Trébrauð eða eitthvað svoleiðis

Ég rakst á þessa skemmtilegu uppskrift þegar ég heimsótti Hjördísi og Kötu til Reykjavíkur um daginn, uppskriftin er sem sagt að brauði sem er mótað eins og tré sem mér fannst alveg ótrúlega skemmtileg áskorun :-)  

Ég fékk afrit að uppskriftinni með mér heim og það kom auðvitað ekki til greina annað en að prófa hana fyrir pikknikið fræga!  Þetta gekk allt saman vel nema hvað að mér tókst að "drepa" deigið með því að láta það vera úti yfir nóttu og já, það var víst næturfrost :-/  Brauðið bragðaðist vel engu síður en það var ansi þungt þar sem það hafði ekkert lyft sér í ofninum.

Uppskriftin var eftirfarandi ...
50 gr þurrger
100 gr smjör eða smjörlíki
5 dl mjólk
1 tsk salt
u.þ.b. 10 dl hveiti
1 egg
birki- og/eða sesamfræ

Setja gerið í skál

Bræða smjörið og mjólkina í potti, passið að hita ekki of mikið

Hella mjólkurblöndunni yfir gerið, 
hræra í til að leysa gerið upp

Bæta svo salti saman við

og megninu af hveitinu, ég byrjaði á 8 dl 

Svo var bara að hnoða :-)

Svona leit þetta út að lokum, en ég leyfði því svo að
hefast í ca. 30 mínútur

Þrjátíu mínútum síðar skipti ég deiginu upp í 3 búta

Tók svo hvern bút og rúllaði upp í lengjur

Setti fyrstu lengjuna í svona einhverskonar spurningamerki 

Tók svo lengju tvö, sem var aðeins lengri og vafði 
helmingnum saman við fyrri lengjuna 

Tók svo þriðju lengjuna og klippti í litla búta

Raðaði svo þessum bútum utan um lengjurnar,
þannig að úr varð nokkurskonar tré.
Á þessum tímapunkti setti ég deigið út, en ég gerði það 
um kvöld og vildi hafa það nýbakað daginn eftir þannig
að planið var að geyma það yfir nóttu og setja það svo 
inn í ofninn að morgni, sem ég og gerði ... en næturfrostið
setti örlítið strik í reikninginn :-)

Að lokum, rétt áður en ég setti brauðið inn, braut ég egg
í skál og hrærði það með gaffli


Notaði svo eggið til að pensla brauðið

Leit þá svona út

Dreifði svo sesamfræjum yfir og skellti brauðinu í ofninn

Brauðið var í ofninum við 200°C í ca. 45 mínútur

Leit svona líka vel út en átti auðvitað að lyfta sér betur

Virkilega skemmtilegt brauð og það var bragðgott þrátt fyrir að hafa ekki lyft sér, mun örugglega prófa þetta aftur og þá gæta að því að "drepa" ekki gerið :-)  

Meira síðar.

Ummæli