Hnetuhúðuð lúða með mangó chutney og kókoskarrý sósu

Það hlaut að koma að því að ég kæmi með fisk uppskrift á síðuna!  Þeir sem þekkja mig eitthvað vita líklega flestir að ég er með fiskóþol og elda þar af leiðandi eiginlega aldrei fisk, raunar var þetta líklega eitt af fyrstu skiptunum sem ég hef eldað fisk á ævinni - merkilegt nokk.  Ævintýri dagsins byrjaði þannig að ég bauðst til að elda fyrir mömmu og pabba, enda alltaf í mat hjá þeim.  Ég varð þá auðvitað að prófa einhverja almennilega uppskrift og valdi að lokum eina úr uppskriftabók sem heitir einfaldlega USA Cookbook (fjölbreytt og skemmtileg, mæli með henni)! 

Þá var lítið annað að gera en að leita að hráefnunum.  Við hér fyrir vestan erum reyndar svo heppin að það er nú fiskbúð á Ísafirði, sem er alger snilld, og það var því lítið mál að rölta til hans Kára og kaupa lúðu.  Málið vandaðist hins vegar þegar kom að hnetunum, en það áttu sem sagt að vera macadamiahnetur til að húða lúðuna. Eins og margir vita þá eru það í fyrsta lagi frekar dýrar hnetur (enda trufflur hnetanna) og í öðru lagi alveg stundum ekki til í búðunum, a.m.k. hérna fyrir vestan. En þá er lítið annað en að redda sér og ég notaði einfaldlega pekanhnetur og valhnetur í staðinn og smakkaðist það stórvel, skilst mér.

Uppskriftin var eftirfarandi ...


Mangó chutney
1/2 dl ferskt engifer
3 hvítlauksgeirar
3 lítil þurrkuð chilli
1 1/2 dl maltöl
1/2 dl blasamic vinegar sýróp
1/2 dl rauðvínsedik
2 dl sykur
2 mangó
1 msk saxað kóriander

Kókoskarrý sósa
3 msk rautt curry paste
800 ml kókosmjólk (2 dósir)
Salt

Lúðan
1 dl hveiti
2 stór egg
1/4 tsk cayenne pipar
100 gr hakkaðar hnetur, pekan- og valhnetur
700 gr lúða
60 gr smjör
2 msk kóriander

Tók engifer (uppáhaldið mitt!)

og skar í grófa bita og skellti í matvinnsluvélina,

ásamt hvítlauksgeirunum

þurrkaða chillinu,

1 msk balsamic sýróp,

og 1 msk maltöli

Allt saman komið í matvinnsluvélina

Svo var bara að hakka þetta vel og vandlega,
þangað til þetta var allt orðið fíngert og flott

Svo var bara að skella þessu á pönnuna

Ásamt afganginum af balsamic sýrópinu,

afgangnum af maltölinu

og svo rauðvínsedikinu.

Þá skellti ég sykrinum út í og lét suðuna koma upp

Leyfði þessu svo að krauma í ca. 25 mínútur ...


Á meðan tók ég tvö mangó, afhýddi þau

og skar í litla bita

Á meðan sauð maltsykurblandan 
og var orðin sýrópskennd

Skellti svo mangóinu út á pönnuna og blandaði 
öllu saman og leyfði að kólna í pönnunni

Þá var að gera kókoskarrýið.
Byrjaði á að skella 3 msk af rauðu curry paste á pönnu
við meðalhita, dreifði vel úr því og leyfði að hitna vel
(átti að nota matarolíu með en gleymdi því, held
það hafi reyndar samt ekkert skaðað...) 

Skellti svo kókosmjólkinni út á pönnuna líka og
leyfði að sjóða í ca. 25 mínútur 

...  eða þangað til blandan hafði rýrnað um helming
en þá lækkaði ég undir og hélt bara heitu

Þá að lokum var það blessuð lúðan eða heilagfiskið

Fékk mömmu til að hjálpa mér að skera í bita,
enda aldrei eldað lúðu áður ... Notaði þrjá bita,
skellti restinni í frysti :-)

Tók svo fram þrjár skálar.  
Í eina þeirra setti ég tvö egg og cayenne pipar

Í eina setti ég hneturnar sem ég hafði saxað mjög smátt

Í þriðju skálina setti ég hveiti 

Byrjaði á því að hræra saman eggin og piparinn með gaffli

Svo var bara að velta lúðubitunum upp úr hveiti,
myndaði gott lag, en samt engir kögglra

Næst velti ég bitanm upp úr eggjablöndunni 

og að lokum upp úr hnetunum þannig að það
myndaðist sæmilega þykk húð

Skellti bitunum svo á ofnplötu, með smjörpappír undir
og hellti smá bræddu smjöri yfir hvern bita

Á meðan hafði mangóblandan kólnað og þá bætti ég
við kóriander út í 

Blandaði öllu vel saman og setti í skál

Á meðan hafði lúðan bakast í ofni við 190°C í 15 mín

Skellti svo að lokum sósunni í sósuskál

Voilá, girnilegt ekki satt? :-)

Samkvæmt öruggum heimildum (þ.e. að sögn foreldra minna) þá smakkaðist þetta virkilega vel!  Ég smakkaði auðvitað mangóið og sósuna og get staðfest að hvort tveggja var virkilega gott og samkvæmt foreldrum mínum var þetta alveg sérstaklega gott saman og því óhætt að mæla með þessum rétti við hvert tækifæri.

Næst verður sagt frá Azerbaijan kvöldinu sem kom skemmtilega á óvart!

Meira síðar.

Ummæli

Þuríður sagði…
Lítur gríðarlega vel út eins og allt annað sem ég sé hérna hjá þér. Mér finnst nefnilega fátt skemmtilegra en að lesa uppskriftarbækur og netsíður. Þannig að ég spyr hvar finnur þú allar þessar bækur sem þú vitnar í á íðunni þinni??
Kær kveðja Þuríður
Vestfirðingurinn sagði…
Takk Þuríður :) Ég finn þessar bækur einfaldlega í bókabúðinni hér á Ísafirði og svo reyni ég að kíkja í bókabúðir í borginni þegar ég er þar. Svo nota ég auðvitað líka Amazon, finn oft allskonar skemmtilegar bækur þar - veit stundum ekkert hvað ég er að panta og þá koma þær mér yfirleitt skemmtilega á óvart :)
Þuríður sagði…
Ég verð greinilega að gefa mér lengri tíma til að skoða og gramsa í Bókhlöðunni næst þegar ég kem vestur. Er búin að prufa margar af uppskriftunum sem þú hefur sett hér inn og það næsta sem skal prufa er rabbabara kjúklingurinn :Þ Hlakka mikið til. Enn og aftur takk fyrir að nenna að blogga um mat ;)
Vestfirðingurinn sagði…
Já, Bókhlaðan kemur oft á óvart :) Er samt rosa misjafnt hvað er til hjá þeim, get líka mælt með Iðunni á Lækjargötunni í Rvk - fer yfirleitt út með 2-3 bækur þaðan :) Takk fyrir að kommenta líka, gaman að vita að e-r lesi :D