Grískt nauta-stifado

Allt frá því ég borðaði á grískum veitingastað í Brussel í sumar (ég veit - öfugsnúið) hefur mig langað til að prófa að elda grískan mat.  Vandamálið var þó það að rétturinn sem mig langaði að prófa innihélt svokallað orzo pasta sem auðvitað er (að því best ég veit) ófáanlegt á Íslandi (ef einhver veit betur má sá hinn sami endilega láta mig vita).  Hitt vandamálið var að ég átti engar grískar uppskriftabækur, en ég bætti úr því í síðustu viku.

Það var því tilvalið þegar ég kom suður og ákvað að elda fyrir Þórunn Önnu litlu systur og Einar Hrafn eitthvað girnilegt að prófa einhverja gríska uppskrift.

Eftir nokkra yfirlegu ákvað ég að prófa nauta-stifado, sem er einskonar nautagúllas og mun vera klassísk og raunar vinsæl uppskrift í Grikklandi.

Uppskriftin var eftirfarandi .. fyrir þrjá-fjóra
2-3 msk ólívuolía
~650 gr nautagúllas (eða annar nautavöðvi skorinn í bita)
1 laukur
3 hvítlauksgeirar
3 msk rauðvínsedik
1 lítið rauðvínsglas
1-2 tsk allrahanda
3 lárviðarlauf
2-3 tsk rósmarín
3-4 kúfaðar tsk tómatpúrra
1 tómatur
Salt og pipar
700 ml vatn
500 gr perlulaukur
1 stk Kanilstöng
1 tsk hrásykur
2-3 msk matarolía

Keyptið tilbúið gúllas, skar stærstu bitana í minni bita -
Reyndi að miða við sirka munnbitastærð

Setti ólívuolíu í djúpa pönnu og hitaði vel áður en ég
skellti kjötinu á pönnuna

Leyfði kjötinu að steikjast aðeins og bætti þá út í
lauknum og hvítlauknum, en ég skar laukinn í bita

en kramdi hvítlaukinn 

Leyfði þessu svo að steikjast vel og vandlega,
og það kom helling af vökva úr kjötinu

En ég steikti það í smá tíma þangað til eiginlega allur
vökvinn hafði gufað upp

Þá var bara að skella rauðvínsedikinu út í ...

Leyfa aðeins að sjóða ...

Svo var það rauðvínið ...
eitt fyrir kokkinn ...

Annað fyrir kjötið ...

Svo var að bæta við kryddunum ...
fyrst allrahanda,

svo lárviðarlaufin ...

svo rósmarín og svo salt og pipar

Svo voru það vel kúfaðar tómatpúrruskeiðar sem fóru út í

og að lokum vatn (leiðinda hitaveituvatn hérna í
Reykjavík annars, heima get ég notað heitt vatn beint :)

og allra síðast skellti ég heilli kanilstöng út í ...

ásamt einum gróft skornum tómat.
Leyfði svo suðunni að koma upp og leyfði þessu að 
sjóða við lágan hita í ca. klst.

Á meðan kjötið og sósan sauð var lítið annað að gera
en að dunda sér við að afhýða perlulaukinn.

Byrjaði á að skera báða endana af (endalaus laukur... :) 
og skera rauf í laukinn 

Reif svo húðina utan af og safnaði þeim öllum saman í skál

Hitaði svo matarolíu í pönnu og skellti laukunum út á 

og leyfði honum að brúnast í sirka 10-15 mínútur

Þá bætti ég lauknum út í pottinn þegar sirka 30 mín voru 
eftir notaði skeið til að færa laukinn á milli pönnunar 
og pottins því við viljum ekki skemma laukinn :-)  

Stráði svo sykrinum yfir laukinn og hrærði mjög létt í
pottinum, en eftir þetta er ekkert meira hrært - potturinn
frekar hristur létt til að fá hreyfingu - 
allt til að halda lauknum heilum 

Mmm... hvað þetta lyktaði vel, verð samt að viðurkenna
að það minnti einna helst á jólaglögg :-)


Var svo með grískt salat með, gróft skorið grænmeti;
gúrka, tómatar og paprika

og auðvitað ólívur, fetaostur og ólívuolía.

Grískt salat, kartöflumús og grískt stifado - 
verður ekki mikið betra! Var svo líka með hvítlauksbrauð.

Þetta reyndist vera hin ágætasta máltíð, raunar virkilega góð og skemmtileg tilbreyting frá þessari venjulegu tómat/oreganó ítalska bragði sem er svo algengt í dag.  Allt öðruvísi og kanillinn gerir alveg ótrúlega hluti fyrir kjöt!  Kartöflumúsin var svo punkturinn yfir i-ið :-)  Afsakið óvenju lélegar myndir, en ég er í heimsókn hjá litlu systur fyrir sunnan og tókst að gleyma batteríinu í myndavélina í hleðslu heima og því lítið annað að gera en að nota bara símann við myndatökuna.

En mæli með matnum!

Meira síðar.

Ummæli