Sloppy Joes II

Ég fékk góða gesti í mat í kvöld, Daníel og Völu og krakkana.  Það er svo furðulegt að nú þegar liðnir eru 10 mánuðir síðan ég byrjaði að blogga, þá er ég enn alltaf jafn óörugg með það sem ég er að elda, enda svo sem alltaf að prófa eitthvað nýtt sem þetta blogg snýst jú um - það sem er nú samt mest skondið við það er sú staðreynd að ég man eiginlega bara eftir 1-2 tilfellum þar sem mér hefur þótt eitthvað raunverulega óspennandi og verður það nú að teljast býsna ágætt hlutfall.

Nema hvað, þar sem krakkarnir voru að koma í mat og þar sem mér finnst þau alveg einstaklega skemmtileg (þ.e. krakkarnir), þá fannst mér alveg nauðsynlegt að vera með eitthvað "barnvænt" og fyrst og fremst eitthvað gott!

Eftir mikla umhugsun ákvað ég að skella í Sloppy Joes, enda alveg sérstaklega skemmtilegur matur að borða.  Svo ákvað ég að gera líka pasta, svona fyrir okkur eldri kynslóðina, en þetta reyndist svo einnig falla krökkunum í geð þannig að þetta var nú allt hið ágætasta mál :-)

Svona til að halda mig við að prófa nýjar uppskriftir í hvert skipti þá prófaði ég nýja Sloppy Joes uppskrift en ég notaði síðast (Sloppy Joes I, febrúar 2011).  Þessi nýja reyndist eiginlega betri en sú sem ég prófaði síðast þannig að ég get eiginlega ekki annað en mælt með þessari ...

Uppskriftin var eftirfarandi ...
2 msk ólífuolía
1 laukur
1 appelsínugul paprika
2 hvítlauksgeirar
800 gr kjöthakk (ég notaði blandað)
1 tsk chili duft
1/2 tsk kanill
1 dós niðursoðnir tómatar
2-3 greinar fersk basilika
1 lítil dós tómatpaste
2 tsk Worcestershire sósa
1/4 tsk tabasco sósa
Salt og pipar
Hamborgarabrauð
Mæjónes

Byrjaði á að skera laukinn og paprikuna í bita

Skellti þeim svo á pönnuna og steikti þar til 
hvort tveggja var farið að mýkjast, bætti þá hvítlauknum
út á pönnuna og steikti örlítið lengur.

Svo var bara að skella hakkinu á pönnuna

og steikja auðvitaðvel og vandlega.

Bætti svo út í niðursoðnum tómötum,

1/2 tsk kanil

og 1 tsk chilliduft, ég notaði aðeins minna samt,
þar sem ég var með extra sterkt chilli

Svo var bara að skella út í basilikunni

og tómatpaste-inu og blanda öllu vel saman,
þarna var ég búin að lækka hitann niður í hálfan.

Svo var það tabasco sósan 

og Worcestershire sósan ... mm hvað þetta var farið
að ilma virkilega vel

Blandaði öllu vel saman og leyfði að sjóða í ca. 5 mín
í viðbót áður en ég skellti pönnunni á borðið 
þar sem hamborgarabrauð biðu ásamt 
tómötum, kínakáli og osti :-)

Að venju var ótrúlega gaman að borða þetta - alltaf pinku ósnyrtilegt, en kosturinn við þessa sósu var að þetta var frekar fast í sér.  Ef þið viljið hafa þetta bragðsterkara mæli ég með með meira chilli eða að bæta við jalepeno!  

Það sem kom kannski mest á óvart með þessa uppskrift var það sem ég hef verið að komast að smátt og smátt; kanill er snilldarkrydd og jafnvel betra með kjöti en kökum!

Pastað kemur inn á morgun, ákvað að setja þetta inn í skömmtum svo það sé auðveldara að fylgjast með og finna uppskriftirnar :-)

Sem sagt ...

Meira síðar.

Ummæli