Ítalía í öllu sínu veldi: Secondo - Cosciotto alla Perigordina

Þá er loks komið að aðalréttinum sjálfum, lambalærinu!  Þetta var eiginlega sá réttur sem ég hlakkaði mest til að prófa, aðallega út af því að ég fékk að kveikja í lærinu!  Var reyndar pinku stressuð yfir því, aðallega því ég skildi ekki alveg leiðbeiningarnar (tek fram að þær voru á íslensku!!).  Þetta hafðist þó allt saman og út kom þetta líka fullkomna lambalæri og þessi líka fullkomna sósa!

Þegar maður er að elda fyrir marga í einu og með marga rétti þá verður maður að velja uppskriftirnar vel, leggja smá hugsun í valið og ég tala nú ekki um ef maður hefur lítinn tíma til að elda (eins og ég hafði þennan dag).  Þessi uppskrift varð fyrir valinu af nokkrum ástæðum, í fyrsta lagi fannst mér innihaldslýsingin áhugaverð, í öðru lagi þá var lambið haft inn í ofninum í 5 klukkutíma (sem er frábært þegar margir réttir eru á matseðlinum), í þriðja lagi þá eldaðist sósan um leið og lærið og í fjórða lagi þá var það virkilega spennandi að fá að kveikja í aðalréttinum :-)

Uppskriftin var eftirfarandi ...
4-5 msk ólífuolíla
120 gr smjör
2,8 kg lambalæri
4 msk koníak
12 hvítlauksrif
2 laukur, saxaður
1 1/2 blaðlaukur, snyrtur og saxaður
Slatti af þurrkuðu timjan
2 steinseljugrein, söxuð
2 sellerístöngull, saxaður
4 negulnagli
1 flaska þurrt hvítvín
salt og pipar

Kartöflumús ...
Kartöflur
Mjólk
Sykur
Salt

Eitt lambalæri = Tékk!

Byrjaði á því að hreinsa lambalærið vel og vandlega

Tók til steikingapott og hellti ólífuolíu í botninn

Setti lærið svo í pottinn og smjörbita ofan á

Stillti ofninn svo á grill og hafði pottinn opinn 
Leyfði þessu að steikjast í nokkrar mínútur ...

Snéri því þá við og leyfði að steikjast á bakhliðinni 

Á meðan á því gekk byrjaði ég að skera grænmetið,
fyrst að hreinsa 12 hvítlauksrif ...

Þegar lærið var orðið steikt, stillti ég ofninn á blástur
og 150°c, tók lærið út og hellti koníaki yfir það

Svo var það bara kveikjarinn sem var notaður til að 
bera eld að lærinu og vá hvað það var gaman :-)
(gekk í algeran barndóm að fá að leika mér með eld)

Þá var það grænmetið áfram ... skar laukinn í litla bita

Sömuleiðis blaðlaukinn ... 

Mmmm... helling af girnilegum blaðlauk!

Steinseljan er alltaf góð fersk ...

Saxaði hana vel og vandlega 

Þá var það selleríið sem ég er loksins að læra að 
sættast á að sé allt í lagi á bragðið ... 
þykist vera að fullorðnast :-)

Skar það sömuleiðis í bita ...

Mmm... hvað það var góð lykt, jafnvel pinku jólalykt!

Skellti þessu svo öllu út í pottinn með lærinu

Keypti eina góða hvítvínsflösku til þessara nota,
fínt að geta keypt svona eina og hálfa flösku,
sérstaklega þegar maður er með hvítvín í 
tveimur réttum 

Hellti hvítvíninu svo einfaldlega í pottinn og yfir lærið

Saltaði og pipraði svo lærið og skellti því inn í ofninn :-)

Eftir ca. 2 1/2 tíma tók ég það út til að tékka á því
og nýtti tækifærið og hellti aðeins yfir það af soðinu
áður en ég setti það inn aftur í aðra 2 1/2 tíma

Fimm tímum síðar var það svo svona líka hrikalega flott
alveg akkúrat og sósan sömuleiðis!
Tók lærið úr pottinum og skellti því á disk ...

Hellti svo sósunni úr pottinum og í skálar :-)

Til að hafa meira gott með þá skellti ég í kartöflumús alla padre
...sauð sum sé kartöflur og kramdi þær ofan í pott ...
skellti svo saman við sykri, mjólk og salti og hrærði saman 

Hrikalega góð eins og alltaf, þó hún hafi orðið
óþarflega þunn hjá mér ... en það kom ekkert að sök :-)

Eftir að hafa gert óformlega könnun meðal matargestanna þá er ljóst að lambalærið þótti langbest, eða fyrir utan soðsósuna kannski sem þótti alveg einstök - Lambið var eins og sælgæti, hrikalega bragðgott, akkúrat eldað og virkilega meyrt og einfaldlega djúsí!  Það sem meira er að þá var ótrúlega gaman að elda það, eldurinn spilar auðvitað stóran þátt þar, en það var líka bara svo þægilegt í framkvæmd og alger snilld að geta sett það bara inn í ofninn og svo voilá, allt tilbúið; kjöt og sósa!

Meira síðar.

Ummæli