Uppáhalds uppskriftin mín: Karabískur kókoskarrý kjúklingur

Það er ein uppskrift sem ég hef geymt lengi að deila með ykkur - þetta er fyrsta uppskriftin sem ég prófaði og komst að því að ég gat (ótrúlegt en satt) eldað góðan alvöru mat - ekki bara pylsur eða pizzur.  

Ég varð raunar ástfangin af þessari uppskrift og eldaði hana raunar við öll tækifæri, meira að segja einu sinni fyrir afmælið mitt (þetta er snilldar uppskrift bæði í miklu og litlu magni).  En svo fór eins og stundum í samböndum að vegna þess að það er örlítið vesen í upphafi uppskriftarinnar (þarf að marinera kjúklinginn kvöldið áður), að ég hef ekki eldað þessa uppskrift lengi og smátt og smátt gleymdi ég hversu yndislegt þetta ástarsamband mitt við uppskriftina hafði verið og hversu stórkostlega góður matur kemur út úr þessari uppskrift!  Því lengra sem leið frá því ég eldaði þennan yndislega rétt, því minni trú hafði ég á honum.

En það fór svo að ég hafði ástæðu til að elda góðan mat og ákvað að endurnýja gömul kynni við þessa karabísku uppskrift að kókoskarrý kjúklingi og vá! vá! vá! Mmmm ... vatn í munninn ... bara gott :-)

Uppskriftin er líka fáránlega einföld og aðferðin enn einfaldari, eina sem er flókið er að muna að setja kjúklinginn í marineringu kvöldið áður.

Uppskriftin er eftirfarandi ...  fyrir 3-4
3-4 kjúklingabringur
3-4 msk romm
4 hvítlauksgeirar
1 stór laukur
1 dós kókosmjólk
2 msk matarolía
1-2 msk karrý
Salt
1 tsk sítrónupipar
1 rautt cillí
Kóriander
1 banani

Skellti smá rommi í skál - notaði sítrónuromm í þetta 
skiptið - en nota annars venjulega venjulegt romm

Skar kjúklingabringurnar í litla bita og setti í rommið

Pressaði hvítlauksgeirana og bætti út í skálina sömuleiðis

Blandaði svo öllu vel saman og skellti skálinni inn í ískáp
og leyfði henni að vera þar yfir nóttu eða þangað til
ég þurfti aðnota kjúklinginn daginn eftir

Þegar kominn var tími til að undirbúa matinn næsta dag
byrjaði ég á að skera laukinn í bita

Hitaði olíuna á pönnunni

og léttsteikti laukinn 

Bætti kjúklingnum svo út í og steikti hann þar til
allir bitar voru orðnir hvítir

Á meðan tók ég kókosmjólkina og skellti í skál 
ásamt karrýinu (notaði hot madras curry í þetta skiptið)

Bætti svo út í salti og sítrónupipar - set yfirleitt
smá klípu af salti, smakka svo til seinna í ferlinu
og bæti við salti ef mér finnst vanta

Hrærði öllu saman

Tók svo chillí-ið og skar í bita

Þegar kjúklingurinn var steiktur að utan hellti
ég kókoskarrýmjólkinni út í 

og leyfði suðunni að koma upp ...

Bætti þá chillíinu út í og leyfði þessu að malla í 10-15
mínútur eða þar til kjúklingurinn var tilbúinn og 
sósan orðin heit í gegn - í lokin smakkaði ég sósuna til,
og bætti við smá salti.  Ef þið lendið í að sósan verður
annað hvort of sölt eða of sterk þá er ágætt að bæta
við annað hvort kókosmjólk, eða matreiðslurjóma.

Að lokum skellti ég vænni hrúgu af kóriander út í.
Bananan skar ég í sneiðar og bar fram í sér skál,
enda eru ekki allir sem borða banana :-)

Með þessu bar ég svo fram hrísgrjón og naanbrauð.
Mmm... góðar minningar og vatn í munninn.

Mæli óhikað með þessum!  Ótrúlega einfaldur og ótrúlega bragðgóður - bragðið af kókosinum og karrýinu og svo hitinn af chillíinu -ohh mig langar í núna.

Meira síðar.

Ummæli