Ítalía í öllu sínu veldi: Aperitifo og Antipasto

Það var ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur í þessu risastóra tilraunaeldhúsi sem samanstóð raunar af 8 réttum (áttu að vera 9 en ég gleymdi salatinu ...). Ég verð að viðurkenna að ég raunverulega skalf á beinunum í þetta skiptið enda svo ótalmargt sem ég var að prófa í fyrsta skipti, til að mynda bjó ég til mitt eigið pasta (ótrúlega auðvelt btw) og svo eldaði ég hörpudisk í fyrsta skipti sömuleiðis og já, það var ótal margt "fyrsta skipti" í þessu tilraunaeldhúsi sem svo sannarlega stóð fyrir sínu.  Í þetta skipti var það Secondo (annar aðalréttur) sem líklega hafði vinninginn, þ.e. þótti bestur en að venju þótti dolce eða sætur eftirréttur einnig góður.   En við komum ekki að þeim fyrr en síðar.  Þar sem þetta er ótrúlegur fjöldi mynda og ótrúlega skemmtilegar uppskriftir þá finnst mér nauðsynlegt að leyfa þeim að njóta sín öllum í sérstökum bloggum og munu þess vegna koma inn á næstu dögum.

Í dag ætlum við þó að byrja á Apertifo og Antipasto réttunum, en það er sem sagt fordrykkur og forréttur en bein þýðing á antipasto mun vera "fyrir mat".

Apertifo-inn var skemmtilega einfaldur og kom raunverulega á óvart,en það var vermúð eða Martini Bianco.  Máltíðin hófst sem sagt á skál fyrir Ítalíu, páskum og góðum vinum :-)

Vermúðinn góður

Antipasto-ið var hins vegar aðeins flóknara og lagði ég heilmikla hugsun í það (eða svoleiðis).  Eftir nokkra umhugsun ákvað ég að fara klassísku leiðina og vera með kjötbakka, en eins og ykkur er eflaust farið að gruna þá gat ég auðvitað ekki haft það alveg svo einfalt og hafði einnig laxvafinn aspargus og fleira skemmtilegt. 

Uppskrift að Antipasto
Allskonar ítalskt kjöt; salami, pepperoni, prosciutto o.s.frv.
Tómatar og mozzarella, ólífuolía, salt og pipar (gleymdi að kaupa basiliku)
Aspas og reyktur lax: 1 dós heill aspas, reyktur lax, skorinn í þunnar sneiðar
Prosciutto og melóna

Mozzarella og tómatar skorin í sneiðar, ólífuolíu hellt
yfir og salt og pipar sett yfir sömuleiðis.  Best er 
að hafa með þessum rétt ferska basilíku, en hún var
ekki til á heimilinu en það kom ekki að sök :-)

Aspargus check, hugsanlega hefði verið betra að vera 
með ferskan aspas en þetta virkaði mjög vel

Var svo bara með lítið flak af reyktum laxi ...

sem ég skar í þunnar sneiðar ...

og vafði svo utan um aspasstangirnar, notaði tannstöngla
til að halda öllu saman ...

Svo tók ég hálfa melónu 

og skar í grófa bita ... Skar svo prosciutto í lengjur 

og vafði utam um melónubitana, alltaf gott :-)

Hér má svo sjá allt antipasto-ið saman komið, 
var líka með hvítlauksbrað og tómatpestó - virkilega gott!

Apertifo-ið og antipasto-ið reyndust alveg hrikalega góð og virkilega skemmtileg leið til að hefja máltíð sem reyndist jafnvel enn betri, mæli með þessu við öll tækfæri.  Besta var þó hversu einfalt þetta allt saman var og lítið mál að gera tilbúið og skella á borðið áður en gestirnir mættu.  Athugið þó að þetta er sitthvor rétturinn og var því apertifo-ið drukkið áður en við hófumst handa við að gæða okkur á antipasto-inu (tókum hefðirnar alvarlega þetta kvöldið :-)

Meira síðar.

Ummæli