Mini-tilraunaeldhús - Jólasmákökur 1

Jæja, það er löngu kominn tími á nýtt tilraunaeldhús, en í sannleika sagt þá er ég búin að vera að baka svo margt í "felum" að é ghef ekki getað birt það hér :-)  Þau ykkar sem hafa séð aðventublaðið geta séð ýmislegt þar, en svo er annað "leyndó" í gangi sem ég lofa að birta strax á sunnudaginn.

En þangað til ... hér eru kökurnar sem voru birtar í aðventublaðinu og aðferðin við þær.  Ég verð að viðurkenna að ég lenti í smávægilegum vandræðum með þær, og gleymdi meira að segja að taka myndir af brauðgerðinni, eða finn þær a.m.k. ekki - en ég mun gera brauðið aftur síðar og hendi þá uppskriftinni og myndum inn :-)

Annað sem ég verð að viðurkenna og mæla með, ekki baka fjórar tegundir í einu - það veldur bara vandræðum! En þetta hafðist þó og hér má sjá árangurinn, sem var nú a.m.k. býsna bragðgóður.

Ég byrjaði á að hnoða í sykurkökur með steindu gleri, kvöldið áður.

Nammi nammi smjör, nauðsynlegt í jólabaksturinn ...

 Sykur og flórsykur hrært saman við smjörið ...

Eggjarauðum og vanilludropum bætt út í
og hrært saman við ...

Hveitinu svo hrært saman við

Tók svo deigið úr hrærivélinni og hnoðaði örlítið
í höndum - eða þar til þetta leit svona út ...
Skellti svo deiginu í kæli yfir nóttu.

Daginn eftir byrjaði ég á að búa til púðursykurhnappana, mjög skemmtilegar kökur að gera :-)

Byrjaði á því að blanda saman smöri, sykrunum,
vanillu og salti saman með gafli ... 
bætti svo hveitinu við, smátt og smátt ...
mæli með því að tala ekki í símann 
á meðan þessu stendur, því ...

Svona leit deigið út ... rúllað upp ...

Mjög flott ekki satt, skorið í ca. 2 cm bita ...

Mótar bitana aðeins með puttunum 
og setur á bökunarpappír ...

 ... og svona á þetta ekki að líta út! :-)
En þetta er það sem gerist þegar verið er að
tala í símann á meðan bakað er ...
Tókst að gleyma 1 dl hveiti og, hugsanlega, 
stillti ofninn aaaðeins of heitt, ca. 30°c of heitur 
En úr varð þessi rosa góða karamella, 
virkilega góð með nýlöguðu kaffi :-)

En svona heppnaðist þetta í annarri tilraun, 
sætir hnappar sem raunar eru holir að innan.

Síðan er kremi skellt á - enn meiri sykur :-)

Á meðan púðursykurhnapparnir voru að kólna
þá braut ég niður brjóstsykur til að búa til steint gler ...

Tók deigið út úr kælinu, flatti það út eins og piparkökur
notaði glas til að skera út kökur og notaði svo tappa
af gosflösku til að búa til gat í miðjuna.
Kökunum er svo skellt inn í ofninn og þær bakaðar
í 6-8 mínútur, þá teknar út og brjóstsykri dreift í gatið

Kökurnar eru svo settar inn aftur í u.þ.b. 2-5 mínútur
og þegar þær kólna þá líta þær svona út.
Mæli með því að fylgjast mjög vel með kökunum 
þessar 2-5 mínútur, því það þarf lítið til að brjóststykurinn
fari að sjóða og þá verður steinda glerið ekki fallegt :-)

Uppskriftirnar eru eftirfarandi:
Sykurkökur með steindu gleri
226 gr smjör
1 dl sykur
1 1/2 dl flórsykur
2 eggjarauður
1 tsk vanilludropar
1 tsk appelsínubörkur
4 1/2 dl hveiti
1/4 tsk salt

Brjóstsykur að eigin vali.

Púðursykurhnappar
113 gr smjör, mjúkt
2 dl flórsykur
1 dl púðursykur
1/2 tsk vanilludropar
smá salt
2 dl hveiti

Kremið
4 dl flórsykur
2 msk brætt smjör
1 tsk vanilludropar
1 msk sýróp
1 tsk rjómi

Mjög góðar og skemmtilegar kökur í framkvæmd - mæli með þeim :-)

Verð svo að enda á einni gamalli og góðri, ein af þeim sem ég geri fyrir hver jól - trompkökur, en þetta er uppskrift sem ég fékk hjá Sillu fyrir mörgum árum.  Þetta eru ótrúlega þægilegar og virkilega góðar kökur, þær eru alveg fáránlega einfaldar og fljótlegar í ofanálag.

Trompkökur
200 gr púðursykur
3 eggjahvítur
10 lítil tromp (eða 4,5 stórt)
150 gr rjómasúkkulaði (saxað/skorið í bita) - ég nota reyndar alltaf suðusúkkulaði :-)

Trompið og súkkulaðið skorið í litla bita ...

Púðursykurinn veginn ...

... og komið fyrir í skál ásamt eggjahvítunum þremur ...

Sykurinn og eggin þeytt saman ...

... og þeytt meira ...

Alveg þangað til þetta er orðið stífþeytt 

Þá er trompinu og súkkulaðinu blandað saman við ...

... og lítur þá að lokum svona út ...

Nota svo matskeið til að setja litlar 
kökur á bökunarpappír

Þessu er svo skellt inn í ofninn og bakað 
í 14 mínútur við 140°C.

Já, þetta er skemmtileg tíð fyrir eldhúsáhugamenn.  Ég er nú þegar búin að baka 3 tegundir í viðbót, en set þær inn á sunnudaginn.  Svo er aldrei að vita nema að það bætist meira við þegar nær dregur jólum, enda var ég að bæta tveimur jólauppskriftabóku í safnið :-)

Meira síðar.

Ummæli

Hrefna sagði…
Hæ! Gerirðu gat alveg í gegnum kökurnar fyrir "glerið"? Og svo bara svolítil hrúga af muldum brjóstsykri í? Er að hugsa um að prófa :)
Vestfirðingurinn sagði…
Hellú, já gerir bara alveg holu í gegn, þannig að þetta verði einskonar dekk eða krans (fer auðvitað eftir forminu sem þú notar) og setur brjóstsykurbrot í gatið :)
Vestfirðingurinn sagði…
Hér er dæmi um hvernig þetta getur litið öðruvísi út: http://www.bbc.co.uk/food/recipes/stainedglasswindowbi_87505
Hrefna sagði…
Sniðugt :) Takk!
Læt þig vita hvernig til tekst...