Ítalskur kjúklingur með kjúklingabaunum

Skellti í ítalskan kjúklingauppskrift í fyrrakvöld.  Uppskriftin kemur frá Frances Mayes úr bók hennar Under the Tuscan Sun en margir kannast eflaust við kvikmyndina sem byggð er á bókinni.

Mér fannst þessi uppskrift spennandi vegna þess að hún er pinku öðruvísi, notar kjúklingabaunir, kanil, hvítlauk og tómata ásamt kjúklingnum - en mér fannst kanillinn og kjúklingabaunirnar hljóma sérstaklega spennandi.

Útkoman reyndist hin ágætasta - fyrir utan að mér fannst helst til mikið kanilbragð og mæli þess vegna með að minnka kanilmagnið um helming. Að öðru leyti get ég ekki annað en mælt með þessari uppskrift. Kjúklingabaunirnar gáfu skemmtilega áferð og fyllingu, auk þess sem kjúklingurinn sjálfur var virkilega djúsí :-)

Uppskriftin var eftirfarandi ... fyrir 3-4
1 dós kjúklingabaunir
5 hvítlauksgeirar
Salt og pipar
2 msk ólífuolía
3 kjúklingabringur
1 Laukur
4 tómatar
1 tsk kanill (mæli með 1/2 - 3/4 tsk)
2 tsk timjan
1 dl svartar ólífur

Hellti af kjúklingabaununum og skellti í pott

Setti smá vatn með og kveikti undir

Skellti hvítlauknum út í

og salt og pipar auðvitað, hrærði öllu saman
og leyfði að sjóða í sirka 3-5 mínútur.
Hellti svo úr pottinum í sigti og leyfði að renna af

Þá var það kjúklingurinn, byrjaði á að setja
bringurnar í poka ásamt hveiti 

Skellti þeim svo á pönnu og snöggsteikti upp úr ólífuolíu

Báðum megin auðvitað 

Tók bringurnar svo af pönnunni og setti í eldfast mót

Skar svo lauk og tómata frekar gróft

Skellti meiri ólífuolíu á pönnuna og steikti laukinn,

auðvitað ásamt hvítlauk

Þegar laukurinn var farinn að mýkjast bætti ég 
tómötunum við,

og kryddaði með kanil - munið að nota aðeins
minna af kanil en ég gerði - nema auðvitað
að þið séuð alveg sérstaklega hrifin af kanil :-)
Leyfði þessu svo að steikjast í rólegheitunum

Hellti á meðan kjúklingabaununum yfir kjúklingabringurnar

Hellti svo tómat/laukblöndunni yfir

og skar svo svartar ólífur og setti yfir allt

Svo var bara að skella þessu inn í ofninn í hálftíma
við 180°C blástur 

og úr varð þessi líka djúsí kjúklingur -
punkturinn yfir i-ið var svo rauðvín frá Toscana.

Einfaldur og bragðgóður réttur, muna bara að nota aðeins minni kanil!  Tók í raun enga stund að gera og var hin ágætasta máltið.

Meira síðar.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Þessi lítur spennandi út :Þ
En ég keypti mér smjörhnetu en er gjörsamlega hugmyndasnauð um hvað ég á að nota hana í. Einhverjar hugmyndir??
Er hún aðeins ætluð til að eldunnar eða virkar hún hrá líka t.d. í salöt o.þ.h.

Kv. Þuríður
Vestfirðingurinn sagði…
Úff, þegar stórt er spurt :) Ég hef aðallega notað smjörhnetu í allskonar kurrý, enda er hún ótrúlega góð með kókosmjólk og karrý og og og ... :)

Það er reyndar líka gott að nota hana í pæ og auðvitað súpur og fleira slíkt.

Ég hef aldrei notað hana hráa, en ég veit að það má alveg - en þá er hún nánast undantekningalaust rifin niður - enda er smjörhnetan mjög hörð áður en hún er elduð.

Ég var einmitt að hugsa í dag hvað mig langaði í eitthvað með smjörhnetu - ég skelli í nýja uppskrift í vikunni :)
Nafnlaus sagði…
Karry er það, þar sem nýjasti erfinginn er kominn í heiminn þá er kominn tími á karry. Er farin að sakna bragðsterks matar ;)
Kv. Þuríður

E.s. líst ekkert smá vel á bananapæið, geri mér svoleiðis í eftirrétt :Þ