Jólahugvekja - flutt þegar kveikt var á jólatrénu á Ísafirði 4.12.2010

Það er mér mikill heiður að fá að koma hér upp og flytja stutta hugvekju áður en við einhendum okkur í að kveikja á aðalatriði dagsins, sem er auðvitað jólatréð okkar allra.

Jólin eru að ganga í garð enn á ný.  Með gjöfum og veislum, með borðum og greinum, með gleði og tónlist höldum við upp á komandi hátíð, hátíð ljóss og friðar á árstíma myrkurs og kulda. 



Það hefur sjaldan verið jafn mikilvægt að muna að trú, von og kærleik er ekki hægt að kaupa né selja, heldur aðeins hægt að gefa. Þessar gjafir eru án verðs og skrauts, því aðeins er hægt að finna þær innra með sér og þær eru því einstakar. Það er ekki alltaf auðvelt að finna þessar gjafir, en þær eru þó til í ótakmörkuðu magni um allan heim.  Á þessar þrjár gjafir erum við minnt í jólaguðspjallinu og við eigum að taka þær okkur til fyrirmyndar.  Jólaguðspjallið já, saga sem er eins falleg og hún er einföld og það er alveg sama hverrar trúar við erum, öll skiljum við þau skilaboð fyrirgefningar, vonar og umhyggju sem jólaguðspjallið sendir okkur.

Notum jólin til að sættast við óvini okkar, leitum uppi gleymda vini, gleymum tortryggni og öfund. Treystum. Skrifum ástarbréf, deilum fjársjóðum, svörum blíðlega, fögnum börnunum, sýnum hollustu í orðum og gjörðum. Höldum loforð okkar, gefum okkur tíma. Hlustum og reynum að skilja, verum þakklát. Hlæjum aðeins – hlæjum mikið. Stöndum upp gegn óréttlæti. Tjáum þakklæti. Tökum vel á móti ókunnugum. Þökkum fyrir fegurðina og ástúðina sem býr í hjörtum okkar allra. Tjáum ást okkar. 

Þetta er aðeins brotabrot af því sem hægt er að gera um jólin og allan ársins hring. Þetta eru einfaldir hlutir sem við höfum öll gert áður, en áhrif þeirra eru aldrei jafn mikil og um jólin. 
Ég hvet ykkur til að taka frá tíma um jólin til að setjast niður með sjálfum ykkur og fjölskyldunni. Sitjið með kertaljós, slökkvið á símunum, sjónvörpunum og tölvunum, njótið þess að vera saman og hugleiðið merkingu jólanna. Þannig getum við fundið sanna merkingu þeirra og geymt hana í hjörtum okkar allt árið um kring. 

En nú erum við einmitt komin saman til að gleðjast og fagna aðventunni, og hver veit nema jólasveinarnir séu rétt handan við hornið. En fyrst snúum við okkur að stærsta atriðinu sem er að kveikja á þessu glæsilega jólatré – krakkar, ætlið þið að telja með mér?  5 4 3 2 1 – ljós. 

Ummæli

Nafnlaus sagði…
Yndislegt! - Hlynur Þór.