Kurrý með smjörhnetu, kjúklingabaunum og bönunum

Það er tvennt sem kemur upp í hugann þegar ég skrifa þetta blogg.

Í fyrsta lagi hvað mér finnst smjörhneta mikil snilld!

Í öðru lagi hvað það er undarlega erfitt að beygja orðið banani í þágufalli, fleirtölu - tala nú ekki um þegar þarf að setja greini líka - en þá kemur Árnastofnun sterk inn :-)

Nema hvað, annað sem kom upp í hugann við val á þessari uppskrift er hvað mér finnst kjöt vera mikill óþarfi stundum, sérstaklega þegar góð smjörhneta er í boði.  Grænmeti kemur oft mjög á óvart, og þessi uppskrift gerði það svo sannarlega, enda svolítið sérstök bragðblanda við fyrstu sýn.  Vá samt hvað þetta var óhugnalega gott!  Eiginlega hættulega gott!  Sætan úr bönununum gerði magnaða hluti með hitanum úr kryddunum, og svo eru kjúklingabaunirnar auðvitað alltaf góðar!

Uppskriftin var eftirfarandi ... fyrir fjóra
3 msk matarolía
1 lítill laukur
2 hvítlauksgeirar
2 tsk rifinn ferskur engifer
1 tsk malaður kóriander
1/2 tsk cumin
1/2 tsk turmeri
1/2 tsk kanill
500 gr smjörhneta
2 msk rautt karrý
2 tómatar
2 þurrkuð rauð chillí
300 ml grænmetissoð
400 gr (1 dós) kjúklingabaunir
1 stór banani, frekar óþroskaður

Byrjaði á að skera laukinn í sneiðar,

skar hvítlaukinn smátt,

og reif niður ferskt engifer,
setti þetta allt saman í litla skál og lagði til hliðar

Tók svo smjörhnetuna og hreinsaði,

skar svo í munnbita,
setti í skál og lagði til hliðar.

Þá byrjaði fjörið!
Hitaði olíuna í djúpri pönnu

og skellti laukblöndunni út á og svo komu kryddin ...
malaður kóriander ...

cuminið ...

turmeric ...

og kanillinn ... mmm kanill :-)

Skellti svo tómötunum, sem ég hafði
skorið í litla bita, út á pönnuna ásamt chillíunum

og hellti svo grænmetissoðinu út á pönnuna,
leyfði suðunni að koma upp og lét krauma í sirka korter

Á meðan hitaði ég smá olíu í annari pönnu, 
skellti smjörhnetunni út á og kryddaði vel
og vandlega með rauðu karrý.
Leyfði þeim að steikjast í sirka 5 mínútur

Þá hellti ég smjörhnetunni út í sósuna,

sem og kjúklingabaununum (hellti af þeim vatninu)
og blandaði öllu vel saman og leyfði að sjóða
í aðrar fimmtán mínútur, með lok á pönnunni.

Undir lokin bætti ég svo bönununum út í og blandaði
öllu vel saman og leyfði að sjóða örlítið lengur

Mæli hikstalaust með þessum, virkilega rosalega bragðgóður á annan hátt en ég hef vanist, sætan í bönununum og smjörhnetunni á móti chillíinu og karrýinu ... Bara gott!  

Kjöt hvað??

Meira síðar.



Ummæli

lítur mjög vel út. er smjörhneta buttersquash?? kv. Bryndís
Vestfirðingurinn sagði…
Takk, þetta var líka rosa gott!

Já, Smjörhneta er Butternut Squash :)
margrét sagði…
Búin að gera þennan svo oft, og svo allskonar útfærslur eftir því hvað er til. Paprika, broccoli, sem núðluréttur og allskonar.