Eggjakökumuffins, sætar kartöfluflögur og að læra af mistökum

Það er fátt mikilvægara í lífinu en að gera mistök ... og læra af þeim :-)

Það sem meira er, eldhúsið er líklega einn af þeim stöðum þar sem nauðsynlegt er að gera regluleg mistök ... til að læra af þeim!  Þess vegna finnst mér eiginlega alveg nauðsynlegt að deila mistökum mínum í eldhúsinu með ykkur líka, ekki bara því sem er geggjað gott og sniðugt :-)

Vegna þessa ætla ég að byrja á að deila með ykkur smá mistökum sem ég gerði í gær.  Ég rakst á virkilega spennandi uppskrift að sætum kartöfluflögum.  Þarna komu saman sætar kartöflur (sem eru bæði góðar og hrikalega hollar) og sum af uppáhaldskryddunum mínum (chilli, hvítlaukur, salt, cumin, svartur pipar ...) og auðvitað varð ég að taka slíkri áskörun og prófa!

Innihaldsefnin voru eftirfarandi:
Sæt kartafla, skorin í þunnar sneiðar
Smá chilli duft (ég notaði 3 þurrkaða chilli)
Smá hvítlaukssalt
Smá paprikuduft
Smá cumin duft
Smá salt
Smá pipar
Smá matarolía (ca. 25 ml)

Kryddið og olían komin saman í skál

Hrært saman

Sæta kartaflan skræld og skorin í tvennt ...

og svo skorin í þunnar sneiðar

Sneiðarnar eru svo settar í skálina og hrært ...

þannig að kryddið dreifist á kartöflurnar

Lítur vel út er það ekki? :-)

Hér komum við svo að mistökum dagsins ... ég setti olíu
á plötuna sem ég raðaði kartöflunum á og já, það var
ekki beint gáfulegt ... eiginlega bara ekki neitt gáfulegt,
enda þornuðu kartöflurnar ekki heldur voru bara 
olíukenndar og "hallærislegar" ...

Hins vegar er stór kostur við mistök í eldhúsinu, það er nánast ómögulegt að gera mat þannig að hann bragðist ekki vel, a.m.k. meðan maður er ekki að raða saman e-m furðulegum bragðefnum og eða að nota lélegt hráefni :-)  Kartöflurnar smökkuðust því ágætlega, þó að áferðin hafi nú ekki verið eins og hún átti að vera ;-)

Það voru þó ekki bara mistök sem ég bakaði í gær!  Haldandi í þá ætlun mína að taka alltaf með mér heimalagaðan hádegismat í vinnuna þá hef ég verið alveg sérstaklega dugleg að fylgjast með sniðugum uppskriftum sem henta vel í hádegismat.  Ég rakst á eina slíka í gær þar sem notað var muffinsform til að búa til eggjakökur.  Ég átti egg, ég átti e-ð smotterí af grænmeti í ísskápnum og ákvað að drífa í að prófa þetta!  

Það sem ég notaði í þetta skiptið var:
8 egg
Sveppir
Græn paprika
Blaðlaukur
Rauðlaukur
Ferskur chillipipar
Ólífur
Fetaostur
Ostur
Vatn
Paprikuduft
Salt
Pipar

Ég byrjaði á því að skera allt grænmetið smátt

Skellti eggjunum í skál 

Sló þau svo saman með paprikudufti og 50 ml af vatni

Hellti svo grænmetinu út í ...

og fetaostinum ...

Mundi þá skyndilega eftir ólífunum og skar þær í bita ...

og reif niður smá bút af brauðosti 

Hér er eggjablandan með ólívunum út í, en osturinn 
er geymdur og settur sér í formið

Ég byrjaði á því að setja skeið af eggjagrænmetisblöndu
í formið, setti svo rifinn ost yfir ...

setti svo eggjablöndu ofan á ostinn, jammí jamm :-)

Svo skellti ég þessu inn í 180°C heitan ofn og
bakaði í ca. 20-30 mínútur

Lítur hrikalega vel út ekki satt?

Enda var þetta alger snilld í hádeginu í dag með
smá sýrðum rjóma og djúpsteiktum kartöflubuffum
frá Dóru Hlín og Hálfdáni Bjarka :-)

Nammi namm, mesta snilldin er auðvitað að hægt er að nota hvaða grænmeti eða kjöt sem er með þessu, alveg eins og í venjulegum eggjakökum, en eiginlega er meiri snilld hvað þetta er allt meðfærilegt og t.d. þægilegt að henda 2-3 stykkjum í poka og í frysti og þá er alltaf til góður morgunmatur eða hádegismatur sem auðvelt er að grípa með og einfaldlega hita upp í örbylgjunni.  Þessi grænmetisblanda kom virkilega vel út og var virkilega bragðgóð.  Ég var heillengi að velta fyrir mér að setja beikon líka, en er nú fegin að hafa ekki gert það enda eru ólívurnar og fetaosturinn sölt, og líklega hefði það verið alltof salt að hafa beikon líka!  Hins vegar er ekki spurning að ég mun prófa það fljótlega að setja t.a.m. beikon í staðinn fyrir ólífur og svo datt mér í hug að það væri örugglega mjög gott að skera sæta kartöflu í litla bita og og og ... já, þessi uppskrift bíður svo sannarlega upp á að ímyndunaraflið sé notað!

Meira síðar.

Ummæli