Kjúklingur með rabarbara og engiferi

Vá, vá, vá!! Þetta voru orðin sem flugu í gegnum huga mér þegar ég tók fyrsta bitann af kvöldmatnum í kvöld.  Það eina sem ég vissi var að mig langaði að gera eitthvað úr rabarbara, enda rabarbaratímabilið í algleymingi þessa dagana. Það var því lítið annað að gera en að sökkva sér í uppskriftabækurnar til að fá hugmyndir og nota þær til að vinna málið áfram.  Ég fann tvær uppskriftir í einni af uppáhaldsbókinni minni sem er The Essential New York Times Cook Book, önnur uppskriftin var reyndar rabarbaramarineruð önd (sem ég var augljóslega ekki með) en hin var fyrir rabarbaraengifersósu sem mér fannst ótrúlega spennandi!

Það var því lítið annað en að prófa, komin með ferskan rabarbara og bara gleði og spenna í eldhúsinu!

Kjúklingauppskriftin varð svona ... 
2 dl þunnt sneiddur rabarbari
1 dl sojasósa
1 msk smátt saxað engifer
2 kjúklingabringur
Ólífuolía

Sósuuppskriftin var svo eftirfarandi ...
Ólífuolía
2 skalotlaukur, smátt skorinn
2 hvítlauksgeirar, smátt saxaður
2 msk smátt saxað engifer
4 dl vatn
2 dl sykur
8 dl rabarbari, skorinn í 1/2 cm sneiðar
2 1/2 msk hrísgrjónaedik
Salt og pipar

Ferskur rabarbari, ekkert betra!

Skar hann í þunnar sneiðar

Skar svo engifer í litla bita

og skellti þessu saman í lítinn pott

Bætti svo við sojasósunni

og hrærði öllu saman og leyfði suðunni að koma 
upp við meðalhita

Á meðan mareneringin sauð skar ég 
kjúklingabringurnar í þunnar sneiðar

Mareneringin tilbúin :-)

Þá var bara að skella kjúklingnum í djúpan disk 
og hellti svo ríflega helmingnum af mareneringunni yfir
kjúklinginn og hrærði allt vel saman.  Ætlaði að nota
restinni af mareneringunni seinna en hætti svo við,
þannig að í rauninni mætti nota a.m.k. helmingi minna
af rabarbara og ca. 1/4 minna af sojasósu.
Setti svo bara plast yfir og leyfði að marenerast í 5 klst 
en það er í raun alveg nóg að marenerast í 1-2 klst.

Þá var að byrja á sósunni.  
Fyrsta skref var að skera laukinn smátt.

Skar svo hvítlaukinn smátt sömuleiðis

Skellti þessu svo á pönnu ásamt ólífuolíu.

Tók svo góðan bita af engiferi

og skar í litla bita

Þegar laukurinn var orðinn mjúkur og fallegur,
bætti ég engiferinu út á pönnuna og leyfði að mýkjast

áður en ég hellti vatninu út á pönnuna

og bætti svo við sykrinum.

Svo var bara að leyfa suðunni að koma upp

og skera rabarbara í 1/2 cm langar sneiðar

Þegar suðan var komin upp þá lækkaði ég hitann þannig
að suðan datt nánast niður og bætti þá rabarbaranum
út á pönnuna, og leyfði honum að sjóða við mjög lágan
hita í ca. 8 mínútur

Hann var samt ekki farinn að detta í sundur,
a.m.k. ekki mikið :-)

Veiddi svo rabarbarann upp úr og setti í sigti

Hækkaði þá hitann undir pönnunni og leyfði suðunni 
að koma upp, hugmyndin var að "rýra" sósuna og 
þykkja hana aðeins

Eins og þið sjáið þá lak auðvitað af rabarbaranum,
en ég hellti þeim vökva sem kom reglulega á pönnuna

Sjóði sjóði sjóði ... í nokkuð langan tíma

Þegar sósan hafði rýrnað um ca. helming byrjaði 
ég á því að steikja kjúklinginn við háan hita
með smá ólífuolíu á pönnunni 

Sósan hélt áfram að rýrna, þar til hún var ca. 2 dl

Úff, eigum við eitthvað að ræða hvað þessi kjúklingur
var hrikalega góður?

Þegar sósan hafði rýrnað eins og ég vildi þá tók ég 
pönnuna af hitanum og leyfði henni að kólna aðeins

Á meðan tók ég kjúklinginn og setti á disk

Bætti svo hrísgrjónaediki við sósuna ...

Ásamt smá salti og pipar

hrærði allt vel saman og hellti svo í skál

Að lokum bætti ég við slatta af rabarbara 
og voilá, þessi fína sósa tilbúin :-)

Til að hafa ekki bara sósu og kjúkling ákvað ég að 
hafa smá tagliatelle með, sauð samkvæmt leiðbeiningum

Svo var það endaafurðin, 
Skellti smá pasta á diskinn,
smá sósu
setti kjúklinginn ofan á
og aðeins meiri sósu :-)

Aftur, vá, vá, vá!! Alveg virkilega góður réttur sem kom skemmtilega á óvart.  Kjúklingurinn var vel mareneraður og það var undirliggjandi þetta líka hrikalega góða saltbragð úr sojasósunni sem spilaði ótrúlega skemmtilega við sæta bragðið af rabarbara- og engifersósunni og útkoman varð algert ævintýri fyrir bragðlaukanna!  Mæli með þessum fyrir þá sem hafa smá ævintýraþrá undirliggjandi í eldhúsinu.

Meira síðar.

Ummæli

Dóra Hlín sagði…
ég er svöng...
Vestfirðingurinn sagði…
Ég á afgang :)