Veitingahúsarýni

Ég áttaði mig á því í gær að matur er farinn að spila ótrúlega stóran þátt í lífi mínu. Það er raunar kostulegt þegar ég hugsa til þess að ekki svo alls fyrir löngu leit ég á mat sem leiðinlega nauðsyn; eitthvað vesen en samt nauðsynlegt til að lifa (augljóslega!!). Það er svo sannarlega ekki mín tilfinning í dag og matur er ekki bara stór þáttur, hann er hreinlega að verða ástríða, tilfinning sem er undirliggjandi alltaf. Þannig er því nú að ég er farin að borða með tilfinningu og farin að njóta góða bragðsins með aukinni dýpt. Í hvert skipti sem ég borða þá er ég ósjálfrátt alltaf með í huga áferð, bragð, innihaldsefni o.s.frv.

Þegar ég byrjaði að blogga seint á síðasta ári átti ég síst von á þessari þróun. Upprunalega hugmyndin var að blogga ca. hálfsmánaðarlega og þá um þessi stóru tilraunaeldhús (Ítalía í næstu viku btw). Raunin hefur svo sannarlega verið önnur með um 3 blogg á viku að meðaltali sem er fyrst og fremst þér að þakka lesndi góður :) Þetta blogg hefur nánast fengið sjálfstætt líf og er orðinn stór hluti af mínu lífi. Það ætti því ekki að koma á óvart að ég hef verið að velta fyrir mér frekar þróun á blogginu (allar hugmyndir vel þegnar) og er ein pælingin að vera stundum með gestakokka og önnur pæling að vera með veitingahúsagagnrýni (þá sjaldan sem ég fer út að borða ...). Hugmyndin með þessu er ekki þó að koma í staðinn fyrir matarbloggin, heldur einfaldlega bæta við :)

Af hverju ekki að byrja á veitingahúsarýninni strax? Þið segið mér svo endilega hvort ég sé á réttri leið með þetta ...

Við Arna Lára erum staddar á námskeiði í borginni og fórum saman að borða í gærkvöldi. Eftir nokkrar vangaveltur fórum við á Uno við Ingólfstorg eftir að hafa fengið ábendingu um að þar væri góður matur á sanngjörnu verði.

Við gengum þarna inn um átta leytið og var nokkuð þétt setið. Við fundum þó gott borð og settumst þar og biðum eftir þjónustu ... og biðum ... Gáfumst að lokum upp og Arna Lára sótti fyrir okkur matseðla. Þar sem hún hafði þegar borðað var ég ein um að borða í þetta skiptið. Eftir nokkra bið kom þjón og ég pantaði kjúklinga tagliolini sem kostaði kr 1.990. Þá pöntuðum við sitthvort glasið af rauðvíni hússins.

Þjónninn kom með brauð og með'í á borðið og reyndist það virkilega gott, en maturinn kom nánast undarlega fljótt, vínið skömmu síðar og því ekki mikill tími til að smakka brauðið almennilega. Pastað var sumsé með kjúklingi og sveppum, spínati, pancetta og hvítvínsrjómasósu. En þá var að smakka ... Fyrsti bitinn var himneskur (enda var ég orðin svöng)og vínið reyndist virkilega gott, milt bragð og djúpt eftirbragð af víninu. Pastað reyndist vera fjarri því að vera al dente en bragðið var gott. Kjúklingabitarnir reyndust bragðgóðir sömuleiðis en sumir bitarnir örlítið þurrir og sumir með einstaka sin. Helstu vonbrigðin voru þó að eftir því sem neðar kom í diskinn varð bragðið lakara og neðst fannst varla bragð lengur vegna of mikillar olíu. Örlítil vonbrigði þar eftir virkilega góða byrjun. Vínið var þó gott alla leið :)

Eftir nokkra bið tókst okkur að ná athygli þjóns til að fá reikninginn, svo tók við enn lengri bið eftir að fá að borga ... En það hafðist að lokum.

Allt í allt ágætur matur miðað við verð, en þjónustan var mjög sérstök og greinilega ljóst að hver þjónn bar ekki ábyrgð á ákveðnum borðum því vandinn var ekki að það væru of fáir þjónar.

Þjónustan = 2/5
Maturinn = 3/5
vín hússins = 4/5
Heildareinkunn = 3/5

Meira síðar.

Ummæli

Unknown sagði…
Vel gert!
Nafnlaus sagði…
Þetta er skemmtileg viðbót á aftar skemmtilegu og fróðlegu bloggi! Meira svona :)

Kv. Birna