sykrinum að bráðna saman við
meðalhita - hrærði reglulega á meðan.

Hellti svo mjólkursykurblöndunni út í skálina
með haframjölsblöndunni :-)

Skellti egginu út í sömuleiðis, ásamt matarolíunni

Svo var bara að hræra öllu saman með sleif

þangað til það myndaðist þetta fína (og bragðgóða) deig

Þá var að skera súkkulaðið í litla bita

og hræra saman við

Notaði svo skeið til að búa til kúlur og fletja þær 
svo aðeins út á ofnplötunni 

Skellti þeim svo inn í ofninn í 15 mínútur við 180°C blástur
og út komu þessar líka fínu hafrakökur!

Þær voru barasta nokkuð góðar og fræin gerðu nú bara nokkuð góða hluti og gáfu skemmtilega áferð og gerðu þessar svolítið öðruvísi en venjulegar hafrakökur.  
Þó eitt sem verður að hafa í huga: Gætið að því að láta þær ekki vera of lengi inni! Þær verða harðar og kexkenndar - ég er ekki hrifin af slíku sjálf, vil hafa þær vel mjúkar í miðjunni :-) 
Annað sem ég mun eflaust prófa næst er að setja smá kanil eða smá vanilludropa - bara svona til að prófa.

Meira síðar.

Ummæli