Kanilkaka

Ég hafði beðið í nokkurn tíma með að prófa nýja kökuuppskrift sem ég fann um daginn.  Í dag var svo bæjarstjórnarfundur og fannst mér tilvalið að skella í kökuna og prófa hana :-)


Þegar ég hófst handa hélt ég að þetta væri alveg hrikalega einfalt og þægilegt, en það var líklega út af því að ég hafði ekki lesið leiðbeiningarnar almennilega og kom í ljós að lokum að ég þurfti að nota þrjár skálar í einu og svo eina skál til viðbótar, þannig að þetta var ööööörlítið meira vesen en ég hafði reiknað með í upphafi ... en ég vil meina að hún hafi bragðast svo vel að það hafi vel bætt upp fyrir vesenið!

Uppskriftin sem hljómaði svo einföld var:
Kakan sjálf
3 dl hveiti
1 1/2 tsk lyftiduft
2 dl grísk jógúrt
1 tsk matarsódi
115 gr smjör, mýkt
2 1/2 dl sykur
2 stór egg
2 tsk vanilludropar
75 ml ljós púðursykur
1 tsk kanill


Toppur
1 dl ljós púðursykur
1/2 dl sykur
1 1/2 - 2 tsk kanill
115 gr brætt smjör (láta kólna samt smá)
1 1/2 dl hveiti

En þá var það vesenið ...
Byrja á því í einni skál að blanda saman 
hveiti og lyftidufti

Í annarri skál blandaði ég saman jógúrt og matarsóda
og vanilludropunum

Nóg að nota bara gaffal í það :-)

Svo var smjörið sett í aðra skál og það þeytt saman 
með handþeytaranum, síðan var sykrinum bætt saman 
við og hrærður þangað til "létt og ljóst" eins og venjulega
og þá var eggjunum bætt út í einu í einu ... 
gaman að segja frá því að mér tókst að brjóta bæði 
egginn með einni hendi :-)

Svo var hveiti, jógúrt og aftur hveiti blandað saman við

Þannig varð til þetta líka fína deig!

Ég var svo með ferhyrnt form (ca. 23x23 cm) og 
setti fyrst helminginn af deiginu í botninn, dreifði
svo ljósum púðursykur yfir og svo kanil yfir það

Svo setti ég restina af deiginu ofan á og endurtók leikinn
með sykur og kanil, dreifði svo aðeins úr því með hníf

Þá var það toppurinn, blanda saman sykrunum ... 

og kanilnum ...

Hella svo bræddu smjörinu saman við og hræra vel

Svo var það bara hveitið sem bættist saman við þannig
að til varð hálfgert klessudeig

Sem ég setti svo ofan á deigið í forminu :-) 
Þá var lítið annað að gera en að skella þessu inn í ofninn
sem hafði fengið að hita sig upp í 180°C og þetta svo
bakað í 45-55 mínútur, eða þangað til tannstöngullinn
kemur temmilega hreinn út ...

Hér er hún svo tilbúin, nýkomin út úr ofninum.

Ég held það sé óhætt að segja að það hafi verið samhljóma álit bæjarstjórnar að kakan smakkaðist vel og var vel vesenisins virði og aldrei að vita nema ég geri hana aftur síðar, enda snilldargóð með rjóma og eðalkaka við hverskonar tækifæri.

Meira síðar.





Ummæli