Einfalt, gott og enn þægilegra pasta

Eins og sagði í blogginu í gær, þá fékk ég góða gesti í gær. Í gær deildi ég með ykkur snilldarréttinum Sloppy Joes II en eins og ég sagði ykkur sömuleiðis þá skellti ég líka í pasta.  Ég gerði þetta pasta svo sem með hálfum hug, leist samt vel á uppskriftina (elska basiliku) og hún virkaði sömuleiðis einföld sem er alltaf plús þegar maður er að fá gesti :-)

Uppskriftin var eftirfarandi ...
500 gr pastaskeljar (eða skrúfur, eða slaufur - eftir smekk)
2 msk ólífuolía
3 hvítlauksgeirar
1/2 laukur
1 dós niðursoðnir tómatar
1 dl basilika
Salt og pipar
~1 krukka grænt pestó
2 dl kotasæla
Smá parmesanostur
1 poki rifinn mozzarellaostur

Tók hvítlauksrifin þrjú

og skar smátt

Tók sömuleiðis laukinn og skar smátt

Skellti svo olíu á pönnu og steikti hvítlaukinn á 
í smá stund áður en ...

ég bæti lauknum út á og steikti við meðalhita þar 
til laukurinn var orðinn mjúkur

Skellti svo tómötunum út á ...

og leyfði að sjóða

Á meðan sauð ég pastað samkvæmt leiðbeiningum,
nema hvað að ég sauð það örlítið skemur en sagt var
þar sem pastað átti eftir að bakast aðeins inni í ofninum.
Skellti svo soðnu pastanu í eldfast fat og lét bíða meðan
ég kláraði að gera sósuna. 

Ég skellti svo að lokum basilikunni út í tómatsósuna
og blandaði öllu vel saman.

Svo hellti ég tómatsósunni og pestóinu út á 
pastað og hrærði öllu vel saman,

bætti svo kotasælunni út í

og hrærði aftur vel.

Svo var bara að rífa parmesanostinn ...

og skella honum yfir

og svo að lokum mozzarellaostinum ... mmm ...

Setti formið svo inn í ofn stilltan á grill, 250°C 
og hafði inni í ca. 5 mínútur eða þar til osturinn
var bráðnaður og farinn að brúnast.

Ég sá sko ekki eftir að hafa skellt í þetta pasta!  Þetta var fáránlega einfalt og þægilegt, og svo kom í ljós að þetta smakkaðist eiginlega enn betur! Mun alveg örugglega gera þetta aftur, enda eitthvað sem langflestir geta borðað og er líka tilvalið ef óvænta gesti ber að garði, svo fljótlegt og þægilegt er þetta :-)


Meira síðar.

Ummæli