Azerbaijan kvöldið - Forréttur - Eggaldinrúllur

Ekki alls fyrir löngu, eða í maí, þá lofaði ég því að næsta stóra tilraunaeldhús yrði tileinkað vinningslandi Eurovision.  Ég viðurkenni að mér féllust örlítið hendur þegar Azerbaijan vann, enda vissi ég nákvæmlega núll um Azerbaijanska eldamennsku og hafði eiginlega barasta örlitla fordóma fyrir henni.  Ekki út af því að ég kynni illa við landið, heldur einfaldlega vegna þess að ég vissi ekkert um það.

Það var því lítið annað að gera en að sökkva sér ofan í rannsóknir!  Vissuð þið að Azerbaijönsk matargerð er raunar alveg ótrúlega fjölbreytt og undir ýmsum áhrifum, t.a.m. austurlenskum og svo auðvitað sovéskum - og að landið er alveg ótrúlega frjósamt og mikið af ávöxtum og jurtum sem vaxa þarna og ýta jafnvel enn meira undir fjölbreytta matargerðina.  Já, ég hef svo sannarlega aðra ímynd af Azerbaijan en ég hafði áður en ég byrjaði.

Eftir miklar vangaveltur og mikla leit að Azerbaijönskum uppskriftum á netinu þá endaði ég á að velja uppskriftir sem ég fann á News.az sem er fréttasíða en með svona líka ágætt yfirlit yfir Azerbaijanska matargerð.

Uppskriftirnar sem urðu fyrir valinu voru eftirfarandi:  Í forrétt voru eggaldinrúllur, í aðalrétt voru kálbögglar fylltir af hakki og ýmsum kryddjurtum, og í eftirrétt var baklava eða einskonar hnetubaka.  Í meðlæti var hið hefðbundna plov eða hrísgrjón með saffron og smjöri og svo auðvitað tandoor brauð, en í leit minni eftir upplýsingum um Azerbaijan þá komst ég að því að brauð er álitið heilagt þar, enda talið merki um velmegun og má alls ekki leifa brauði.  Hvort þetta er satt og rétt, en mér finnst hugsunin skemmtileg.

Það sem vakti fyrir mér við valið á uppskriftum í þetta skiptið voru nokkur atriði.  Í fyrsta lagi að ég gæti fengið hráefnin sæmilega auðveldlega, í öðru lagi að þetta tæki ekki of langan tíma - en ég var örlítið tímabundin í þetta skiptið, og í þriðja lagi að ég héldi að þetta bragðaðist ágætlega :-)

Eins og svo oft áður þá gekk þetta nú betur heldur en ég þorði að vona og smakkaðist barasta alveg ágætlega.

Rétturinn sem ég ætla að byrja á að deila með ykkur er forrétturinn: Eggaldinrúllur.

Uppskriftin var eftirfarandi:
3 stór eggaldin
2-3 hvítlauksgeirar
100 gr valhnetur
4 tsk mæjónes
Matarolía
Kóriander
Dill

Þetta var eiginlega fáránlega einfalt ...
Byrjaði á að skera eggaldinið í þunnar sneiðar,
ekki of þunnar samt - en samt ekki of þykkar
Líklega ca. 1/2-1 cm - Skellti svo olíu á pönnu
og steikti eggaldinið í smástund á hvorri hlið,
eða þangað til þau voru farin að mýkjast

Skellti svo steiktu eggaldinu á plötu
og smurði með mæjónesi, meðan
enn heitt

Skellti svo smá hvítlauk, smá dill og smá
kóriander á hverja sneið
(átti að setja hakkaðar hnetur á hverja sneið
líka en gleymdi því ... sjá reddingu fyrir neðan)

og svo var bara að rúlla þeim upp!

Til að redda mér með hneturnar þá skellti ég þeim 
einfaldlega yfir eggaldinið eftir á - gerði held ég 
ekkert verra :-)

Þessi réttur var í fyrsta lagi fáránlega einfaldur.  Í öðru lagi þá smakkaðist hann eiginlega bara ágætlega, sérstaklega ef fólk hefur smekk fyrir eggaldini.  Kryddjurtirnar gerðu líka heilmikið, auk þess sem hvítlaukurinn kom sterkur inn að venju - segi ekki að þessi réttur verði í uppáhaldi hjá mér, en hann kom samt á óvart.

Meira síðar.

Ummæli