Skrúfur með sveppatómatsósu

Það er svo skrýtið að þegar ég sekk ofan í uppskriftaleit fyrir stóru tilraunaeldhúsin þá get ég ekki annað en fallið fyrir einni og einni tengdri uppskrift, eða er það kannski ekkert skrýtið? Staðreyndin er allavega sú að ég þarf að takmarka mig, meira að segja í stóru tilraunaeldhúsunum, jafnvel þó það endi nú líklega 6 rétta (eiginlega 9 samt) í næsta stóra tilraunaeldhúsi þar sem þemað verður Ítalía (já ég veit, ég er líka stressuð!).  Ég sat með Silfurskeiðina í fanginu í dag og reyndi að velja úr öllum þeim þúsundum uppskrifta sem þar eru og held ég sé a.m.k. komin með aðalréttinn ... þó ég veiti ekki alveg hvernig fer með það þar sem ofninn minn er svo "lítill"  ... (og svo þarf ég reyndar að kveikja í aðalréttinum líka ... pæling að hringja á slökkviliðið fyrirfram?)

En ég ætlaði svo sem ekki að þreyta ykkur með umræðu um komandi tilraunaeldhús, heldur segja ykkur frá uppskriftinni sem ég rakst á í uppskriftaleitinni í dag.  Sú uppskrift var svo yndislega einföld (sem er gott þegar maður skiptir um skoðun á síðustu stundu og ákveður að elda) og byggir að miklu leiti á því sem maður á yfirleitt í skápunum heima.

Nú þarf ég að gera játningu, ég "svindlaði" stórkostlega í þessari uppskrift.  Staðreyndin er auðvitað sú að ferskar kryddjurtir eru ósvífilega dýrar á Íslandi og satt best að segja þá á ég voðalega sjaldan ferskar kryddjurtir í ískápnum, enda geymast þær misvel (á reyndar eftir að prófa að setja þær í vatnsglas og athuga hvort þær dugi lengur ...).  Ég er því einfaldlega farin að rækta sjálf þær kryddjurtir sem ég nota hvað oftast.

Kóríanderinn minn :-)

Graslaukurinn 

og Jalepeno plantan mín :-)

Það er þó þannig að í augnablikinu eru kryddjurtirnar mínar fáar og raunar myndi ég aldrei rækta þessar sem ég var að nota í kvöld og þá er lítið annað að gera en "svindla" og nota þurrkaðar jurtir, þ.e. krydd og nota þá bara aðeins meira :-) [Innskot: er að smakka fyrstu bitana af pasta dagsins og nammi nammi namm!]  Sama gildir um ótal margt hjá mér, enda lendi ég reglulega í að þurfa að aðlaga uppskriftirnar að því hráefni sem ég fæ á Ísafirði og sömuleiðis er sumt einfaldlega of dýrt, enda enginn milljónamæringur sem skrifar þessu orð, því miður verulega verulega langt frá því.  Ég verð samt að viðurkenna að með þessu tilraunaeldhúsi þá er ég orðin alger öfgamanneskja varðandi sumt hráefni og leyfi mér að kaupa þar það besta, en sem betur fer þá er það oft svo að hið besta er ekkert endilega það dýrasta þannig að þetta jafnast út :-)

En að uppskrift kvöldsins [Innskot: gerið ráð fyrir örstuttri þögn meðan ég skrepp í eldhúsið og sæki mér áfyllingu á diskinn ...]:
1 dós niðursoðnir tómatar
2 msk ólífuolía
2 skallottulaukar
2 hvítlauksgeirar
ca. 1-2 tsk þurrkað marjoram
ca. 1 msk þurrkað steinselja
25 gr smjör
4 stórir sveppir (eða 6-8 minni)
Pastaskrúfur, 300-400 grömm

Skallottu laukarnir tilbúnir til skurðar ...

Skar þá smátt 

Skellti þeim svo á pönnuna og steikti í ólífuolíu ásamt
hvítlauksrifjunum ...

Bætti svo út í þurrkaða marjoraminu og steinseljunni

Á meðan laukurinn og kryddin steiktust þá skar ég sveppina

Skar þá í sneiðar og svo í tvennt 

Bætti þeim svo út á pönnuna ásamt smjörinu 

Hrærði reglulega í meðan smjörið bráðnaði

Kryddaði svo vel með nýmöluðum pipar og salti

Bætti svo niðursoðnutómötunum út í og ca. 1 dl af vatni,
leyfði sósunni svo að malla í ca. 20 mínútur og hrærði 
sjaldan en reglulega í

Þegar sósan hafði soðið í ca. 10 mínútur þá var tilvalið
að setja pastað í sjóðandi vatn og leyfði því að 
sjóða í ca. 10 mínútur 

Verð að nefna að mér tókst að sjóða það al dente
sem er alveg hreint ótrúlegt, enda fer það oftast svo
þegar ég sýð pasta að ég gleymi því og ofsýð það ...

Hellti svo vatninu af pastanu og skellti í skál, hellti svo
tómatsveppablöndunni út á 

Skellti svo rifnum parmaosti út í 

Hrærði þessu svo öllu saman og nammi namm, fullkomnun!

Vissuð þið að maður á ekki að setja olíu út í vatnið sem pastað er soðið í því það skemmir viðloðunina á pastanu fyrir sósuna?  Alltaf er maður að læra eitthvað nýtt :-) 

Meira síðar.

Ummæli