Súkkulaðisilkibaka

Já, ég viðurkenni það - ég er með uppskriftabókafíkn á háu stigi og keypti mér 2 nýjar bækur í desember og það er eiginlega ein á leiðinni núna :-þ

Eeeen mér til varnar þá er ég, þökk sé þessu bloggi, mjög dugleg að nota þær og í ofanálag hafa báðar þessar nýju strax komið að góðu gagni.  Önnur þeirra er matar-alfræðiorðabók og kemur að góðum notum t.d. þegar maður á ekki eitthvað krydd eða annað slíkt og þarf að vita hvað hægt er að nota í staðinn ... hin heitir The Essential New York Times Cookbook og kom út í lok síðasta árs, en í henni eru teknar saman uppskriftir þær sem hafa birst í New York Times síðustu árin og áratugina.  Alger snilldarbók sem ég mæli með ef ykkur vantar e-a góða uppskriftabók eða góða gjöf fyrir uppskriftafanatíkus :-)  Verð samt að taka fram að hún er líklega ekki fyrir alla þar sem það eru engar myndir, en ég verð að viðurkenna að ég er eiginlega farin að vera hrifnari af slíkum uppskriftabókum heldur en hinum sem eru ekkert nema glansmyndir, þó mér finnist þær reyndar alveg frábærar líka :-)

Hvað um það, ég fékk það ábyrgðarmikla hlutverk að búa til eftirrétt fyrir gamlárskvöld, en þá safnast stórfjölskyldan saman heima hjá mömmu og pabba eftir brennu/fyrir skaup.  Vanillubakan (Cream pie) sem ég gerði í fyrsta tilraunaeldhúsinu hafði verið sérstaklega pöntuð, en ég stóðst auðvitað ekki freistinguna að prófa e-ð nýtt og ákvað þess vegna að gera líka aðra böku (enda veitir ekkert af fyrir fjölmenna fjölskyldu), í þetta skiptið úr fyrrnefndri New York Times uppskriftabók og heitir hún Súkkulaðiskilkibaka eða Chocolate Silk Pie.

Uppskriftin var eftirfarandi:
Botn:
3 dl súkkulaðikex (ég tók því sem svo að þetta væri svona LU-súkkulaðikex, og notaði þegar það var ekki til í Bónus, aðra tegund af LU-kexi sem var bragðbætt með kanil og kandís, enda bara hátíðarlegra)
75 ml sykur
7 msk smjör, brætt (ég setti liklega ca. 100 gr)

Fyllingin:
12 msk eða 180 gr smjör, mýkt
2 1/2 dl sykur
1 tsk vanilludropar
1 tsk koníak (ég setti auðvitað örlítið ... meira)
Ca. 115 gr suðusúkkulaði, brætt
3 stór egg

Setti 30 kexkökur í matvinnsluvélina og malaði ...
Setti svo sykur og brædda smjörið út í líka

Hellti blöndunni í formið 
(fyrir utan 1 dl sem er sett til hliðar til að nota síðar) 
og notaði hendurnar til að móta "deigið" í formið :-)  
Baka svo í ofni við 180°C í 8 mínútur.

Leyfa svo að kólna á meðan fyllingin er búin til!

Hræra saman smjör og sykur þangað til "létt og ljóst"

Bæta svo við vanilludropum og koníaki og blanda saman við

Bræða súkkulaðið (gerði það bara í örbylgjuofninum)

Hella súkkulaðinu út á deigið ...

Bæta svo eggjunum út í, eitt í einu og hræra á milli 

Nammi nammi namm!

Tók svo súkkulaðifyllinguna og 
dreifði vel úr henni ofan á botninn ...

Notaði svo formafganginn (desilíterinn sem var tekinn frá)
til að dreifa ofan á fyllinguna :-)

Það besta var að það var ekkert meira ofnvesen, 
bara skellt í kæli í (a.m.k.) 2 tíma

Virkilega góð baka og já, mæli alveg með henni við hvaða tækifæri sem er, enda mjög hentug að mörgu leiti, t.a.m. auðvelt og þægilegt að gera hana annað hvort daginn áður eða að morgni.  

Ekki skemmir hvað hún er bragðgóð :-)

En jæja, ætla nú að fara að minnka baksturinn í bili og fara að einbeita mér aftur að "mat" og í tilefni þess eldaði ég í kvöld nýjan rétt, cajun kjúklingapasta, en hann kemur inn síðar í vikunni.

Sem sagt ...
Meira síðar.

Ummæli

Rut sagði…
Eg fer klárlega á síðuna þína næst þegar ég held saumaklúbb eða einhvern hitting :D