Eggjasalat með karrý og eplum

Það var virkilega skemmtilegt í síðustu viku þegar við vinkonur Díönu Jóhannsdóttur tókum okkur saman og fögnuðum því með henni að hún er að fara að gifta sig í lok mánaðarins, eða þ.e. "gæsuðum" hana!  Eins og allir vita þá þurfa gæsir að borða eins og aðrir og var því ákveðið að hafa pikknik.  Við Karen tókum það að okkur að undirbúa pikknikkið og ég reyndi fyrir alla muni að halda aftur af mér og púlla ekki "Albertínu" og vera með alltof mikinn mat :-)

Næstu daga mun ég setja inn uppskriftir úr pikknikinu og byrja hér með eggjasalat sem við gerðum og var eiginlega alveg hrikalega gott, það sem er leynivopnið í þessari uppskrift er epli sem gerði ótrúlega skemmtilega hluti! :-)

Uppskriftin endaði svona ...
1 laukur, skorinn smátt
1 epli, skorið smátt (ekkert of samt)
8 harðsoðin egg, skorin í bita
3-4 steinseljugreinar
1 msk hnetusmjör
~ 1-2 msk majónes (eða eftir þörfum)
~ 2-3 msk sýrður rjómi (eða eftir þörfum)
1 msk gult karrý
Salt og pipar

Einn laukur skorinn smátt

Eitt rautt epli skorið í litla bita

Laukur og epli sett saman í stóra skál

Harðsuðum svo 8 egg í ca. 10 mínútur

Þau voru svo skorin í litla bita sömuleiðis
og bætt út í skálina 

Steinseljunni bætt út í, ásamt smá majonesi og
aðeins meiri sýrðum rjóma, ég myndi alveg þora að
sleppa majonesinu næst þegar ég geri uppskriftina!

Smá hnetusmjör, nammi namm :-)

og að lokum smá karrí, salt og pipar 
öllu svo blandað saman.

Best er ef hægt er að leyfa að standa í ískáp yfir nóttu, en þá ná bragðefnin að blandast vel saman og búa til eitt af betri eggjasalötum sem ég hef fengið!  Tilvalið í pikknikið þegar sumarið lætur loksins sjá sig :-)

Meira síðar.

Ummæli

Nafnlaus sagði…
þetta var mjög gott salat og algjörlega óafvitandi lærði ég að búa það til :)
kv
Karen
Vestfirðingurinn sagði…
Já, þetta var virkilega vel gert hjá þér :)