Það hlaut að koma að því!

Í kvöld prófaði ég uppskrift og fannst útkoman bara svona "lala"!  Mikið er ég glöð :-)


Eins og ég hef áður nefnt þá hef ég haft nokkrar áhyggjur af því hvað allt hefur gengið vel.  Jú, vissulega hef ég klúðrað ýmsu, ég hef brennt sumt og já, ég hef óvart sett vitlaus innihaldsefni og já, einu sinni sprakk eldhúsið mitt í loft upp :-)

En upp á síðkastið þá hef ég haft verulegar áhyggjur að lenda á uppskrift sem mér líkaði ekki, og það fór ansi nærri því í kvöld!  

Þið kannist kannski við það að koma heim eftir langan og strangan dag og langa til að elda e-ð einfalt og þægilegt, og í mínu tilfelli langaði mig að elda e-ð sem ég gæti samt tekið með í hádegismat á morgun, þ.e. tekið afganginn með.  Þegar ég kom heim áðan þá datt mér í hug uppskrift að pasta sem mig hafði langað til að prófa, enda sérstaklega einföld sem sannaðist á því að ég var ca. 10 mínútur frá því að ég setti pastað í pottinn og þangað til ég var byrjuð að borða.

Uppskriftin var:
ca. 4 dl makkarónu-pasta
1 msk ólívuolía
1/2 rauðlaukur (ég notaði nú reyndar venjulegan lauk)
1 gul paprika
Smá jalapeno, skorið í bita
Hálft grænt chilli
Gular baunir
2-3 hvítlauksgeirar, skornir
Slatti af rifnum krydd havartí
2 msk smjör (gleymdi þessu, hefði líklega hjálpað)
Salt og pipar

Var ég búin að nefna hvað ég er orðin klár í að skera lauk?

Paprikan skorin í bita

Jalepeno-ið líka skorið í bita ...

sem og græna chillið og hvítlaukurinn :-)

Grænmetið tilbúið ... tók tæpar 5 mínútur ...

Þá var bara að setja allt grænmetið á heita pönnu og 
steikja í smá stund, eða þangað til grænmetið var orðið lint,

en á meðan reif ég ostinn :-)

Að lokum var einfaldlega að blanda saman þessu þrennu:
Makkarónum, steiktu grænmetinu og ostinum ...
ásamt smá salti og pipar auðvitað.

Sem sagt, 10 mínútum eftir að vinnan hófst var maturinn tilbúinn ... alger snilld að því leiti!  Þá kemur að vonbrigðunum.  Veit reyndar eiginlega ekki alveg hvað segja skal, þetta var auðvitað langt frá því að vera vont og gulu baunirnar gerðu ótrúlega mikið.  En einhvernveginn var þetta samt ekkert súperdúbergott, vantaði e-ð ... kannski var það smjörið sem ég gleymdi, kannski munar svona miklu um að nota ekki rauðlauk, en hvað sem því veldur þá var þetta bara svona "lala" eins og áður var nefnt, ekkert vont en samt ekkert ævintýri fyrir bragðlaukana :-)

Vonum að Marokkó tilraunin gangi betur á föstudaginn!

Meira síðar.

Ummæli