Neyðarsúkkulaðikökur

Ég er búin að finna uppskriftina til að nota í neyð.  Það var þannig að ég hafði ætlað að prófa að búa til eplapæ til að taka með á fund stjórnar Fjórðungssambandsins um daginn :-)  Ég hef aldrei gert eplapæ áður, en finnst þau hins vegar alveg hreint afspyrnu góð, sérstaklega með góðum vanilluís!

Nema hvað, þar sem fundurinn var kl. 8.30 að morgni ákvað ég að gera deig fyrir botninn kvöldið áður, vaknaði svo ofurspræk klukkan hálf sjö til að skera epli og búa til pæ, en það gekk ekki betur en svo að ég hafði algerlega klúðrað botninum, ekki sett nógu mikinn vökva ... þannig að það varð pinku uppnám á heiminum þar sem pæ-deigið endaði í ruslinu og stefndi í algert klúður og kökulausan fund, enda að renna út á tíma ...

Eftir að hafa náð aðeins að slaka á yfir þessu klúðri settist ég niður með uppskriftabókina sem ég var að nota, heitir "The complete book of baking" og fann þar uppskrift að súkkulaðikökum sem þurftu aðeins að vera í 12 mínútur inn í ofninum og litu út fyrir að vera sæmilega einfaldar í framkvæmd.  Þær reyndust reyndar vera alger snilld, aðeins ca. 15 mínútur að gera þær :-)

Uppskriftin var eftirfarandi:
4 eggjahvítur
5 dl flórsykur
2 dl kakóduft (notaði 1 1/2 dl)
2 msk hveiti
1 tsk kaffiduft
1 msk vatn
1 dl valhnetur, hakkaðar (notaði heslihnetur)

Byrjaði á að þeyta eggjahvíturnar 

þangað til þær voru orðnar freyðandi fínar :-)

Svo var það bara að sigta flórsykurinn, kakóið

og hveitið, það litla sem var

Þetta var sigtað ofan á eggjahvíturnar

Bætti að lokum við kaffinu

Hærði þetta svo allt saman, ásamt vatninu 

Lítur vel út ekki satt? :-)

Þá var það leyniefni dagsins ... 

Skar Rolló-ið í grófa bita  

Bætti svo heslihnetunum og rolló bitunum út í deigið

Leit að lokum svona út :-)

Notaði svo skeið til að ausa deiginu á ofnplötuna og
skellti inn í ofninn sem var stilltur á 180°C blástur

Bakaði kökurnar í ca. 10-12 mínútur og voilá 
þessar líka fínu súkkulaðikökur :-)

Kökurnar reyndust svaka fínar, loftmiklar og bragðgóðar!  Mæli með þeim við hvaða tækifæri sem er, en alveg sérstaklega reyndust þær heppilegar þegar þurfti að redda hlutunum með litlum fyrirvara ... s.s. alger snilld í neyð!

Meira síðar.

Ummæli

Guðrún sagði…
hljómar vel!
Ég veit svosem ekki alveg hvað þú meinar með eplapæ en hér í Svíþjóð er endalaust borðaðar eplakökur í öllum formum, hels með vanillusósu ;)
Ég geri oft svokallaða "smulpaj" eða "mylsnuböku".
Þá sker maður eplin í þunnar sneiðar og raðar í bökuform. Síðan blanda ég höfrum, púðursykri, smjöri, kanil, kókos og hnetum eftir hentisemi (þarf alls ekkert að hafa allt þetta og í raun fer það algjörlega eftir því hvað í á í skápunum þann daginn hverju ég skelli útí. Mér finnst samt það þrennt fyrsta mikilvægast) og strái yfir. Set svo inn í ofn við góðan hita, kannski ca 180 gráður í ca halftíma eða þar til eplin eru orðin djúsí :)
Vestfirðingurinn sagði…
Takk fyrir kæra Guðrún :) Ég var einmitt að hugsa um að gera mylsnuböku í staðinn , en var svo runnin út á tíma ... Það sem ég ætlaði upprunalega að gera var svona "American Pie", geri aðra tilraun fljótlega, áður en eplin skemmast :)