Eplasíderkaramella og Rósavatnsmakkarónukökur

Það verður að viðurkennast að jólin hafa verið yndisleg í alla staði :-)  Fékk yndislegar jólagjafir (takk allir :-) og átti frábærar stundir með fjölskyldunni.

Á meðal gjafanna leyndist sælgætishitamælir frá mömmu og pabba og ég gat auðvitað ekki látið árið líða áður en ég prófaði hann.  Því skellti ég mér í að búa til karamellu og makkarónukökur í fyrradag og kláraði í gær og mæ og mæ, mikið er þetta erfitt að standast freistinguna að borða þetta allt strax og ein :-)

Eplasíderkaramella
Upprunalega uppskriftin

4 dl eplasíder
2 dl rjómi (ég svindlaði og notaði matreiðslurjóma)
1 tsk kanill
Örlítið múskat
1/4 tsk allrahanda (ég átti ekki svoleiðis og notaði negul í staðinn)
75 ml sýróp
1 dl smjör (skorið í bita)

Aðferðin var skemmtilega einföld ... tókst nú samt að klúðra þessu í fyrri tilraun ...

Eplasíderinn góði!

Settur í pott og látinn sjóða í opnum potti þar til það 
hefur hefur gufað upp og aðeins ca. 75 ml eftir ...

Á meðan er fínt að setja ríflega 1 dl rjóma í skál
og bæta út í kryddunum, hræra saman


Bæta svo eplasídernum út í og blanda aðeins betur ...

Þá eru ca. 75 ml af rjómanum, 1 dl vatn, sykur og sýróp
sett í stóra pönnu og hitað við meðalhita þangað til
sykurinn bráðnar ... passa að prenna ekki :-)


Sælgætismælirinn sem leyndist í jólapakkanum :-)

Látið sjóða þar til hitinn fer upp í hundrað

Þá er sýrópið tekið af hitanum og kryddblöndunni og
smjörinu blandað út í og hrært saman ...

Pannan sett aftur á hitann og látið sjóða þar til það nær
248°F/120°C ... Ég verð að viðurkenna að ég var aðeins 
of óþolinmóð því ég var orðin of sein í mat til mömmu ...
og ákvað þess vegna að 110°C hlytu að vera nóg ...
ég meina, hún var búin að sjóða alveg heillengi og leit
voðalega vel út ...

Hellti innihaldi pönnunar í form og skellti inn í ískáp ...
í morgun komst ég svo að því að ég hafði verið einum
of fljót á mér og að karamellann hafði ekki verið tilbúin
því hún hafði aðeins storknað ofan á og já, var eiginlega
bara enn rennandi og ekkert karamella ... 

Ég lét þó ekki deigan síga og þegar ég kom heim af 
bæjarráðsfundi tók ég mig til og hellti úr forminu
aftur á pönnuna og í þetta skiptið með þolinmæðina
að vopni!  Bætti líka við ca. hálfum dl af sykri 
(bara svona til öryggis)

Viti menn, það sem ekki tókst í gær heppnaðist stórvel,
hitinn fór upp í 120°C og karamallan leit svaka vel út!

Hellti henni aftur í formið og eftir 10 mínútur var hún
strax orðin meira storknuð en um morguninn og
eftir smá tíma í ískápnum leit hún svona út :-)

Hrikalega góð karamella sem ég mæli eindregið með!  Hlakka til að prófa fleiri uppskriftir með nýja sælgætishitamælinum :-)

Önnur uppskrift sem ég skellti í voru rósavatnsmakkarónukökur :-) Þar sló ég tvær flugur í einu höggi þar sem ég gat bæði prófið rósavatnið sem var heilmikið ævintýri að finna og uppskriftin krafðist sælgætishitamælis (þó ég haldi reyndar að hann hafi verið algerlega óþarfur í þetta skiptið) ...

Rósavatnsmakkarónukökur
Skelin:
100 gr eggjahvítur (ca. 3 stór egg)
100 gr möndluhveiti (eins fínt og hægt er)
100 gr flórsykur
180 gr sykur
50 gr vatn (setti 50 ml)
40 gr rósavatn (setti 40 ml)
1 dropi rauður matalitur (sleppti)

Kremið:
1 dl smjör, mjúkt
3 dl flórsykur (setti 3 1/2 dl)
1/2 tsk vanilludropar (setti örugglega a.m.k. 1 tsk = smá slatta)
1/2 tsk sítrónusafi (sleppti/gleymdi - mæli þó með til að minnka sætuna)

Ég byrjaði á því að gera möndluhveitið, var með poka af
skinnlausum möndlum, setti í matvinnsluvélina og hakkaði
vel og lengi.  Sigtaði svo möndlurnar þangað til grófustu
kornin voru ein eftir.

Þá kom sér vel að eiga kaffikvörn :-)  Skellti stærstu 
möndlukornunum í kvörnina og kveikti á ...

Virkaði svona líka vel :-)

Setti svo möndluhveitið og flórsykur saman í matvinnslu-
vélina og blandaði vel saman.

Sigtaði svo sykur/möndlublönduna aftur

Bætti einni eggjahvítu út í ...

... og hrærði saman með sleikju þangað til að það
myndaðist þykkt deig, þegar það var komið þá
var skálin sett til hliðar og látin bíða.

Þá voru það fastir liðir eins og venjulega,
þ.e. að þeyta 2 eggjahvítur ...

Þegar eggjahvíturnar voru orðnar hvítar og freiðandi,
þá hellti ég út í sýrópi sem ég gerði í potti: vatn,
rósavatn og sykur látið sjóða saman þar til 230°F/
110°C hefur verið náð á sælgætishitamælinum.
(ég held reyndar að hitamælirinn hafi verið óþarfur,
bara að ná upp suðu og láta sjóða í smá stund)

Stundum væri gott að vera með þrjár hendur :-)

Jafnvel fjórar hendur!

Svo blandaði ég möndludeiginu og marengsinum saman

Vel og vandlega, samt ekki of mikið :-)

Lítur vel út ekki satt? :-)

Svo setti ég deigið í poka og pípaði því í litla punkta,
gerði það engan vegin nógu vel, því þeir eiga að vera
alveg sléttir, en í þetta skiptið var mér eiginlega alveg
sama, bragðast alveg eins ekki satt? :-)
Þá kveikti ég á ofninum til 148°C, geymdi plötuna inni
í ofninum til að hita hana.  Þá lét ég kökurnar standa
á pappírnum í ca 25 mínútur, eða þangað til ég gat 
snert þær án þess að fá deig á puttann.
Þá voru kökurnar settar inn í ca. 12 mínútur.

Svona komu þær út úr ofninum, mjúkar og yndislegar
að innan, stökkar og góðar að utan :-)  Eftir á að 
hyggja þá hefði líklega verið betra að stilla ofninn á 
140°C og hafa þær aðeins lengur inni, en prófa það næst.

Þá var það kremið, einfalt og gott smjörkrem,
smjörið hrært saman ...

Flórsykrinum bætt við ... setti reyndar 
ca. hálfan dl. meira af flórsykri en átti
að gera til að minnka aðeins smjörbragðið
og setti svo slatta af vanilludropum :-)

Voilá, kremið tilbúið til notkunar.

Skellti því í poka og vegna skorts á höndum þá notaði
ég einfaldlega stórt glas til að aðstoða mig, virkaði vel :-)

Kremið var svo sett á eina köku og önnur ofan á ...

Nammi, nammi, namm :-)





Mikið hrikalega eru þetta góðar kökur, þær eru mjög sætar og mæli með að gera þær minni en stærri.  Ég var eiginlega alveg miður mín seinni partinn í gær yfir hvað þetta og karamellan var góð, því það er ansi hætt við að ég muni rúlla í vinnunni á mánudag :-)

Að lokum þakka ég gamla árið og vona að við eigum saman góðar matarstundir á nýju ári!

Meira síðar.



Ummæli

Nafnlaus sagði…
Hæ skvís og gleðilegt ár :)
Kemur e-ð epla og rósabragð?

Kveðja,
Hrefna
Vestfirðingurinn sagði…
Gleðilegt ár sömuleiðis :)

Já, það kemur tvímælalaust eplacíderbragð af karamellunni, en rósabragðið drukknar svolítið í vanillukremun, en auðvitað er hægt að setja rósavatn í kremið í staðinn fyrir vanilludropa :)