Aðeins meiri Ítalía: Focaccia brauð

Ótrúlegt en satt þá tókst mér að gleyma einu sem tengdist Ítalska kvöldinu mikla!  Það var þó langt frá því að vera það ómerkilegasta sem lagt var á borð það kvöldið, en ég gerði auðvitað focaccia brauð til að bera fram með secondo og formaggio, reyndar verð ég að byrja á að þakka Díönu og Nonna fyrir brauðið, en án þeirra hefði það ekki orðið að raunveruleika (enda ofninn upptekinn í að baka lærið allan daginn), takk kæru vinir!

Afsakið annars hvað það hefur verið stopult bloggið síðustu daga, en ég þurfti óvænt að fara til Tékklands í síðustu viku og því lítið um eldamennsku á þessu heimili síðustu vikuna, ég er þó hins vegar með nýja veitingahúsarýni í farteskinu, svona fyrir þá sem hugsanlega munu heimsækja Tékkland - kemur inn síðar í vikunni :-)

En aftur að brauðinu sem reyndist ótrúlega einfalt og þægilegt í gerð og gjörð og eiginlega virkilega gott.

Uppskrift að einu brauði ...
6 dl hveiti
1/2 tsk salt
2 tsk ger
2 dl volgt vatn
3 msk ólífuolía

Ef vilji er til þá er hægt að setja t.a.m. rauðlauk og rósmarín og salt ofan á.

Byrjaði á að setja hveiti í skál og svo salt ...

og ger ...

Blandaði þessu öllu vel saman ...

Gerði svo holu í miðjuna og setti vatn ...

og ólífuolíu saman ofan í 

Svo var ekkert annað að gera en að hnoða þangað til
þetta fína deig hafði myndast :-)

Leyfði þessu svo að hefast þangað til deigið hafði 
tvöfaldast í stærð 

Þá hnoðaði ég það upp aftur og setti í hringform ...

Svo notaði ég vísifingur til að gera reglulegar holur

Ég gerði raunar tvö brauð ... þetta sem var einfaldlega hreint

og þetta þar sem ég setti lauk og rósmarín og salt.
Leyfði brauðunum svo að lyfta sér í ca. 30 mín en
þá komu Díana og Nonni og tóku þau með sér heim
og bökuðu í ca. 25-30 mínútur við 220°C.

Þetta leit líka svona vel út þegar þau komu 
með það í matinn :-)

Hrikalega gott brauð sem verður alveg örugglega gert aftur á þessu heimili ... það er líka tilvalið að nota heilhveiti í þetta brauð, svona fyrir þá sem eru ekki hrifnir af hvítu hveiti.  Svo er líka alger snilld að nota t.d. chilliolíu í staðinn fyrir ólífuolíuna eða til að pensla yfir yfirborðið ... bara gott :-)

Meira síðar.

Ummæli