Azerbaijan kvöldið - Meðlætið - Tandoor brauð og Plov (Saffron hrísgrjón)

Ég var næstum búin að gleyma rúsíninu í pylsuendan Azerbaijan kvöldsins sem var auðvitað meðlætið!  Meðlætið var mjög hefðbundið Azerbaijan (ef trúa má upplýsingum á netinu), annars vegar Tandoor brauð og hins vegar Plov sem í þetta skiptið var einfaldlega Saffron hrísgrjón.

Brauð er eins og áður hefur komið fram heilagt í Azerbaijan, enda talið merki um velmegun og farsæld og var þess vel gætt þetta kvöld að brauðið kláraðist, enda má ekki henda því.  Það reyndist ekki vera erfið þraut, enda brauðið virkilega gott.  Sömuleiðis heppnaðist Plov-ið vel, þrátt fyrir að hafa örlítið klúðrað því þar sem ég átti minna smjör en ég hélt :-)

Uppskriftin að brauðinu var eftirfarandi ...
1 lítið bréf af þurrgeri
3 dl heitt vatn
1 tsk salt
6 dl hveiti
1 eggjarauða
Sesamfræ

Svona leit þetta út, brauðið, skornir tómatar,
eggaldinrúllurnar og plov :-)

Byrjaði á að skella saman í skál
vatni og geri

Setti svo í stóra skál hveiti ...

og salt ...

Hellti svo saman við gerblöndunni

Notaði svo trésleif til að hnoða þessu saman

Leyfði þessu svo að hefast í ca. klst 

Notaði svo kökukefli til að fletja deigið út,
ekkert of þunnt samt

Skar svo í brauðið - bara til gamans :-)

Penslaði svo með eggjarauðum og dreifði sesamfræjum yfir.
Skellti svo í ofn við 200°C blástur og bakaði í ca. 20-25 mín.

Þetta brauð var mjög skemmtilegt og bragðgott sömuleiðis, eina sem hefði hugsanlega gert það betra hefði verið ef ég ætti pizzastein til að baka brauðið á :-) Mæli alveg með þessu brauði, örugglega rosa gott líka með allskonar indverskum og austurlenskum mat!

Plovið var fáránlega einfalt!

Hrísgrjón eftir þörf
1 - 1 1/2 dl vatn
Nokkrir saffronþræðir
Smjörklípur - 3-4 msk, fer eftir magni hrísgrjóna og smekk

Skellti saffron þráðum í botninn á bolla

Hitaði svo vatn í hraðsuðukatli og hellti yfir þræðina,
leyfði svo að sitja nokkuð lengi

eða þar til það var komin nokkuð dökkur litur á vatnið

Skellti svo hrísgrjónunum í skál, hellti saffronvökva yfir
og skellti smjöri út í sömuleiðis

Blandaði þessu svo öllu vel og vandlega saman,
þannig að það voru hvít og gul hrísgrjón í bland

Hrísgrjónin komu mjög skemmtilega á óvart og ég mun alveg örugglega prófa þetta aftur.  Saffron er auðvitað hrikalega skemmtilegt krydd, alveg innistæða fyrir því hversu dýrt það er :-)  Ég reyndar viðurkenni að ég gerði þetta ekki alveg á hefðbundinn hátt, en ef ég hefði fylgt öllum kúnstarinnar reglum hefði ég bætt saman við hveiti og ýmsu fleiru til að halda þeim saman, þrýst þeim í skálina og hvolft á disk ... en í þetta skiptið var verulegt tímaleysi að hrjá mig og þá er það eina sem hægt er að gera einfaldlega að redda sér!

Meira síðar.

Ummæli