Ávaxtaleður - Mangó og cayenne pipar

Ég verð að játa það að ég er alger fíkill í eitt, en það er "ávaxtaleður" eða "fruit leather" eins og það er kallað á ensku. Vandamál mitt hefur hins vegar verið að það er nánast eingöngu hægt að fá það eins og mér líkar í Bandaríkjunum, a.m.k. hef ég ekki fundið það annars staðar, og ekki á ég leið þangað reglulega :-)

Ég var því yfir mig hamingjusöm þegar það kom inn um lúguna hjá mér mánaðarlegt uppskriftablað frá Food network sem ég er áskrifandi að, og blaðið innihélt m.a. uppskrift að heimagerðu ávaxtaleðri.  Ég varð auðvitað að prófa og valdi þá útgáfu sem mér fannst áhugaverðust í þetta skiptið ... Mangó og cayenne pipar - hljómar vel ekki satt?

Uppskriftin var rosa einföld ...
2 stór og vel þroskuð mangó
1 dl sykur
2 msk sítrónusafi
1/8 tsk salt
1/8 tsk cayenne pipar


Byrjaði á að taka fram mangóin og afhýða þau

Svo var að skera þau í bita

og skella bitunum í matvinnsluvélina, 

ásamt sykrinum ...

sítrónusafanum ...

og cayenne piparnum ... spennó :-)
Hakkaði svo allt vel saman í matvinnsluvélinni

Hellti svo blöndunni í djúpa pönnu 
og leyfði suðunni að koma upp, 
en lækkaði þá aðeins hitann


Leyfði þessu svo að malla í ca. 35 mínútur ...

Tók á meðan til sílikonmottu og ofnplötu


eftir 35 mínútur var þetta orðið að þykkri leðju

sem ég hellti svo á mottuna
 
Ein stór klessa

En ég notaði svo sleikju til að dreifa vel úr klessunni
á mottuna og skellti þessu inn í ofn við 60-70°C
og blástur og hafði inn í ofninum í sirka 4-5 tíma

eða þangað til þetta var orðið þurrt

Þegar ég tók þetta út úr ofninum reyndist þetta vera 
enn örlítið blautt á þeirri hlið er snéri niður, 
þannig að ég snéri leðrinu við og setti inn í ofninn
í sirka 30 mínútur í viðbót,

Voilá, lítur vel út ekki satt? :-)

Tók þetta þá af sílikonmottunni 
og skellti á bökunarpappír

og rúllaði þessu svo upp, til að það klessist ekki 

svo var bara að skera í þægilega bita eftir þörfum!

Allt í allt, ótrúlega einfalt en örlítið tímafrekt - Virkilega bragðgott og vá hvað ég hlakka til að prófa þetta með eplum og engiferi eða bönunum eða perum og vanillu eða eða eða ... svo margar hugmyndir :-)

Þetta er alger snilld svona til að hafa með í vinnunni til dæmis og taka smá bita til að svala sykurþörfinni þegar hún hellist yfir, mikið hollara en súkkulaðistykki!  Svo er líka hægt að nota hrásykur eða eitthvað slikt ef þið viljið hafa þetta e-ð hollara, en ég læt hvíta sykurinn duga!

Meira síðar.

Ummæli