Mini-tilraunaeldhús - Fleiri jólasmákökur (Biscotti, spíralakökur og súkkulaðiplötur)

Já, ég er að sjálfsögðu búin að baka fleiri sortir en þessar þrjár sem ég setti inn í gær.  Ég gat þó því miður ekki birt þær í gær þar sem ég hafði notað þessar þrjár í leynivinagjöf í vinnunni, og það má auðvitað ekki koma upp um leynivininn :-)

Ég byrjaði á að gera biscotti í fyrsta skipti.  Biscotti er ítalskt kex sem er alveg sérstaklega gott með góðu kaffi.

Ég hafði smá áhyggjur af því að þetta yrði vesen í framkvæmd, en þetta kom svo barasta skemmtilega á óvart :-)

Uppskriftin var svo sem nógu einföld:
6 dl hveiti + meira til að hnoða
2 dl sykur
2 tsk lyftiduft
1/2 tsk salt
2 msk appelsínubörkur (ca. 2 appelsínur)
3 stór egg + 1 stór eggjarauða
1/2 dl ólívuolía (extra-virgin)
1 poki möndlur (eiga að vera 1 1/2 dl saxaðar valhnetur en ég átti bara möndlur þannig að ég notaði  
  þær bara)

1 dl/1 poki þurrkuð trönuber


Aðferðin reyndist svo vera nokkuð þægileg sömuleiðis.

Ég byrjaði á því að stilla ofninn á 180°c.

Svo braut ég eggin, sem er auðvitað skemmtilegasti hlutinn
Bætti svo saman við ólívuolíunni

Þetta var svo þeytt saman með gaffli ...

Í annarri skál hrærði ég saman hveiti, sykri, lyftidufti, salti ...

og appelsínuberkinum ...

þessu blandað saman ...

Eggjablöndunni svo blandað saman við 
... bætti svo bara við hveiti ...

Þangað til þetta leit svona út 
(þarna er ég líka búin að hnoða saman við möndlum 
og trönuberjum, sem gert er undir lokin).

Deiginu var svo skipt í tvennt og myndaðir tveir "lurkar"

Líta vel út ekki satt? 

Þeir eru svo settir í heitan ofninn í ca. 30-35 mín og
eru þá teknir út og leyft að kólna í ca. 15 mín.

Eftir 15 mín eru lurkarnir skornir með brauðhníf 
í ca. 1-2 cm sneiðar sem lagðar eru á ofnskúffu ...
Hitinn á ofninum er lækkaður í 160°c

og biscotti-ið sett inn í ca. 40-45 mínútur.  
Þá er það sett á grind og leyft að kólna algerlega.

Biscotti-ið reyndist líka nokkuð gott, mæli með því - skemmtileg tilbreyting líka frá öllum sætindunum!

Þá eru það spíralakökurnar furðulegu.  

Þegar ég sá þessa uppskrift og mynd af kökunum þá einfaldlega vissi ég að ég yrði að prófa að gera þær :-)

Líta spennandi út ekki satt? 
Það var líka hrikalega gaman að gera þær :-)

Uppskriftin er mjög einföld og þægileg:
340 gr mýkt smjör
3 1/2 dl sykur
2 stór egg + 1 eggjahvíta til að bursta með
1/2 tsk salt
1 1/2 dl mjólk
1 msk vanilludropar
10 dl hveiti

Kakóduft
Matarlitir

Já, eins og sjá má á fjölda mynda þá var virkilega gaman að gera þessar kökur, svo eru þær líka svo flottar!

Byrjaði á því að þeyta saman smjör og sykur

(létt og ljóst)

Eggjunum svo bætt út í ásamt saltinu ...

Mjólkinni og vanilludropunum svo bætt við ...

og svo hveitinu :-)

Hnoðaði í höndum síðasta spölinn,
 þurfti e-a hluta vegna að bæta við fullt af hveiti,
en mig grunar að það hafi verið vegna þess að 
ég mældi eiginlega ekki smjörið, heldur giskaði bara ...
En held þær hafi ekkert orðið verri fyrir vikið :-)

Skipti svo deiginu upp í fjóra búta

Hnoðaði svo gulum, bláaum og grænum matarlit við þrjá búta
og kakói við fjórða bútinn.  Hefði gjarnan viljað eiga
rauðan matarlit líka, en hafði klárað þann lit í
rauðu flauelskökuna um daginn :-)

Lítur vel út ekki satt?? :-)
Bútarnir fóru svo allir í plastpoka og inn í ískáp í sólahring

Daginn eftir hófst svo fjörið :-)
Til að búa til "skotmark" bjó ég til eina þykka lengju, 
tók svo tvo aðra liti og flatti út og vafði utan um, 
fyrst einn lit og svo hinn litinn.

Bjó líka til spírala, mjög einfalt mál
Fletur út tvo mismunandi liti, setur aðra "plötuna" ofan á hina
rúllar þeim upp og skerð í bita

Til að mismunandi litir blandist ekki saman þá notaði ég
girni til að skera bútana í staðinn fyrir hníf

Nammi nammi namm :-)

Hér má sjá þrefaldan spíral

Það er ágætt að kæla rúllurnar á milli þess sem 
maður setur mismunandi liti saman ...
líka gott að setja smá eggjahvítu á milli laganna

Svo flatti ég þá bara örlítið út með puttunum,
skellti á ofnplötu og bakaði við 180°c í 12-15 mínútur

Hér er "skotmarks"-rúlla :-)


Fallegur spírall :-)


Það er bara e-ð við svona litaðar kökur sem gerir þær 
skemmtilegt myndefni :-)


Hér eru þær svo bakaðar og fallegar :-)



Bara góðar með góðu kaffi :-)

Þá að lokum, og auðvitað það besta - a.m.k. fyrir súkkulaðiunnendur!

Það er nú þannig að ég er orðinn það mikill matreiðsluaðdáandi að ég er áskrifandi að matreiðslublaði (Food network magazine) og í nýjasta tölublaðinu er virkilega skemmtileg uppskrift að heimagerðum súkkulaðiplötum.

Það skemmtilegasta við þessa uppskrift er að það eina sem takmarkar hana er ímyndunaraflið!

Súkkulaði (ca 500 gr)
- Hvaða súkkulaði sem þér dettur í hug:
Hvítt
Dökkt
Rjómasúkkulaði
Hjúpsúkkulaði
Suðusúkkulaði ...

Ofan-á
- Hvað sem þér dettur í hug, hnetur, brjóstsykur, þurrkaðir ávextir, krydd ... t.d.:
Möndlur - Valhnetur - Pekanhnetur - Salthnetur - Pistasíuhnetur - Kashew-hnetur - Furuhnetur - Piparmyntubrjóstsykur - Karamellubitar - Kókosflögur - Þurrkaðir bananar
Þurrkaðar fígjur - Þurrkaðar apríkósur - Þurrkuð kirsuber - Þurrkuð trönuber - Þurrkuð mangó - rúsínu - Mini sykurpúðar - sykraður appelsínubörkur - sykrað engifer
Rauður pipar - Sjávarsalt - Kardimommur - Fennelfræ - o.s.frv.

Aðferðin er svo fáránlega auðveld ...

Í þetta skiptið notaði ég hvíta súkkulaðidropa ...

og ljósa hjúpsúkkulaðidropa ...

Skellti þeim í sitthvoru lagi inn í örbylgjuofn í 
3 mínútur í hvert skipti, 
hrærði á milli ...

Þangað til þetta leit svona út :-)

Þá hellti ég úr skálunum á bökunarpappír sem ég hafði tilbúinn

Notaði svo sleikjuna til að blanda þessu svolítið saman

algert listaverk ekki satt? :-)

Í þetta skiptið ákvað ég svo að nota piparmyntubrjóstsykur

og saxaðar möndlur ...

Dreifði þessu óskipulega yfir, en reyndi að dreifa sem víðast

Geymdi svo á köldum stað yfir nótt (ca. 1 klst er nóg)

Braut svo í passlega bita - en þetta geymist í lokuðu boxi
í ca. 1-2 vikur - mæli með köldum stað :-)

Verði ykkur að góðu og meira síðar.






Ummæli

ErlaHlyns sagði…
Snillingur sem þú ert
Vestfirðingurinn sagði…
Takk Erla :) Takk líka fyrir að kommenta, held stundum að enginn skoði þetta hjá mér :)
Sigga G sagði…
Hæ! Ég skoða og segi namm.... :)
Unknown sagði…
skoða alltaf og slefa! Girnilegt hjá þér alltaf hreint:)
Vestfirðingurinn sagði…
Jei, takk fyrir það stelpur :)
Dóra Hlín sagði…
Namm namm, þetta er sko bæði flott og GOTT. Ekta svona jólastúss, ég er að hugsa um að panta hjá þér tíma í þessari eða næstu viku og við getum gert eitthvað svona saman, hvernig líst þér á?
Vestfirðingurinn sagði…
Dóra Hlín, ég er alltaf til :) (nema reyndar á fimmtudaginn þar sem það er víst bæjarstjórnarfundur þá), annars, anytime :)
Hrefna sagði…
Ég skoða líka! Og kommenteraðiáðan á síðustu svona ef þú skyldir ekki gá á þessar gömlu... :)