Einfalt og fljótlegt rabarbarapæ

Rabarbari er eitt af mínum uppáhaldshráefnum þessa dagana, enda alveg einstaklega bragðgott hráefni sem skemmtilegt er að vinna með.  Ég reyni því reglulega að finna e-r sniðugar uppskriftir með rabarbara.  Ég lenti þó í því um daginn að ég gleymdi eiginlega að hugsa fyrir eftirrétti og var orðin frekar sein þar sem ég var nýkomin frá Hesteyri og allt var of sein með allt eins og venjulega þegar kemur að ævintýrum mínum í eldhúsinu ... man satt best að segja ekki eftir því að hafa verið tilbúin með matinn þegar gestirnir koma, nema jú þegar gestirnir mæta hálftíma til klukkutíma of seint :-)

Nema hvað, ég steingleymdi sem sagt að undirbúa eftirrétt og þá voru góð ráð dýr og lítið annað að gera en að nota það sem til var í skápunum og sjá til hvort það myndi ekki bara virka ...

Innihaldsefnin voru eftirfarandi ... dugar fyrir 4-5
3-4 dl rabarbari
1-2 dl sykur
1 dl púðursykur
1 egg
2 tsk kanill
1/2 dl sykurhúðað engifer
100 gr 70% súkkulaði
Vanilluís


Byrjaði á að skera rabarbarann í bita, ekkert of stóra
en samt ekki of litla ...

Skellti sykrinum í skál,

ásamt púðursykrinum ...

eggi og kanil ... hrærði allt vel og vandlega saman 

einfaldlega með gaffli - langeinfaldast :-)

Bætti svo sykurhúðaða engiferinu saman við ...


Smurði svo djúpt pæform með matarolíu,
skellti rabarbaranum í formið
hellti svo sykurleðjunni yfir,
hrærði aðeins saman þannig að þetta blandaðist vel.

Raðaði svo súkkulaðibitum ofan á og skellti 
svo í ofninn, blástur 180°C, í ca. 20 mínútur

Voilá, svona leit þetta út þegar þetta var tilbúið.

Þetta reyndist vera hinn ágætasti eftirréttur og alveg snilldarlega einfaldur - smakkaðist virkilega vel saman með vanilluís og hlynsýrópi!

Meira síðar.

Ummæli