Meira hnetusmjör - Hnetusmjörskökur

Í tilefni af 300. fundi bæjarstjórnar í gær ákvað ég að skella í eitthvað góðgæti fyrir bæjarstjórnarfund. Auðvitað datt mér þetta ekki í hug fyrr en klukkutíma í fund og þess vegna eins gott að velja eitthvað sem væri fljótlegt og þægilegt :-)

Eftir nokkuð grams í uppskriftabókunum mínum ákvað ég að prófa uppskrift að hnetusmjörskökum.  Átti hnetusmjör og annað sem til þurfti og það besta var að þær þurftu bara að vera 10-12 mínútur í ofninum - tilvalið!

Uppskriftin var eftirfarandi ... u.þ.b. 30 kökur
5 dl hveiti
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1/2 tsk salt
115 gr smjör
1 dl matarolía
2 dl púðursykur
2 dl sykur
2 stór egg
2 dl hnetusmjör

Byrjaði á að setja hveitið, lyftiduft, matarsóda og salt
saman í sigti

og út kom þessi líka fína hveitiblanda

Tók svo fram matvinnsluvélina og byrjaði á að 
skella olíunni ofan í

Mældi smjörbita og hafði hann við stofuhita
og skar í bita og setti í matvinnsluvélina

ásamt svo sykrinum ...

og púðursykrinum.

Skellti svo á fullan kraft og leyfði að hrærast
í nokkurn tíma eða þangað til létt og ljóst

Bætti þá við eggjunum, einu í einu og hrærði vel á milli

Þannig að blandan var orðin aðeins léttari

og þá var kominn tími á að bæta 
hnetusmjörinu út í 

og hræra öllu vel saman aftur ...

og þá að lokum var það hveitiblandan
sem fór saman við
Leyfði þessu að hrærast vel saman ...

En að lokum tók ég deigið úr vélinni, þetta verður
alveg vel þykkt deig - minnir á piparkökudeig - 
og hnoðaði aðeins í höndum líka

Svo var bara að skipta því niður og búa til kúlur,
sirka 2 cm breiðar

og notaði svo gaffal til að pressa þær niður

Skellti þeim svo inn í ofninn við 180°C blástur
í u.þ.b. 12 mínútur
og út komu þessar líka girnilegu kökur!

Haldin var sérstök atkvæðagreiðsla í upphafi bæjastjórnarfundi og fengu kökurnar frábæra umsögn sem samþykkt var 9-0. Djók :-)

En þær voru rosalega góðar, harðar að utan og mjúkar að innan - mæli eindregið með þessum!

Meira síðar.


Ummæli