Eggjakaka með sætum kartöflum

Það er fátt sem ég veit verra en að vera svöng, eitt af því er þó að vakna svöng!  Þá er ég ekki að tala um svona hæfilega svöng eins og alltaf, heldur að vakna verulega banhungruð.  Það versta er þó að vakna svona hressilega svöng og eiga ekkert að borða ... Eins og gerist svo oft þegar maður er orðinn of svangur :-)

Þetta var raunin á laugardagsmorgun.  En í staðinn fyrir að enda í e-u bakarísrugli ákvað ég að bíta á jaxlinn og búa til eggjaköku.  Þá voru góð ráð dýr, ég átti auðvitað egg - en hvað átti ég nú að nota í fyllinguna?

Eftir örstutta umhugsun og grams í ískápnum varð til eftirfarandi ...
Eggjakaka
3-4 egg
Salt og pipar
2 tsk matarolía

Fyllingin
Sæt kartafla, ca. 1/4 af stórri kartöflu
2 vorlaukar
1 blað grænkál
2 sveppir
Jalapeno eftir smekk
Oreganó
Salt og pipar
Smjörklípa til steikingar

Skar sætu kartöfluna smátt, laukinn í sneiðar
og jalapeno-ið í bita (notaði úr krukku)

Skar kálið og sveppina í frekar grófa bita

Byrjaði á að skella smjörklípu á pönnuna og leyfði
að bráðna áður en ég skellti lauknum, jalapeno og
sætri kartöflu á pönnuna og leyfði að steikjast í 
ca. fimm mínútur eða þar til kartaflan var farin að mýkjast

Bætti þá kálinu og sveppunum saman við og kryddaði

Leyfði þessu svo að steikjast í ca 3-5 mínútur í viðbót,
tók þá af hitanum og lagði til hliðar

Þá var það eggjakakan, skellti eggjunum í skál

ásamt salti, pipar og smá matarolíu.
Notaði svo einfaldlega gaffal til að hræra saman

Tók fram pönnukökupönnuna og bræddi smjör á henni

Hellti svo eggjablöndunni út á ...

Lækkaði aðeins undir og leyfði að steikjast nokkuð vel
áður en ég gerði nokkuð til að til að snúa henni við

Svo var bara að snúa henni við ... 

Smáááá krumpuð - en það er allt í lagi :-)
Leyfði henni að steikjast í smá stund í viðbót

Skellti þá fyllingunni ofan á

og braut svo eggjakökuna saman

og skellti á disk.

Þetta var alger eðaleggjakaka, enda stendur sæta kartaflan alltaf fyrir sínu :-)  Ég ákvað að nota smjör til að steikja upp úr í þetta skiptið, enda finnst mér það nánast tilheyra svona á laugardagsmorgni að hafa almennilegt bragð af matnum - notaði líka vel af salti ... nammi nammi namm!  Mæli með þessu.

Meira síðar.

Ummæli