10 mínútna kjúklingur - góður hvenær sem er!

Stundum er það svo að ég er hreinlega svöng og langar að borða strax og þá er lítið annað hægt að gera en að hendast í eldhúsið og skella í eitthvað gott að borða. Stundum geri ég eitthvað gamalt og gott, en oft reyni ég að nýta tækifærið og búa til eitthvað sem ég get notað til að deila með ykkur hér á blogginu :-)

Eitt slíkt tækifæri gafst á sunnudaginn.  Ég var banhungruð eftir langan dag í eldhúsinu þar sem ég hafði staðið og bakað éclairs fyrir ykkur, átti kjúkling í ískápnum en hafði hins vegar ekki hugmynd hvernig ég ætti nú að elda hann.  Þar sem ég hef verið svolítið mikið að gera t.d. indverskan og eitthvað slíkt þá ákvað ég að mig langaði ekki að nota turmeric og ekki cumin.  Mig langaði hins vegar í eitthvað ferskt og mig langaði í eitthvað fljótlegt.  Hitt vandamálið mitt var að ískápurinn minn var hálf tómur fyrir utan kjúklinginn og þá eru nú góð ráð dýr.  Það var lítið annað að gera en að setjast niður og fletta í gegnum uppskriftabækurnar mínar með kjúkling í huga og athuga hvort ég dytti ekki niður á e-ð sem ég átti allt í og uppfyllti hinar kröfurnar sömuleiðis.

Ég fann að lokum uppskriftina sem uppfyllti kröfur mínar í The Essential New York Times Cookbook en það var uppskrift fyrir stir-fried kjúklingur með kremuðum gulum baunum.  Ok, það viðurkennist að hún uppfyllti ekki allar kröfur mínar þar sem ég átti auðvitað ekki kremaðar gular baunir og ég átti ekki sesam-olíu og ég átti ekki þurrt hvítvín, þ.e. ekki opna flösku og ég vildi ekki fara að opna heila flösku bara fyrir eina matskeið :-)  Mér leist hins vegar vel á heildina og ákvað þess vegna að vinna bara út frá þessari uppskrift og breytti henni töluvert.  Vá hvað ég var ánægð með árangurinn!


Uppskriftin 
~500 gr Kjúklingalundir/bringur
2 msk soyjasósa
1 msk matarolía
~1 msk rauðvín
Matarolía til steikingar
3 hvítlauksgeirar, smátt skorinn
ca. 2-3 cm engiferrót, smátt skorin
1 ferskt rautt chilli + 2 þurrkuð
430 gr dós gular baunir, + ca. 1-2 msk af vatninu
2-3 smjörklípur
Smá kóríander til skrauts
Salt og pipar

Þetta var ótrúlega einfalt!  Soyjasósan
sett í skál ...

ásamt olíunni ...

Kjúklingurinn skorinn í bita og settur í skálina sömuleiðis

Blanda öllu vel saman og leyfa að standa 
í eins og fimm mínútur ...

eða á meðan maður sker "grænmetið" :-)

Svo var bara að skella olíu á pönnu og hita vel,
skella svo kjúklingnum á pönnuna og snöggsteikja ...

Þegar kjúklingurinn var steiktur þá bætti ég engiferinu,
hvítlauknum og chilli-inu út á

Blandaði vel saman ...

2 mínútum síðar hellti ég gulu baununum út á, ásamt
smá af vatninu úr dósinni ...

Blandaði vel saman og setti sömuleiðis nokkrar 
smjörklípur og salt og pipar, hrærði vel og leyfði
að hitna aðeins á meðan ég kláraði að sjóða
hrísgrjónin :-)

Svo var bara að setja hrísgrjónin á disk, kjúklinginn
yfir og svo smá kóríander til að bragðbæta!

Þetta var eiginlega alveg ótrúlega gott, sterkt og gott bragð af engiferinu og chilli-inu, ásamt sætu bragði gulu baunanna.  Svo tók ég afganginn einfaldlega með í vinnuna daginn eftir og nammi nammi namm hvað þetta var gott - mun tvímælalaust gera þetta aftur og já, langar eiginlega bara í þetta akkúrat núna, nema hvað að ég er auðvitað að prófa eitthvað nýtt sem kemur í ljós á morgun ... en megin innihaldsefni næsta bloggs verður valhnota eða hvað það heitir á íslensku :-)

Meira síðar.












Ummæli