Tilraunaeldhúsið - Aðventufundurinn

Best að byrja á að vera við því að þetta verður langt blogg! :-)

Tilefni þessa tilraunaeldhúss var jólafundur Umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar sem haldinn var í morgun.  Skemmtileg hefð hefur verið undanfarin ár að einn nefndarmanna bjóði nefndinni heim í morgunmat á síðasta fundi fyrir jól og þar sem ný nefnd tók til starfa á árinu var eðlilegt að formaður byði fyrstur heim. Eins og þið vitið lesendur góðir þá hef ég auðvitað gaman af því að elda og stóðst auðvitað ekki freistinguna að nýta þetta tækifæri í tilraunaeldhúsið.

Við vorum 9 á fundinum og eftir mikla yfirlegu þá ákvað ég að bjóða upp á brauðbollur og álegg, sveppa/lauk/beikon quiche, jólalurk og svo beikon ídýfu til að hafa með brauðbollunum.  Allt reyndist þetta smakkast mjög vel og var eiginlega virkilega gaman að búa þetta allt saman til, þó það hefi tekið stóran hluta gærdagsins að klára þetta allt saman :-)

Ef við byrjum á þessu einfaldasta ...

Brauðbollur (Astor house rolls)
Brauðbollurnar reyndust virkilega góðar, svo góðar raunar að þær verða algerlega í staðinn fyrir hinar bollurnar á jólunum.  Það var líka tiltölulega einfalt að gera þær, þó það hafi alveg tekið smá tíma, en þær þurfa að hefast 3 sinnum.

Uppskriftin er mjög einföld:
1 pakki þurrger (ég setti bara góðan slatta, líklega e-m 3-4 tsk
1 dl volgt vatn
U.þ.b. 12 dl hveiti
4 tsk salt
1 msk sykur
3 msk smjör, mýkt
4 dl nýmjólk (hituð og kæld niður í volgt) - ég sleppti því að hita hana ... en hún var borðheit
7 msk + 1 tsk kalt smjör

Bakað í 16 mín við 220°c

Deigið tilbúið fyrir fyrstu hefingu ...

Svona leit það út eftir fyrstu hefingu, þá var að slá
það niður og hnoða svolítið vel ...

Hér er það eftir aðra hefingu :-)

Eftir aðra hefingu hnoðaði ég það létt og skipti svo í 
kúlur, deigið á að gefa 22 bollur, en ég náði nú bara í 19

Svo tók ég hverja kúlu og flatti aðeins út ...

Setti tsk af köldu smjöri í miðjuna ...

Mótaði svo kúlu að nýju með smjörið í miðjunni,
passið að klípa vel samskeytin saman

Hér eru þær tilbúnar í þriðju hefingu ... setti bara
hreint þurrkustykki yfir ...

Fallegar ekki satt, klst síðar :-)

enn fallegri eftir bakstur í 16 mín  :-)

Tilbúnar til áts!

Þessar bollur komu mér skemmtilega á óvart, virkilega góðar - léttar og skemmtilegar - og það besta var að það var ekki hörð skorpa, sem er e-ð sem ég dýrka í brauði :-)  Þær smökkuðust mjög vel með ýmsu áleggi og svo eru þær eflaust fullkomnar með súpunni á aðfangadagskvöld!

Quiche 
Botninn
2 dl + 2 msk hveiti
1/2 tsk salt
8 msk kalt smjör (113 gr), skorið í ca 8 bita
3 msk ísvatn (ég nota nú bara ískalt vatn úr krananum)

Blandað og hnoðað, sett inn í ískáp í 30 mín

Bakað við 220°c
fyrst í 12 mín með álpappír og þyngingu
svo í 10 mín

Fyllingin
1 msk ólívuolía
1 laukur, saxaður
Slatti af sveppum
slatti af beikoni (ca 200 gr)
6 egg
4 dl mjólk
Salt
Pupar
1/4 tsk worchester sósa
1 dl ostur rifinn

Bakað í 40-45 mín við 180°c.

Hveiti og smjör ...

Hrært saman þangað til það lítur út eins og kornmjöl :-)

Hnoðað svo saman með ískölduvatni 
þangað til það lítur svona út

Svo er þynging sett í botninn (álpappír undir),
ákvað að nota bara poppbaunir aftur, gekk svo vel síðast :-)

Laukur og sveppir skorin í bita ...

Beikonið skorið í bita ... 

Egg og mjólk, krydd og allt það ...

Steiktir sveppir og laukur - bætt út í

Beikonið komið út í líka ...

Svo er blöndunni bara hellt út í formið og skellt inn í ofninn
Lítur vel út ekki satt? :-)

Þetta smakkaðist frábærlega vel og er tilvalið í morgunmat og brunch og annað slíkt, enda hægt að gera þetta daginn áður og henda bara inn í ofninn rétt áður en gestirnir koma til að hita upp, gæti ekki verið betra!

Jólalurkurinn
Þá er það stóra verkefnið ... Þetta var heilmikil áskorun, en virkilega skemmtileg áskorun líka, kakan var gerð í nokkrum skrefum :-)

Marengs
3 eggjahvítur
170 gr flórsykur

Bakað við 120°C í 1 klst. Slökkva þá á og opna ofninn og leyfa marengsinum að kólna í ofninum með hurðina hálfopna.

Fyrst að þeyta eggjahvíturnar ... 

Þeyta, þeyta, þeyta ...

Þeyta með sykri þangað til orðið stíft og fallegt :-)

Notaði svo sprautupoka til að búa til sveppahatta ...
var auðvitað með alltof mikinn marengs, þannig að ég
gerði marengstoppa líka :-) Svo notaði ég mjórri
gaur til að búa til svona litla sveppafætur 

Allt kom þetta svona líka vel út úr ofninum :-)

Svo notaði ég kremið til að búa til sveppi, litu enn betur
út þegar þeir voru komnir á kökuna, sjá fyri rneðan.

Þá var það svampbotninn ...


Svampbotn
Deig-grunnnur
3 eggjarauður
1 dl sykur
1 1/2 tsk vanilludropar

Eggjahvítur
3 eggjahvítur
Smá salt
1/4 tsk cream of tartar
1 1/2 msk sykur í viðbót

Svo ...
9 msk hveiti (sigtað)
3 msk bráðið smjör.

Baka við 375°c í 10 mín í 27x43 cm formi.

Öll innihaldsefnin tilbúin (þetta þarf að vinnast hratt)

Þeyta eggjarauðurnar og sykurinn ...
og vanilludropar svo

Þeyta eggjahvíturnar ...

Bæta smá cream of tartar út í og örlitlu salti

Eggjahvíturnar orðnar að ljóni ...

Stífþeyttar og flottar :-)

Flott ekki satt?

Svo er að setja setja 1/4 af eggjahvítunum út í eggjarauðurnar, 


bæta svo 1/3 af eggjahvítunum ofan á og 3 msk hveiti, 
endurtaka þangað til allt er komið ...

 


og að lokum er smjörinu bætt við.  


Þá er bara að passa að ofþeyta ekki deigið! :-)
Formið tilbúið :-)

Deigið komið í formið ... lítur vel út ekki satt?

svo voilá! 

Þá byrjaði vesenið ... skella pappír og 
röku og hreinu þurrkustykki
ofan á kökuna meðan hún er enn í forminu 

Svo er kökunni skellt á hvolf til að losa hana úr forminu

Svo er bökunarpappírinn dreginn af ...

Þetta var í fyrsta skipti sem ég bakaði svampbotn,
verð að viðurkenna að ég var alveg pinku stolt af hvernig til tókst :-)

Svo stráði ég flórsykri yfir ...

og rúllaði kökunni svo upp :-)

Að lokum, til að svampbotninn þorni ekki 
á meðan verið er að gera kremið þá vafði ég upprúlluðum
botninum inn í rakt þurrkustykkið og setti inn í plastpoka.


Fyllingin og kremið
Þá var ekkert annað en að drífa í að gera fyllinguna og kremið.  Ég verð að viðurkenna að ég var pinku tvístígandi, því ég var með tvær uppskriftir fyrir þessa köku og önnur notaði smjörkrem á meðan þessi sem ég endaði á var með marengssúkkulaði kremi.  Ég ákvað að þar sem þetta væri jú tilraunaeldhús, þá ætti ég frekar að gera það krem sem ég hefði ekki prófað áður.  Viti menn, kremið kom mér auðvitað skemmtilega á óvart, þó mér þyki smjörkremið reyndar alltaf gott ... :-)

Ítalskur marengs
4 eggjahvítur
smá salt
1/4 tsk cream of tartar

sykursýróp
2 1/2 dl sykur
1 dl vatn
Soðið saman


Þeyta eggjahvítur og láta svo sykursýrópið smátt og smátt út í (eins gott að vera handleggjasterkur)

Bræða 250-300 gr suðusúkkulaði með 1/2 dl sterku kaffi, hella út í marengsinn og blanda við ...

Kaffi, súkkulaði og svo stóðst ég ekki freistinguna 
og setti smá konnjakk :-)

Brætt saman í potti við vægan hita 

Sykur og vatn léttsoðið saman í potti

Enn einn ljónamarengsinn :-)

Bræddu súkkulaðinu blandað saman við

Rjóminn þeyttur

4 dl af rjóma blandað við 4 dl af súkkulaðimarengsinum
Setja restina af súkkulaðimarengsinum inn í ískáp á meðan

Jummí, jummí :-)

Kremið svo sett á útrúllaðan botninn 

Svo notar maður þurrkustykkið til að hjálpa 
við að rúlla þessu upp

Heppnaðist svona vel út :-)

Svo tekur maður restina af súkkulaðimarengsinum 
og bætir við kakói ...

og meira kakói þangað til úr verður sæmilega þykkt krem

Svo er bara að setja kremið á ...

Nammi nammi namm :-)
Notaði svo gaffal til að búa til rendur í kremið

Svo var bara að skella sveppunum á ... :-)Lúkkar vel ekki satt? :-) 
Smakkaðist líka vel!

Beikon ídýfa
Að lokum er það beikonídýfan, hrikalega góð og einföld, tilvalin fyrir saumaklúbbinn og partýin!

6 sneiðar beikon, skorið í bita
ca. 250 gr rjómaostur
2 dl rifinn ostur
1 tsk Worcestershire sósa
1/2 tsk piparrót
75 ml sýrður rjómi (ég notaði eina litla dós til að einfalda málið)
2 laukar, saxaðir

Rifinn ostur og rjómaostur ...

Sýrður rjómi, Worchestersósa, já, allt saman sett saman 
í skál og þeytt saman :-)

Lúkkar svona út í framhaldinu ...

Þá blandar maður lauknum saman við ...

og svo beikoninu og úr verður ótrúlega góð ídýfa,
sem best er að setja inn í ískáp c.a. 1 klst,
taka svo út rétt áður en fólkið kemur, en þannig
kemur besta bragðið.  

En það besta er að það er mjög einfalt mál að gera þetta daginn áður, því ídýfan verður bara betri við að bíða aðeins :-)

Vona að þið njótið vel.

Meira síðar.

Ummæli

Dóra Hlín sagði…
Þetta er svo fáránlega flott að maður veit varla hvort það sé þess virði að fara að fá sér morgunmat (ABmjólk og múslí eða eitthvað álíka hversdagslegt). Þessi jólalurkur er þvílíkt flottur - og myndirnar þínar koma vel út.
Nafnlaus sagði…
á að setja 1 tsk af smjöri í hverja bollu?
Nafnlaus sagði…
hehe,á að hefa deigið(Brauðbollur (Astor house rolls) í 1 klukkutíma í hvert skipti?
Vestfirðingurinn sagði…
Jább, ein tsk í hverja bollu - ég var nú samt ekkert rosalega nákvæm með það. Deigið þarf já að hefast í 1 klst í hvert skipti, heill hellingur sem sagt :)
Nafnlaus sagði…
en ég ætla að gera stærri bollur semsagt 4 bollur úr öllu deiginu helduru að ég þurfi að baka bollurnar lengur?
Nafnlaus sagði…
eru þessar bollur með þykkum botni/vatnsheldum?
Vestfirðingurinn sagði…
Þú þarft örugglega að baka þær þá eitthvað lengur, bara fylgjast vel með þeim í ofninum :) hvort þær eru vatnsheldar er ég ekki viss um, finnst það ekki ótrúlegt að þær gætu gengið - láttu mig endilega vita hvernig gengur :)
Nafnlaus sagði…
ég bakaði bollurnar og allt gekk vel,ekki búinn að smakka þær en ætla að skera ofan af þeim og taka innan úr þeim og setja hakk og spaghettí í þær,,þori ekki alveg að setja súpu,þær eru ekki nógu þykkar í botninum :)
Nafnlaus sagði…
bakaði þær í c.a 22 mín 200°c
Vestfirðingurinn sagði…
Nammi namm, hljómar vel :)
Nafnlaus sagði…
ekki besta mynd í heimi en allavega mynd

http://i52.tinypic.com/288mh04.jpg
Nafnlaus sagði…
má ég fá þessa uppskrift lánaða á aðra síðu? ég skal láta það koma fram að hún hafi verið tekin af þessari síðu :-)
Vestfirðingurinn sagði…
Minnsta málið ef þú vísar hingað :)
Nafnlaus sagði…
ok takk :) en er þessi uppskrifft ekki líka fín í hamborgarabrauð/pítubrauð?
Vestfirðingurinn sagði…
Gæti alveg gengið - en þessi: http://vestfirdingurinn.blogspot.com/2011/05/mijararhafs-hamborgarar-og-heilhveiti.html er mikið betri :)
Nafnlaus sagði…
tekuru á móti uppskriftum? :D
Nafnlaus sagði…
er að baka bollurnar og það er komin einhver sterk gerjunarlykt af þeim :S